02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

80. mál, brúargerð

Eiríkur Einarsson:

Ég ætla aðeins að bæta nokkrum orðum við það, sem ég sagði áðan.

Ég hygg það vera af ókunnugleika sprottið, sem hv. 1. þm. S.-M. var að segja áðan um brúna, sem ég var að tala um, að þyrfti nauðsynlega að taka inn í brúalögin. Ég þykist þekkja hann svo vel, að mér dettur ekki í hug, að hann hafi þar verið að tala þvert um hug sinn. En ég get frætt hann á því, að það er ekki stutt til næstu brúar þarna, heldur langt og það ógerlega langt. Það er ekki annað en að spyrja bændur neðarlega úr Biskupstungum, hvort þeir noti þá brú, sem er fyrir. Þeir munu svara því neitandi. Í fyrsta lagi af því, að of langt sé þangað, og í öðru lagi af því, að þar sé alger vegleysa. Af þessum orsökum er þeim ókleift að hagnýta sér brúna. En þeir vilja heldur notast við ferjuna hjá Króki, og sýnir það bezt brúarþörfina á þeim stað, og er hægur vandi að taka afleggjara frá Biskupstungnabrautinni við Krók til brúarinnar. Það renna sem sagt allar stoðir undir það frá kunnugra manna sjónarmiði séð, að brú eigi að koma þarna og nauðsyn sé á, að hún komi sem fyrst. Um það þarf engum blöðum að fletta. Á þessu vatnaklasasvæði er svo Hvítáin að austan. Þar eru engin vöð, allir flutningar verða að fara fram á ferjuskrifli, þegar ferjufært er.

Ég vil svo aðeins, af því að ég er einu sinni staðinn upp, minnast örlítið á það, sem hv. samgmn. var að amast við, að það skyldi nú eiga að fara að opna brúal. Annar hvor nm., sem talaði, sagði, að n. hefði tekið til athugunar í samráði við vegamálastjóra þær till., sem fram hefðu verið komnar, og reynt að fara sem mest eftir óskum einstakra þm. Ég held, ef skapa á öryggi í þessum málum, þá verði að viðhafa einhver önnur ráð en að fara aðeins eftir þeim óskum, sem einhverjir þm. kunna að hafa fram borið. Það er svo með mig, að ég víssi ekkí til hlítar, fyrr en ég sá þetta frv., hverju fram vatt. Ég vissi um brúaþörfina á þessum stað, en ég vissi ekki um störf n., hvaða aðferð hún hafði í starfi sínu. Mér er spurn: Var einhver almenn tilkynning gefin út um það frá n., að hún óskaði eftir, að hv. þm. skýrðu frá óskum sínum varðandi brúagerð í landinu? Ég hef ekki heyrt neina slíka tilkynningu, og mér vitanlega hefur hún ekki fram komið. Af þessu ætti hv. þm. og hv. samgmn. að vera það ljóst, að þetta tækifæri hér er hið fyrsta fyrir mig til þess að bera fram till. mína um brúargerð. Með þessum orðum vil ég þó ekki vera að kasta steini að neinu eða neinum, það er ekki ætlun mín, heldur aðeins að benda á, hvernig í þessu liggur.

Það er sjálfsagt rétt, sem sagt var hér í umr., að það væri ekki stór skaði skeður, þó að þessi eða hin brúin kæmist ekki inn á brúal., því að það ætti hvort sem er fyrir þeim að liggja að bíða svo og svo lengi, þangað til röðin kæmi að þeim. Því heldur, vil ég segja, ættu hv. þm. að samþykkja þessa brú inn á brúal., þar sem það þýðir í raun og veru ekki annað en að hv. Alþ. vill viðurkenna, að þessi brú á rétt á sér, sem góðir Íslendingar, er farið hafa þessa leið, hafa komið auga á, að nauðsynlega þarf að koma og það sem fyrst. Því skil ég ekki í öðru en að hv. samgmn. mundi taka opnum örmum á móti þessari brú inn í brúalögin.