02.03.1943
Efri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

80. mál, brúargerð

Páll Hermannsson:

Herra forseti. — Það fer nú vel á því, að þrír tillögumenn hér og hv. form. og hv. frsm. samgmn. ræðist við.

Hv. 1. þm. Eyf. hefur algerlega losað mig við það að svara hér nokkrum atriðum, sem mer fundust athugaverð hjá hv. nm., bæði um opnun brúal. og um það, að hér væri á ferð tilraun til að eyða þessu máli, og um það, að það væri óviðeigandi að bera hér fram brtt. við þetta frv. Ég ætla, um þessi atriði öll að láta nægja það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði um þetta. Ég get verið þakklátur hv. nm., hv. formanni og hv. frsm. samgmn. fyrir það, að þeir hafa báðir drepið á það, að brúin yfir Jökulsá á Dal hjá Brú væri á fjallvegi og gæti því komið til mála að byggjast af fjallvegafé. Það liggur fjallvegur beggja megin að ánni, en áin er í þröngum dal, þar sem er tvísett bæjaroð. En út frá þessu er skilningur minn sá, að umbætur, sem þar verði gerðar, hvort sem gerð verður fullkomin brú eða bráðabirgðabrú, þá verði hún kostuð eingöngu af ríkissjóði, og teljist þá sennilega til fjallvega-brúargerða.

En annars er það, að út frá því, sem hv. form. samgmn. lét hér orð falla um það, að sér þætti heldur ómyndarlega gengið að því að bæta úr þessari samgönguþörf þarna, sem sé að brúa þennan geysilega farartálma, sem Jökulsá er, þá vil ég skýra frá því, að þessi á fellur um 100 km í byggð og aðallega í einni sveit. Og íbúar þessarar sveitar, Jökuldals, hafa verið fúsir til þess að leggja fram eftir getu fé í þessa brú. En framlag frá hinu opinbera hefur ekki fengizt til þessa þangað til, ef það verður nú. Vil ég benda hv. þm. Barð. á það, að nú í fjárl. þessa árs hefur í fyrsta sinn komizt fram áætlun um það að gera brú á Jökulsá hjá Hjallalandi, sem er hér um bil í miðri sveitinni. Og það þótti sjálfsagt, að það mannvirki vær í kostað af ríkinu, enda hefur sú brú staðið í mörg ár í brúal. Og þegar þjóðvegurinn milli Norður- og Austurlands var lagður þessi þjóðvegur liggur á kafla eftir Jökuldalshreppi, um röskan 1/3 hluta af lengd dalsins annars vegar — þá fékkst hann ekki lagður nema með því móti, að fólkið þar, og ekki sízt í Jökuldal, legði til hans háar fjárhæðir. En það er nú svona, þar sem e:rfiðleikarnir eru miklir um samgöngur, bæði vegalengdir miklar og vatnsföll mikil, þar er fólkið fúst til að leggja mikið af mörkum til samgöngubóta. Og það hefur ekki skort vilja hjá þessu fólki þarna til þess að láta af mörkum fé til vegabóta. Þörfin hefur verið svo mikil á vegi þarna, að menn hafa viljað leggja á sig allt, sem þeir gátu, til þess að fá samgöngubætur. Og ég þykist vita, að innan skamms verði bætt úr þessari brýnu nauðsyn, sem þarna er um samgöngur yfir Jökulsá hjá Brú, frá því, sem nú er. Maður getur hugsað sér, hvernig það muni vera að flytja allt á kláfum þarna yfir ána, sem flytja þarf yfir hana, t.d. sauðkindur á þann hátt, að ekki er hægt að hafa nema eina kind í einu í kláfnum, og ef fluttar eru klyfjar, þá er ekki hægt að flytja þannig yfir ána nema eina klyf af hesti í einu. Ég tel, að bæta eigi úr þessum samgönguerfiðleikum með fullkominni brú, og held, að bráðabirgðalausnin yrði, þegar allt kemur til alls, kostnaðarmeiri. Þarna þyrfti að brúa 15–20 metra haf; það er líkt og brúin hjá Fossvöllum. Ég veit ekki, hve margir af áheyrendum mínum hafa farið þarna yfir til þess að geta gert sér ljóst, hvað hér er um að ræða.

Mér finnst eðlilegt, að fram komi brtt. við frv. við þessa umr., og mér finnst, að hv. samgmn. ætti ekkert að vera viðkvæm fyrir slíkum brtt.