11.01.1943
Efri deild: 28. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

93. mál, hafnarlög fyrir Húsavík

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins við þessa umr. segja fáein orð, aðallega til þess að taka undir með flm., og vil eindregið mæla með þessu frv. Ég hef kynnt mér þetta mál og m.a. skrifað fjvn. um það og færði þar fram rök svipuð þeim, sem eru í grg. frv. Ég álít, að þetta sé mjög mikið hagsmunamál, ekki aðeins fyrir Húsavík, heldur líka fyrir sveitirnar upp af Húsavík og landið í heild. Svo er ástatt á Húsavík, að bátaútvegur er aðalatvinnuvegur þorpsins, og hann getur ekki haldið áfram, hvað þá aukizt í framtíðinni, ef höfnin verður ekki bætt. Auk þessa er búið að verja til bryggjunnar stórum upphæðum, og virðist ekkert vit vera í öðru en að halda áfram að gera höfnina örugga með því að byggja skjólgarð. Eins og flm. gat um, hafa verið gerðar till. um að reisa síldarverksmiðju á Húsavík, og óhjákvæmilegt skilyrði til þess, að það sé hægt, er það, að höfnin verði fullgerð. Þá vil ég benda á það, að Húsavík liggur vel fyrir, þegar að því kemur að skipuleggja íslenzkan landbúnað og koma honum í annað horf. Þá munu einmitt sveitirnar upp af Húsavík verða fjölbyggðar vegna skilyrða sinna til ræktunar og virkjunar og einnig vegna jarðhita.

Eins og flm. tók fram, er Húsvíkingum mikið áhugamál, að þetta komist í framkvæmd, og hreppsn. óskar eftir að byrja á verkinu strax næsta sumar, og er nauðsynlegt, að hafnarlögunum sé breytt vegna þess, að kostnaður er miklu meiri en hann var fyrir nokkrum árum síðan.

Það var gerð hér fyrirspurn til flm. víðvíkjandi rekstri bryggjunnar, sem hann getur sjálfsagt svarað, og vil ég ekki taka þar fram í, en ég hygg, að hún hafi staðið undir sér, og þegar tekið er tillit til þess, að þarna kemur upp síldarverksmiðja og aukinn vélbátaútvegur, er enginn vafi á, að höfnin stendur undir kostnaðinum.