14.04.1943
Sameinað þing: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

Þinglausnir

forseti (HG):

Herra ríkisstjóri. Háttvirtir .alþingismenn. Þessu Alþingi er nú lokið. Það er hið 61. löggjafarþing og 16. aukaþing, en 76. samkoma frá því, er Alþ. var endurreist. Frá stofnun Alþ. eru á þessu ári liðin 1013 ár, en 2 ár frá því æðsta vald í málefnum þjóðarinnar var falið íslenzkum, þingkjörnum ríkisstjóra.. Aldrei fyrr hefur Alþingi átt jafnlanga setu og aldrei haldið svo marga fundi sem nú. Þykir mér rétt, að venju, að drepa nú á nokkur þeirra mála, er afgreidd voru á þinginu.

Alþingi samþykkti til fullnaðar frv. til stjórnarskipunarlaga um breyt. á stjórnarskrá ríkisins, og er samkvæmt því heimilt að ákveða með samþykkt eins þings að gera þær breytingar á stjskr., sem leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar taka með stofnun lýðveldis til fullnustu í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins, enda komi til samþykki meiri hluta allra kosningabærra manna í landinu við leynilega atkvæðagreiðslu.

Af lögum um félagsmál skulu þessi nefnd: lög um orlof, merkilegt nýmæli í íslenzkri löggjöf og þýðingarmikið, lög um að auka svið stríðsslysatrygginga, breytingar á l. um alþýðutryggingar, um nokkuð aukin framlög til sjúkratrygginga, og ný lög um húsaleigu í stað eldri laga um það efni. Enn fremur var ákveðið í l. um dýrtíðarráðstafanir sérstakt 3 millj. kr. framlag til eflingar alþýðutryggingunum. Fjárlög þau, sem Alþingi afgr. fyrir yfirstandandi ár, gera ráð fyrir að útgjöld ríkisins verði um 65 millj. kr. Er það nærri þreföld upphæð á við hæstu fyrri fjárlög; þó er upphæð þessi tveim tugum millj. kr. lægri en tekjur ríkissjóðs reyndust á s.l. ári.

Höfuðverkefni þessa þings var að gera ráðstafanir til þess að stöðva og lækka dýrtíðina og tryggja atvinnureksturinn í landinu. Mestum hluta af tíma þingsins hefur verið varið til þess að leita úrræða í þessum málum. Voru afgr. þrenn lög varðandi dýrtíðarmálin: Breyt. á l. um dómnefnd í verðlagsmálum, l. um verðlag og l. um dýrtíðarráðstafanir, auk laga um innflutning og gjaldeyrismeðferð. Ýmsir munu telja nokkur atriði í löggjöf þessari orka tvímælis. En reynslan verður enn sem fyrr réttlátastur dómari um gildi hennar. Veltur og mikið á því, hvernig framkvæmd hennar fer úr hendi í einstökum atriðum.

Ríkisstjórn sú, er fór með völd, er Alþ. kom saman, hafði áður afhent ríkisstjóra lausnarbeiðni. Tilraunir til að mynda ríkisstjórn, sem hefði yfirlýstan stuðning meiri hluta Alþ., báru engan árangur. Fól þá ríkisstjóri núverandi hæstv. forsrh. að mynda ríkisstjórn, og er ráðuneyti hans skipað utanþingsmönnum eingöngu. Framkvæmd þeirrar löggjafar, sem Alþ. hefur ætt, er nú í hennar höndum. Það er ósk mín og alþingismanna, að sú lagasetning og störf Alþ. og ríkisstjórnarinnar megi verða þjóðinni til gagns og gengisauka nú og síðar.

Vetur er senn liðinn. Sumar fer í hönd. Fyrir hönd Alþ. vil ég flytja landsmönnum öllum einlægar óskir um farsælt sumar og árangursríkt starf.

Ég vil að lokum þakka hv. alþingismönnum gott samstarf á þessu þingi. Við munum brátt aftur kallaðir til setu á nýju Alþingi. — Hittumst heilir!