15.03.1943
Neðri deild: 75. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

80. mál, brúargerð

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Eins og hv. þm. mega vita, get ég tæplega talizt meinsmaður þeirra áhugamála, sem hér eru á ferðinni, en einhvers staðar verður staðar að nema. Það mun vera talin skylda þingn. að halda nokkuð á málum og láta þau ekki fara út í veður og vind, og svo er einnig í vega- og brúamálum. En fari svo, að nú fari að drífa að brtt., eins og þá, sem hv. 2. þm. N.-M. hefur nú borið hér fram, þá er ekki um annað að gera en að láta slíkt ganga undir atkv. hv. dm. í því trausti, að þeir telji nauðsyn til bera að hafa hér nokkurt hóf á. Að því er snertir hv. 1. þm. Eyf., þá hef ég ekki miklu að svara ræðu hans. Hann bar ekki við að koma með rök fyrir máli sínu. Það stendur sem sé enn óhaggað, að samgmn. hefur ekki getað mælt með till., og að till. lá fram á 11. stund í Ed. Hitt er aftur á móti víst, að hvarvetna á landinu er fjöldi vatnsfalla, sem eftir er að brúa og sjálfsagt er, að komi inn í brúal., og þá aðallega vegna þess, að þau vatnsföll eru enn til yfirferðar, en eru svo fjarri alfaraleiðum, að ekkí þykir hlýða, enn sem komið er, að bera fram till. um að taka brýr á þau vatnsföll upp í brúal.

Þá er það hv. 1. þm. Árn. Mér fannst hann vera heldur stífur í málafylgju sinni, þar sem hann ætti manna bezt að vita, að eitthvert hóf verður að vera á, þegar slík mál eru til meðferðar. Nú skal því ekki neitað, að það hefði verið æskilegt að brúa Tungufljót hjá Króki í Biskupstungum, og má vel vera, að það verði bráðlega gert, og meira að segja taldi vegamálastjóri, að að því gæti rekið, að sú brú kæmi inn í brúal. á næstunni. þó að segja megi, eins og þessi hv. þm. sagði, að þar fyrir gæti orðið bið á framkvæmdum. Ég vil aðeins leiðrétta það hjá hv. 1. þ. Árn., að það sé nokkur mælikvarði út af fyrir sig, þó að þeir þm. úr því héraði hafi ekki komið með neina brú inn í brúal. Það eru ýmis héruð, sem eins er ástatt um, og því hefur vegamálastjóri sett brýr, sem áttu að koma, hvort sem var, vegna þess hvernig samgöngur lágu að vatnsföllunum. Hér er því engan veginn verið að stofna til samkeppni við þau héruð, sem ekki hafa nú á þessu þingi fengið brýr samkv, brtt. einstakra fulltrúa þeirra héraða. Sums staðar er það líka þannig, að komið hafa fram frv. um breyt. á brúal., og einmitt þess vegna hafa svo á sínum tíma komið fram brtt. við brúal. í báðum d., og þær brtt. hefur samgmn. svo fengið til meðferðar. Og nm. haf., þá nokkra ástæðu til þess að ætla, að þá hafi þeir sagt sitt orð, en komi ekki á þessu stigi málsins með fleiri brtt. Við, sem búum við mikil vatnsföll, verðum nú að sætta okkur við það, þó að ekki sé brú á sama vatnsfallinu með 5 km millibili. Nú vil ég ekki ræða þetta mál lengur, en ætla að sjá, hvernig meðferð málsins verður. Ef breyt. verða ekki á því gerðar, verður frv. að l. nú, en ef breyt. verður á því gerð, þá fer það að sjálfsögðu til Ed. og verða hv. þdm. að skera úr því með atkv. sínu.