13.01.1943
Neðri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Það er nokkuð langt síðan þetta mál fór til n. N. hefur gert sér far um að vanda afgreiðslu þess og kynna sér undirtektir þeirra, sem hlut eiga að máli, um breyt. þær, sem frv. gerir ráð fyrir. N. sendi málið til umsagnar sjóðastj. sjálfri, sem sjálfsagt var, enn fremur stjórn Fiskifélags Íslands, Fiskimálan. og stjórn Farmanna– og fiskimannasambands Íslands.

N. hafa borizt bréf frá öllum þessum aðilum, og má segja, að undirtektirnar séu hvetjandi til þess, að frv. verði samþ., en ýmislegt er þó tekið fram í þessum álitum um breyt., sem æskilegar þykja, og skal ég leyfa mér að minnast á þau atriði, hvert út af fyrir sig. Álitsgerðirnar eru hins vegar svo langar, að ég vil ekki lesa þær upp í heild, það mundi taka of langan tíma og tefja afgreiðslu málsins að óþörfu.

Ég kem þá fyrst með álit stjórnar sjóðsins. Hún segir, að hún telji frv. mjög mikla endurbót, ef að l. verði, og vill eindregið mæla með lögfestingu þess ákvæðis, að sjóðurinn fái þann hluta útflutningsgjalds, sem nú rennur í ríkissjóð, og telur, að á þann hátt verði mjög sómasamlega séð fyrir lánsþörf sjóðsins.

Stjórnir sjómanna- og farmannasambands Íslands og Fiskifélagsins mæla með því, að lántökuheinaild sú, sem nú er í l., sé látin standa. Þessar óskir hefur n. tekið til greina.

Þá segir stjórn fiskveiðasjóðs, að hún hafi ekki orðið vör við nokkra óánægju með vaxtakjör, en í frv. er gert ráð fyrir, að vextir séu lækkaðir. En það er ekki von, að stjórnin hafi orðið vör við óánægju, það er skammt síðan vextir voru lækkaðir, og menn hafa orðið þeirri lækkun fegnir og þá ekki verið með umkvartanir um vaxtakjörin, þegar búið var að breyta þeim. En ég gerði nægilega grein fyrir því við 1. umr., að vextir mættu vera lægri en þeir eru, ef sjóðurinn starfaði með eigin fé.

Stjórn sjóðsins segir ekki nema gott um það að veita byggingarstyrki, eins og nú er háttað byggingarkostnaði, en álítur, að það mundi vera hægt að ná sama árangri með því að veita áhættulán út á 2. og 3. veðrétt, en engan styrk.

Ég segi fyrir mig, að ég álít, að slík áhættulán mundu á engan hátt geta komið í staðinn fyrir styrkveitingar. Styrkveitingar eru ætlaðar til að jafna óeðlilegt verðlag og fyrir efnalitla menn, sem þurfa að byggja. En áhættulán með háum vastakjörum eru ekki fyrir efnalitla menn.

Stjórn sjóðsins hefur tekið fram, að hún vilji aðeins bera fram eina ósk, sem sé, að ákvæðin una lánsheimild handa sjóðnum standi.

Fiskifélagið sendir stutta álitsgerð og lýkur lofsorði á frv. í heild, en leggur til, að úthlutun styrkja samkv. 6. gr. sé falin Fiskifélaginu. Hún telur ekki eðlilegt, að lánveitandi sjálfur greiði styrkinn.

Þá skal ég víkja að því, sem fiskimálan. segir. Hún lýkur lofsorði á frv. í heild, en finnst eðlilegt, að fiskimálan., sem hefur úthlutað styrkjum, geri það einnig framvegis.

Fiskifélag Íslands gerir eina aðra brtt. þess efnis, að útflutningsgjald fyrir s.l. 2 ár, þ.e. 1941–1942, verði greitt til fiskiveiðasjóðs. Þetta gat n. ekki fallizt á að taka upp, bæði vegna þess að sjálf sjóðsstjórnin telur, að sómasamlega sé séð fyrir sjóðsútgjöldum á þessum tíma, og svo mun það vera álit nm., að það sé þegar búið að ráðstafa svo miklu af tekjum úr ríkissjóði, að hæpið sé, að hægt yrði að mæta þessari kröfu, þótt ekkí sé hægt að segja, að hún sé ósanngjörn.

