10.02.1943
Neðri deild: 54. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

16. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Finnur Jónsson:

Ég er einn af þeim, sem áhuga hafa fyrir framgangi þessa máls, og ég held, að ég hafi ekki minni áhuga á því en þeir hv. þm., sem talað hafa hér um frestun þess. Það er talað um frestun til morguns, en það er ekki líklegt, að neinn fundur verði í þessari hv. d. á morgun, og verði þingi ekki frestað, þá er enginn tími orðinn eftir til að ræða brtt. og velta málinu milli deilda.

Fyrir þá, sem vilja framgang málsins á þessu þingi og enga togstreitu um það, er það nú helzt að samþ. frv. eins og það kemur frá Ed. Að vísu voru þar gerðar á því tvær breyt., um hækkun á útlánsvöxtum og hverjir úthluta skuli styrkjunum. En fari nú svo, að þessu þingi verði slitið alveg á næstunni, þá er hægt að flytja frv. til breyt. á næsta þingi, ef þm. eru ekki alls kostar ánægðir með frv. eins og það nú kemur frá Ed. Þetta er tryggara en stofna nú málinu í hættu, svo að það verði e.t.v. ekki samþ. á þessu þingi. Ég vildi því freista þess að reyna að fá málið afgr. á þessum fundi.

Þær breyt., sem gerðar hafa nú verið í Ed., hafa að nokkru leyti komið til álita í sjútvn., og ég tel þær ekki skipta svo miklu máli, að málinu í heild sé stofnandi í hættu þeirra vegna.