19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það verður ekki annað sagt en hér sé reynt að gera eitthvað það, sem að gagni mætti koma til að hindra verðbólguna í landinu, og þess vegna hefur Alþfl. ekkert á móti því, að hæstv. ríkisstj. sé veitt sú heimild, sem í frv. felst, þó að líta megi svo á, að af þessu muni. ekki leiða neinar stórfelldar umbætur. En þess má vænta, að þetta geti orðið undirstaða víðtækari ráðstafana síðar meir. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér að nota heimildina tafarlaust, eins og skilja mátti af orðum hæstv. fjmrh., og þá í eins víðtæku formi og hægt verður samkvæmt l. Mér þótti líka gott að heyra, að hæstv. ráðh. lýsti yfir því fyrir hönd ríkisstj., að iðnrekendum og kaupsýslumönnum mundi ekki verða endurgreitt tap, er þeir kunna að telja sig verða fyrir, nema í samráði við Alþ., enda teljum við hagnað þessara manna þegar orðinn svo mikinn, að óhætt sé að minnka hann ofurlítið, svo að ekki sé þörf að fara í ríkissjóð til að bæta þeim upp, þó að álagning þeirra yrði að lækka eitthvað. Ég vil um leið geta þess, að Alþfl. telur skipun dómn. hafa verið þann veg frá upphafi, að ekki sé ástæða fyrir alþjóð að bera traust til slíkrar n., og má því vænta þess, ef hæstv. ríkisstj. ber ekki fram brtt. um skipun dómn., að Alþfl. komi með brtt. um þetta efni.

Mér þótti líka vænt um að heyra þá yfirlýsingu hæstv. ráðh., að verðlagseftirlit mundi verða aukið. En ég hefði talið, að nauðsynlegt hefði verið að hafa ýtarlegri ákvæði um það í frv. T.d. hefði ég talið nauðsynlegt að láta festa upp verðlista í búðum og á útsölustöðum, að minnsta kosti um þær vörur, sem dómn. veit um verðlag á, svo að almenningi gefist kostur á að fylgjast með því, hvort ákvæðum l. í þessu efni sé hlýtt. Ég tel nauðsynlegt að vekja áhuga almennings sjálfs fyrir því að fylgjast með þessu. Ég skal játa, að fullkomið eftirlit með verðlagi er erfitt í framkvæmd, en að mínum dómi er það á valdi hæstv. stj. að skipa eftirlitsmann, enda hin mesta nauðsyn. Má ef til vill skilja orð hæstv. fjmrh. svo, að þetta sé í ráði. Þá verð ég að segja það, að mér virðist víti við brotum á I. of væg, þar sem sektir geta farið allt niður í 100 kr., en þess finnast dæmi nú á tímum, að menn víla ekki fyrir sér að brjóta l., ef þeir geta keypt af sér brotið með sektargreiðslum: Mér finnst það ætti að geta varðað missi atvinnuréttinda, ef slík brot af hálfu kaupsýslumanna eru alvarleg. En til þess að slík ákvæði komi að gagni, verður að vera strangt eftirlit, og ákvæðum l. verður að beita vægðarlaust. Mætti athuga það, þó að frv. sé á hraðri ferð, hvort ekki mætti koma fram skrifl. brtt., þar sem viðurlög væru þyngd nokkuð. Annars sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um frv., en lýsi yfir því, að Alþfl. er því samþ. í aðalatriðum.