19.12.1942
Neðri deild: 22. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Ég skal svara með fáeinum orðum þeim athugasemdum, sem fram hafa komið í sambandi við þetta frv. Hv. 4. þm. Reykv. minntist á verðskrá. Ríkisstj. hefur ekki athugað þetta atriði út af fyrir sig, en það skal verða tekið til athugunar, þegar l. koma til framkvæmda, og hygg ég, að ekki þurfi að gera neina breyt. á frv., þótt að því ráði yrði horfið.

Ég vil í sambandi við aðra breyt., sem hv. 4. þm. Reykv. minntist á, segja, að ríkisstj. hefur á prjónunum aðrar ráðagerðir í sambandi við þessi mál en gert er ráð fyrir í frv. En vegna þess að það kostar mikinn undirbúning og mikla athugun, þá telur ríkisstj. hyggilegra að nota þau l., sem í gildi eru, og hyggur, að megi með sæmilegri festu bjargast við þau með þeim breyt., sem farið er fram á í þessu frv. Ég get ekki fullyrt, hvernig þær breytingar kunna að verða, sem gerðar verða í framtíðinni, en ég held ég megi segja, að þær muni ná að verulegu leyti til þeirra atriða, sem hv. 4. þm. Reykv. drap á. Ég vil því mælast til, að frv. fái að ganga í gegnum deildina eins og það er.

Viðvíkjandi þeim möguleika, að kaupmenn kunni að taka nauðsynjavörur úr umferð eða selja þær á „svörtum markaði“, hef ég fengið margar fyrirspurnir og mun reyna að svara. Samkvæmt þeim athugunum, sem ríkisstj. hefur gert á brýnustu nauðsynjavörum, þá munu birgðir fyrirliggjandi til 4–6 mán. Ríkisstjórnin telur því, að ekki muni koma til, að verð á nauðsynjavörum þurfi að hækka á meðan þessar birgðir eru til. Þess vegna fellur niður sú hætta, þá 2 mán., sem gert er ráð fyrir í frv., að þessar ráðstafanir standi. Þess vegna held ég, að varla geti komið til, að kaupmenn hætti að láta af hendi vörur. Hv. 4. þm. Reykv. minntist einnig á olíuna. Það er rétt, að það er stórt atriði, og get ég ekki fullyrt um framtíðarhorfurnar með þá vöru, en ríkisstj. hefur ástæðu til að ætla, að úr þessu greiðist á viðunanlegan hátt.

Þá var minnzt á þann möguleika, að vörur yrðu ekki pantaðar þann tíma, sem þessum ráðstöfunum er ætlað að standa. En er mikil hætta á ferðum, þótt svo færi? Það er ef til vill meiri þörf á því en hætta, eins og nú stendur, því að það er vitað, að skipakosti er þannig varið, að ekki er hægt að flytja nema helming af þeim vörum, sem pantaðar eru. Í New York bíða nú 15–20 þús. smálestir eftir útskipun.