09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

33. mál, greiðsla íslenzkra afurða

Flm. (Gísli Jónsson):

Eins og um er getið í grg. fyrir þessu frv., þá er allmikill hluti bæði landbúnaðar- og sjávarafurða seldur annaðhvort í umboðssölu af samvinnufélögum, kaupfélögum eða einstökum kaupmönnum, eða fastákveðnu verði með rétti til verðuppbótar síðar meir, þegar varan er seld. Ef umboðssalinn eða kaupmaðurinn er aðeins seljandi að vörunni, þá er það venja, að hún sé greidd með peningum, eða a.m.k. gengið svo frá, að hægt sé fyrir framleiðanda að taka andvirði vörunnar út í peningum gegn veði í þeirri vöru, sem um ræðir. T.d. greiðir SÍF frá 75 til 100% af verði fiskjarins við móttöku, og sama máli gegnir með Lýsissamlag íslenzkra botnvörpueigenda og aðra sölumenn íslenzkra sjávarafurða. Það sama mun eiga sér stað um kaupendur landbúnaðarafurða. T.d. veit ég, að Sláturfélag Suðurlands greiðir mikið af andvirði vörunnar við móttöku í peningum.

Þetta breytist svo, þegar kaupandi afurðanna er einnig smásali og hefur verzlun við framleiðanda, eins og t.d. einstakir kaupmenn eða kaupfélög. Þá breytist þetta þannig, að andvirði afurðanna er fært inn í reikning framleiðandans, og sumir fá svo að segja aldrei vörur sínar greiddar með peningum, jafnvel þó að þeir eigi inni hjá kaupandanum. Að vísu er þetta ekki alls staðar eins. T.d. á þetta sér ekki stað á Suðurlandi, þar gæti það ekki staðizt vegna samkeppninnar. En á Vesturlandi og Austurlandi eru mjög mikil brögð að þessu. Á þessum tímum er það óverjandi að gera efnalitlum bændum þannig erfitt um viðskipti með því að láta þá aldrei sjá peninga fyrir afurðir sínar, en láta þá vera háða þeim aðila, sem kaupir framleiðsluvörur þeirra, ekki sízt þar sem ekki er fyrirbyggt, að þessi sami aðili geti haldið vörunni án þess að greiða hana. Það verður því að krefjast þess og tryggja það með lögum, að ekki sé hægt að neita bændum um peninga fyrir afurðir sínar.

Ég skal leyfa mér að taka þrjú dæmi, sem eru alveg ný. Það var maður, sem átti 3 þús. kr. hjá verzlunarfyrirtæki. Hann þurfti nauðsynlega að senda konu sína fárveika til Rvíkur og vildi fá upp í þetta 300 kr. hjá fyrirtækinu, en fékk það svar, að hann yrði að biðja hreppinn um ábyrgð fyrir legukostnaðinum, því að fyrirtækið væri ekki skyldugt til að láta hann fá þessa peninga, sem hann þurfti með. Annað dæmið er um fátæka konu, sem hafði lengi baslað við að spara til þess að kosta dóttur sina til náms í Rvík. Hún átti 500 kr. hjá slíku verzlunarfyrirtæki, en gat ekki fengið peningana til þess að uppfylla þessar vonir, sem hana hafði svo lengi dreymt um, að rættust. Þriðja dæmið er um mann, sem fluttist af verzlunarsvæðinu, en átti inni 2 þús. kr. hjá viðkomandi verzlunarfyrirtæki. Hann fór fram á að fá þessa innieign greidda í peningum. Engin deila var um, að hann ætti þessa innieign, en samt var honum neitað um greiðslu í peningum, en gat aðeins fengið úttekt í vörum. Það var honum óþægilegt, þar sem hann var fluttur af verzlunarsvæðinu, og varð hann því að fá dóm um málið, sem vitanlega féll þannig, að innieignin skyldi greidd honum í peningum. Ég álít slíkt sem þetta með öllu óverjandi á landi eins og Íslandi, þar sem ekki aðeins er ætlazt til, að frelsi ríki í þessum málum, heldur stefnir öll löggjöf meira og minna að því að vernda hag og rétt lítilmagnans.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um 1. og 2. gr. frv. — 1. gr. er ekki um annað en það, að sá, sem kaupir vöru, sé skyldur að greiða hana að fullu í peningum, nema öðruvísi hafi verið um samið. 2. gr. er um, að ef varan er seld áætluðu verði eða með rétti til uppbótar síðar, sé ekki skylt að greiða við afhendingu nema helming af gangverði hennar, an þess að það hafi áhrif á endanlegt verð vörunnar. Er hér því aðeins að ræða um að tryggja rétt framleiðandans gagnvart verzlunarfyrirtækjunum um peningagreiðslur.

Þó að framleiðanda sé í 2. gr. aðeins tryggður réttur til helmings andvirðis í peningum, þá er það engan veginn eins og það ætti að vera, því að hann ætti að hafa tryggingu fyrir því öllu, en. vegna þess að slíkt mundi skapa verzlunarfyrirtækjunum of þunga vaxtabyrði, a.m.k. fyrst, þá er hér miðað við helming andvirðis, og þó að ekki sé gengið lengra, þá er það mjög mikil framför frá því, sem nú er.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vænti, að d. skilji nauðsyn þess og verði því velviljuð. Ég legg til, að frv. verði vísað til allshn. Það á raunverulega heima þar, þar sem það er mál bæði landbúnaðar og sjávarútvegs.