19.01.1943
Neðri deild: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

4. mál, áfengislög

Jörundur Brynjólfsson:

Þetta skulu aðeins verða örfá orð. Ég hef leyft mér að koma fram með brtt. við 2. gr. frv.

Við umr. hefur komið fram, að þessi samningur er að því leyti í litlu gildi, að það er lítið eftir honum farið, og veldur því það ástand, sem nú er í heiminum, og má segja, að hvað framkv. samningsins áhrærir, sé hann ekki í gildi. Hitt má vera, að formlega séð sé samningurinn í gildi og fyrir því er gert ráð af hálfu n. Á síðustu stundu var þessari till. n. breytt, og skilst mér sem þá sé veikt allmjög aðstaða stj. um samningagerð um þetta atriði. Má þá vera, að hinar erlendu stj., sem talað yrði við um þetta mál, vildu gera sinn vilja gildandi í þessu efni, og skilst mér, að æskilegra muni, að stj. Íslands hafi að baki sér ákveðinn vilja Alþingis. Telji nú stj., að ákvæði þessi komi í bág við milliríkjasamninga, skilst mér, að slík samþykkt eins og þessi breytingartill. er orðuð frá þingsins hálfu, styrki mjög aðstöðu stj. til þess að fá vilja sínum framgengt, og er það aðalatriðið. Það munu vera skiptar skoðanir manna á því, hvort það skuli á þennan hátt vera undir kjósendum komið, hvort útsala vína skuli heimil. Hverjir, sem kunna að eiga sæti í stj., treysti ég henni til þess að gæta þess í nýjum samningum, að vilji þingsins komi fram í þessu efni. Ég vil því, að gengið verði úr skugga um vilja háttv. þm. í þessu efni, og kemur þá væntanlega í ljós við atkvgr., hver skoðun manna er um málið sjálft, hvort vilji er fyrir því, að þessi breyt. verði gerð eða ekki, og fer bezt á því, að það komi við atkvgr. málsins berlega fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vil vænta þess, að hv. þd. fallist á þessa brtt. Því að svo framarlega sem mönnum er það alvörumál, að lög séu sett um þetta efni, held ég, að bezt sé, að hún verði gerð eitthvað í þá átt, sem brtt. þessi hljóðar um.