17.02.1943
Efri deild: 58. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

4. mál, áfengislög

Hermann Jónasson:

Það er svo langt síðan þetta mál var hér til umr., að ég hef gleymt mestu af því, sem ég hafði ætlað að gera aths. við. Ég vil þó sérstaklega taka fram í sambandi við þetta mál, af því að í þessum umr. hefur því tvennu verið ruglað saman, að þeir, sem fylgdu þessu frv. um héraðabönn, væru fylgjandi bannstefnunni yfirleitt, að ég fyrir mitt leyti vil taka fram, að því er ekki svo háttað með fylgi mitt við þetta frv. Ég lít svo á, að jafnvel það ástand, sem nú ríkir í áfengismálunum og hv. þm. er vel kunnugt, að leyfa einstaklingum að kaupa svo og svo mikið af áfengi, væri á eðlilegum tímum alveg óviðunandi. Við þurfum ekkert að lýsa því hér í d., hvernig þessu er fyrir komið og hve margir annmarkar eru á þessu fyrirkomulagi. En þrátt fyrir þessa ágalla, er ég því fylgjandi, að þessi takmörkun sé gerð með öllum þeim ágöllum, sem á henni eru.

Ég þarf ekki að eyða tíma d. í að skýra, hve þessir tímar eru alveg sérstakir. Við rákum okkur á það mjög tilfinnanlega, þegar það enska herlið kom hingað og það bandaríska, að þá hafði hin ótakmarkaða áfengissala þær afleiðingar, sem við, sem höfðum mest við það að stríða, viljum ekki að endurtaki sig, og því er ekki að leyna, að í seinni tíð á siðasta ári, hafa þau óhöpp, sem hafa viljað til í sambandi við herliðið, frekar farið vaxandi en minnkandi. Það er óhætt að gera ráð fyrir, að væri áfengissalan með þeim hætti, sem hún var, áður en þetta leiðinlega fyrirkomulag var tekið upp, þá mundu afleiðingarnar ekki leyna sér fyrir okkur í Rvík og víðar. Þess vegna get ég sætt mig við, að gerðar séu takmarkanir eins og þær, sem hér er gert ráð fyrir, enda þótt ég sé ekki fylgjandi bannstefnunni af ástæðum, sem ég hef áður tekið fram og þarf ekki að endurtaka hér.

Ég viðurkenni, að á þessu frv. eru gallar, og ég viðurkenni líka, að tvísýnt er, að hve miklu gagni þessar ráðstafanir koma. En ég vil ekki spyrna gegn því með atkv. mínu, að gerðar séu þessu líkar ráðstafanir, þótt ekki sé víssa fyrir, að þær komi að fullu gagni. En þessi afstaða mín er algerlega óháð þeirri afstöðu, sem ég kynni að taka til málsins á eðlilegum tímum.