Þá er álit Farmanna- og fiskimannasambandsins. Það kemur fram með till. um nýtt frv. Þar er farið fram á, að auk útflutningsgjalds fái sjóðurinn 1/2% þannig, að útflutningsgjaldið yrði meira en Ennfremur, að sjóðnum séu greiddar beint úr ríkissjóði 3 millj. kr. á ári. þangað til hann er orðinn 25 millj. króna. Þá er líka lagt til að hækka rúmlestatölu skipa, sem ættu að njóta styrksins. Svo koma fleiri till., sem n. þóttu ekki til bóta, eins og það, ef afborganir og vextir eru ekki greiddir nákvæmlega á réttum tíma, þá sé lagt á 1% í dráttarvexti fyrir hvern hálfan mánuð, sem náttúrlega er alveg óþekkt fyrirbrigði hjá okkur að leggja slíkar byrðar á atvinnuveg, sem gengur jafnstopult og sjávarútvegurinn. Þar við bætist, að afborganir og vextir séu ekki greiddir innan 6 mán., þá sé láninu sagt upp og gengið að fyrirtækinu.

Þetta teljum við ekki samrýmast þeim skilyrðum, sem útgerðin á við að búa í misjöfnu árferði. Auk þess, sem þegar er getið, hefur n. borizt bréf frá Vestmannaeyjum, þar sem óskað er eftir, að lögfest verði að veita byggingarstyrki. Slíkar áskoranir hafa nm. borizt nokkuð viða að á einn eða annan hátt.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að brtt. frá meiri hl. sjútvn. á þskj. 164. N. hefur fallizt á að verða við þeim óskum, sem fram hafa komið um að fella niður 2. gr. frv., en það er till. um að fella niður lántökuheimild sjóðsins.

Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni, hvers vegna ég legði til, að lántökuheimildin yrði niður felld, og þarf ég ekki að endurtaka það. Ég skal þó í þessu sambandi aðeins geta þess, að það er vani, þegar ríkissjóður eða hið opinbera þurfa að taka lán, þá koma þeir og óska eftir lántökuheimild, þegar lántökuþörf skapast. Hins vegar er hér gert ráð fyrir lántökuheimild, án þess að lántökuþörf sé fyrir hendi. Það eru engar líkur til, að sjóðnum yrði neitað um lántökuheimild, ef þörf hans ykist svo, að hann þyrfti á auknu fé að halda. Samt sá ég ekki ástæðu til að setja mig upp á móti þessari ráðstöfun, þar sem þeir, er hlut eiga að máli, virðast yfir höfuð vilja, að lántökuheimildin haldist. En að taka lán með háum vaxtakjörum — og koma því svo ekki út — er dýr ráðstöfun, en í trausti þess, að stj. sjóðsins verði svo forsjál, að hún fari ekki illa með lántökuheimildina, gátum við fallizt á að verða við þessum tilmælum og leggjum því til, að það standi þá áfram, að sjóðnum sé heimilað að taka 4 millj. kr. lán.

Í öðru lagi leggur n. til, að bæta við 3. gr. l., sem fjallar um það, til hverra hluta skal veita styrki. En þarna ætti að bætast við nýr liður, c-liður, um, að styrkurinn nái til dráttarbrauta. Þetta er náttúrlega ákaflega nákomið útgerðinni og aðeins gleymska, að það var ekki með frá upphafi. Af þessu leiðir einnig, að breyta verður 4. till. í nál., en hún mælir fyrir um það, eftir hvaða mælikvarða styrkir skuli veittir til mismunandi hluta, og þarf þá að bæta þar við dráttarbrautum.

Aðalbreytingin, sem n. leggur til, að gerð verði á frv., er við 6. gr., einkum við síðari mgr. a-liðar, en hún fjallar um, eftir hvaða reglum styrkir skuli veittir. Ég geri ráð fyrir, að þm. hafi lesið nál. og skal því aðeins geta um hina efnislegu breyt. án þess að lesa upp úr álitinu. Með breyt. er fyrst og fremst sett hámark um styrki. Mega þeir nema allt að 25% af kaupverði eða byggingarkostnaði, en þó ekki yfir 75 þús. á skip. Þetta þótti n. nauðsynlegt að taka fram, vegna þess að menn eru farnir að byggja svo stór skip nú, að vel gæti verið, ef ekki væri sett ákveðið hámark um styrkveitingar, en aðeins miðað við ákveðinn hluta byggingarkostnaðar, að styrkurinn gæti numið 1/4 millj. kr. eða meira.

