14.01.1943
Neðri deild: 32. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

4. mál, áfengislög

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Lagafrv. svipað þessu var til umr. 1939. Það var sent til ríkisstj., sem gaf álit sitt 28. nóv. 1939. Í áliti, sem utanrh. sendi þá allshn., segir m.a.:

„Þeir milliríkjasamningar, sem helzt koma til greina í þessu sambandi, eru samningur sá milli Íslands og Portúgals, er felst í bréfaskiptum ríkisstjórna beggja landanna frá 9. apríl og 9. maí 1923, sbr. auglýsingu nr. 62 30. des. 1924 í A-deild Stjórnartíðindanna, og samningurinn milli Íslands og Spánar frá 23. júlí 1923, birtur í A-deild Stjórnartíðindanna með auglýsingu nr. (13 30. des. 1924.

Samkvæmt samningum þessum, sem báðir eru í gildi (sbr. viðskiptasamkomulagið milli Íslands og Spánar frá 1934, 7. liður erindanna, bir t í A-deild Stjórnartíðindanna með auglýsingu nr. 66 12. des. 1934), nýtur Ísland ýmissa hlunninda að því er snertir tolla í þessum löndum, þar á meðal ber sérstaklega að nefna, að íslenzkur saltfiskur nýtur beztu kjarameðferðar að því er tolla snertir í báðum löndunum. Til þess að ná þessum samningum, varð Ísland að skuldbinda sig til þess að undanþiggja innflutning á spönskum og portúgölskum vínum, sem ekki er í meira en 21% af vínanda, frá aðflutningsbanninu á áfengi samkvæmt lögum nr. 91 14. nóv. 1917, og var þessi undanþága gerð með lögum nr. 3 4. apríl 1923. í 3. gr. hinna síðastnefndu laga var svo fyrir mælt, að ákvæði, sem sett kynnu að verða til varnar misbrúkun við sölu og veitingu þessara vína, megi ekki ganga svo langt, að þau geri að engu undanþágu vínanna frá ákvæðum aðflutningsbannslaganna. Enn fremur segir svo í samningnum milli Íslands og Spánar frá 23. júlí 1923, 2. gr., að Ísland njóti beztukjarameðferðar að því er snertir toll á fiski, „gegn því að Ísland veiti vínum frá Spáni, sem ekki innihalda meira en 21% af vínanda (alkohol), undanþágu frá ákvæðum íslenzkra laga frá 14. nóv. 1917 um bann gegn innflutningi áfengra drykkja, og gegn því að Ísland ekki með reglugerð um misbrúkun vína setji ákvæði, sem koma í bága við undanþágu spánskra vína frá ákvæðum nefndra laga.“

Í 1. mgr. 2. gr. frv. um breyting á áfengislögum, nr. 33 9. jan. 1935, segir, að „í þeim kaupatöðum, þar sem nú eru áfengisútsölur, skal, þegar meiri hluti bæjarstjórnar eða 1/4 hluti kjósenda í hlutaðeigandi kaupstað krefst þess, fara fram atkvæðagreiðsla kosningabærra manna í kaupstaðnum um það, hvort útsölunni skuli haldið áfram. Einfaldur meiri hluti atkvæða ræður þá úrslitum“. Frumvarp þetta felur því í sér ákvæði, sem eru í ósamræmi við samninginn við Portúgal og virðist brot á samningnum við Spán, samanber framansagt, að því er tekur til vína, sem ekki innihalda meira en 21% af vínanda, með því að í því felast möguleikar til þess að koma algerlega í veg fyrir sölu og væntanlega þá einnig innflutning á þessum vínum.

Stefán Jóh. Stefánsson.“

Þetta álit, sem gefið var til allshn. 1939 af hæstv. utanrh. (StJSt), er í öllum atriðum að mínum dómi ennþá óbreytt. Það verður að líta svo á, ef frv. þetta yrði samþ., að þá sé ástæða til að búast við, að annar samningsaðili, Spánn, hafi rétt til að telja það vera brot á ákvæðum þeirra samninga, sem við höfum við hann, sem hér er vitnað í. Og þar af leiðandi verður að gera ráð fyrir, ef við samþ. frv., að við eigum á hættu. að þessi samningsaðili telji ástæðu til að telja samninginn úr gildi fallinn. Það kemur þá til athugunar að gera sér grein fyrir, hvort það sé hagkvæmt eða óhagkvæmt fyrir Ísland, að annar aðilinn segði samningnum upp. Eða hvort það verði hagkvæmt eða óhagkvæmt fyrir Ísland, að samþ. verði 2. gr. í þessari brtt., þar sem gert er ráð fyrir því að leggja fyrir ríkisstj. að segja upp samningum, sem þetta kann að koma í bág við.

Eins og tekið er fram í bréfinu, sem ég las upp, höfum við samninga við Spánverja um, að við njótum beztu tollréttinda. Nú stendur svo á, að markaður fyrir saltfisk hefur þrengst mjög. Um skeið hefur ekki tekizt að selja saltfisk til Spánar, en í landinu eru nú um 800 tonn af fiski, sem ætlazt var til, að færi til Suður-Ameríku. Samkvæmt upplýsingum í gær frá fisksölusambandinu er svo komið að ekki er hægt að selja þenna fisk á neinn stað, sem við náum til á hnettinum, nema til Spánar.

Með þessu vildi ég hafa sagt, að ríkisstjórnin lítur svo á, ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samþ., þá eigum við á hættu, að samningur okkar, sem við höfum um saltfisksútflutning til Spánar, mundi verða afnuminn. Og það virðist augljóst, að það væri mjög óhagkvæmt, að slíkt kæmi fyrir einmitt nú.

Ég hef heyrt, að menn dragi í efa, að Spánarsamningurinn sé í gildi. Utanrh., ráðuneytið og ríkisstjórnin telja ekkí vafa á, að hann sé í gildi. Það liggur ekki fyrir neitt, sem gefur tilefni til að álykta, að hann sé ekki í gildi.

Enda þótt mér persónulega hefði verið mikil ánægja í því, að lög eins og þau, sem felast í þessu frv., gætu orðið framkvæmd, og mér hefði orðið ánægja að geta staðið að því, að viss skilyrði, sem eru í Spánarsamningunum, verði felld niður, þá sé ég mér ekki annað fært en leggja eindregið til, að Alþ. forðist að gera nokkra lagasetningu, sem geti valdið því, að þau kjör, sem við njótum nú, um tollfríðindi á Spáni og í öðru landi, verði felld niður. Þess vegna vara ég við, eins og stendur, að setja í l. þau ákvæði, sem lagt er til í þessu frv.