19.02.1943
Efri deild: 60. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

4. mál, áfengislög

Ingvar Pálmason:

Við 2. umr. þessa máls var ég ekki við látinn til þess að geta mætt á fundi.

En ég þurfti á fundartíma að koma konu minni til læknisskoðunar. Ég tilkynnti forseta, að ég geti ekki mætt á fundinum. En vegna þess að ég gat ekki mætt þá þykir mér hlýða að segja örfá orð um afstöðu mína til málsins.

Ég gat þess strax við 1. umr., að frv. í þeim búningi, sem það kom til hv. d., væri þannig, að ég teldi, að sumpart væri mjög lítill fengur að fá það og í öðru lagi væru ákvæði í 2. gr. frv., sem ég teldi alveg óviðeigandi. Þessi ákvæði eru, þar sem svo er tilskilið, að l. skuli ekki öðlast gildi, ef viðkomandi utanrh. telur, að þau komi í bág við samninga, sem gerðir voru við Spánverja 1922. Ég ætla ekki, við þessa umr., að fara út í skoðun mína á þessu efni, hvort ákvæði 1. gr. þessa frv. fari í bág við nefnda samninga. En hitt vildi ég benda á, að þegar við ræðum mikið um það, og höfum talað allstranglega um það, að Ísland sé orðið frjálst og óháð ríki, þá kann ég ekki við, að Alþ. samþykki l., sem gefa í skyn, að svo sé ástatt um sjálfstæði okkar, að við höfum gildandi utanríkis samninga, sem grípa það mikið inn í innanlands löggjöf, að við getum ekki veitt borgurum landsins jafnrétti.

Það stendur þannig á, að í áfengislögunum eru ákvæði um, að ekki megi setja neinstaðar á stofn útsölu á áfengi, nema viðkomandi hérað hafi samþ. að óska eftir því. Hins vegar er svo ástatt, að ég hygg, í þeim kaupstöðum landsins, þar sem áfengis útsölur eru, að íbúum þessara kaupstaða er, — vegna utanríkis samninga, sem gerðir voru 1922 — meinað að hafa jafnrétti í þessu efni við aðra borgara landsins. Ef þessi skilningur er réttur, sem ég sé ekki ástæðu til að leggja neinn dóm á, eins og málið horfir við, þá þykir mér vera of dýru verði keypt þessi réttindi, sem háttv. flutningsmenn frv. ætla sér að ná, — með því að viðurkenna í l., að svona sé ástatt.

Málið horfir við mér þannig, að það eru ekki eingöngu ákvæði um meðferð áfengis í landinu, heldur kemur það beint inn á sjálfstæðismál okkar. Og ef ég hefði átt kost á að greiða atkv. um frv. við 2. umr., hefði ég greitt atkv. með 1. gr. en móti 2. gr. Nú hefur þetta farið þannig, að við 2. umr. var frv. samþ. í þessum búningi, og nú sé ég ekki ástæðu til þess að koma með brtt. við þessa umr., af því að nú er ekki hægt að' greiða atkv. um 2. gr. sérstaklega, þ.e., að sú gr. falli niður. Ég sé ekki ástæðu til þessa, því að mér virðist það vera svo, að meiri hl. d. vilji hafa ákvæði 2. gr., ef málið á að ganga fram, þ.e.a.s. að slá þann varnagla að lýsa þeirri skoðun d., að Spánarsamningarnir geti hindrað það, að við gerum þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í 1. gr.

Og hvað sem því líður, vil ég leggja áherzlu á það, að ég tel ekki vansalaust fyrir þingið að láta þetta að tilefnislausu koma fram. Ég veit ekki til, að Spánverjar hafi gefið minnsta tilefni til þess, að farið sé að auglýsa, að Spánarsamningurinn banni okkur slíka borgaralega jafnréttis leiðréttingu, sem felst í 1. gr. Og þegar svo stendur á, finnst mér það vera minnkun fyrir þingið að láta slíkt frá sér fara.

Hins vegar er það, að þegar ég fyrir mitt leyti er búinn að meta þá breyt., sem felst í 1. gr., og á hinn bóginn þann böggul, sem fylgir skammrifi, sem felst í 2. gr., þá verður niðurstaðan hjá mér, að ég vil ekkert gefa fyrir þessi ímynduðu réttindi í 1. gr., vegna þess að þau eru gerð að engu með 2. gr. Þess vegna mun ég í þeirri meiningu að firra þingiðvansa greiða atkv. móti frv.