Þá hefur n. sett inn nokkur atriði um það, til hvers eigi að taka tillit við veitingu styrkja, t.d. hvort umsækjandi hefur útgerð að aðalatvinnuvegi. Það virðist sjálfsagt, að ef ekki er hægt að fullnægja öllum styrkbeiðnum, þá sitji þeir fyrir, sem hafa aðallífsframfæri sitt af útgerðinni, áður en þeir, sem stunda hana sem „spekulation“, koma til greina.

Þá er einnig tekið fram, að við ákvörðun fjárhæðarinnar sé tekið tillit til efnahags umsækjanda og í hve mikilli dýrtíð er byggt. Það er gert ráð fyrir, að styrkir verði aðallega veittir, á meðan byggingarkostnaður er svo gífurlegur sem hann nú er, en fjari út, er dýrtíðin lækkar. Það mætti jafnvel taka svo til orða, að þegar verðlagsvísitalan væri komin ofan í visst mark, þá yrðu styrkir ekki veittir, en það þótti ekki þurfa að fara svo nákvæmlega í sakirnar, og lét n. þetta nægja.

Svo hefur n. bætt við, að sett sé reglugerð um styrkveitingar og þar sé lögð refsing m.a. við því að brjóta þau skilyrði, sem um styrkveitingar verða sett í l. og reglum.

Eins og áður er getið, þá eru tveir aðilar, sem telja heppilegt, að þeir hafi með úthlutun styrkja að gera. Við treystum þeim báðum til að úthluta styrkjunum, en það hefur orðið ofan á að láta það haldast óbreytt eins og það er í frv., að stjórn sjóðsins geri það. Það, sem upphaflega vakti fyrir mér sem flm. frv., var, að stjórn fiskveíðasjóðs hefði bezta aðstöðu til að afla sér allra upplýsinga, sem nauðsynlegt væri að hafa, og mundi því standa bezt að vígi með að geta úthlutað styrkjunum skynsamlega. En það er alls ekki þannig, að við vefengjum, að aðrir áður nefndir aðilar séu færir um að gera það og mundu gera það eftir beztu samvizku.

Af því það hefur orðið nokkuð mikið umtal um þessa styrki, þá þótti rétt að afla upplýsinga um nýbyggingar skipa s.l. 2 ár, einkanlega til að ganga úr skugga um, hvort einhver stífla væri í nýbyggingum og hvort hár byggingarkostnaður mundi ekki stöðva byggingarframkvæmdir og leiða til þess, að fiskiflotinn drægist saman og skipakosturinn kynni að ganga til þurrðar. Það er vitanlegt, að mörg skip farast á hverju ári, og auk þess gengur alltaf úr nokkur hluti skipastólsins fyrir aldurs sakir.

Á því ári var byrjað á smíðum 10 báta, sem voru allir smáir, eða samtals 219 smálestir, og enginn var fullgerður á því ári. Ef maður nú athugar, hversu mikið þessir bátar hefðu kostað, þá lætur nærri, að það hefði orðið um 8 þús. kr. á smálestina, og styrkurinn hefði því orðið í kringum 438 þús. kr. alls á þessar 219 smálestir, og það getur ekki talizt mikið fé. Þessum bátum var lokið árið 1942, en það ár var svo aftur hafin smíði 12 báta, er samtals voru 814 smálestir. Mikið af þessari smíði hefur nú stöðvazt, og mér er kunnugt um, að sumir bátarnir verða eigi fullgerðir nema hjálp berist. Sem sagt, það er mjög hætt við, að hið háa verðlag nú muni stöðva viðhald flotans, því að það er ofvaxið einstökum mönnum að láta smíða skip sökum dýrleika, og er þeim því nauðugur sá kostur að bíða, þar til verðfallið kemur að stríðinu loknu. Við þessari hættu er nauðsynlegt, að löggjafarvaldið sjái í tíma, en það verður aðeins gert með því að veita styrki til smíða á skipum og bátum.

Það má segja, að n. hafi verið sammála um frv. að undanskildum einum hv. þm., sem varð viðskila við okkur hina. Hann hefur skrifað nál., sem ég mun ekki fara út í að svo stöddu, en bíða þar til hann hefur túlkað mál sitt. Ég vil að lokum fela málið afgreiðslu hv. d. og vona, að hún flýti því sem mest, svo að það komist til hv. Ed. hið fyrsta.