26.02.1943
Neðri deild: 67. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

51. mál, virkjun Fljótaár

Áki Jakobsson:

Ég vil byrja á því að svara fyrirspurn hv. 1. þm. Árn., sem hann beindi til mín og var þess efnis, hvort ég vildi ekki fallast á að gefa frá mér mál það, sem hér er til umr. og ég flyt ásamt öðrum þm. á þskj. 71, og fylgja till. hans í rafmagnsmálum þjóðarinnar. Ég get ekki séð mér fært að verða við þessari beiðni hans. Í fyrsta lagi með tilliti til þjóðarhagsins, því að með fyrirkomulagi því, sem hann leggur til, að haft sé, verður framkvæmdin meira en helmingi dýrari en áætlað er með frv. því, sem hér er til umr. Í öðru lagi get ég ekki orðið við þessari beiðni vegna þess, að með því móti mundi Siglufjarðarkaupstaður fá bæði dýrara og minna rafmagn. Í þriðja lagi get ég það ekki vegna þess, að sú langa og mikla rafmagnslína, sem lögð yrði, mundi verða þungur baggi á raforkusjóðnum, mundi sennilega þurrausa hann, en hann er ætlaður til að standast kostnað af rafveitum um dreifbýlið í landinu og yrði því beint til þess að skaða sveitirnar. Af þessum orsökum get ég ekki orðið við tilmælum hv. þm. um að falla frá fylgi við þetta frv.

Þó að þetta mál, sem nú er til umr., sé þegar orðið mikið rætt. og ástæða virðist e.t.v. ekki vera til þess að lengja umr. miklu meira en orðið er, vil ég þó í sambandi við það, sem í umræðunum hefur komið fram, leyfa mér að segja nokkur orð.

Fjhn. hefur klofnað í tvennt í málinu. Meiri hl. n., sem styðst við till. mþn. í raforkumálum, lengur á móti því, að Siglufjarðarkaupstað verði veitt þessi ríkisábyrgð. En þessi afstaða meiri hl. er ósamkvæm sjálfri sér. Þar sem hann er á móti því að virkja Fljótaá, þá er þetta alls ekki leiðin til þess að stemma stigu fyrir þá virkjun. Það, sem meiri hl. n. hefði því átt að gera, var að fara fram á niðurfellingu l. um virkjun Fljótaár.

Bæjarstjórn Siglufjarðar hefur hagað undirbúningi þessa máls í fullu trausti þess, að ekki yrði brugðið út af þeirri venju sem ríkt hefur um ríkisábyrgð til þeirra virkjana, sem þegar hefur fengizt lagaheimild fyrir. Og ef þessi ríkisábyrgð skyldi ekki fást, þá þýðir það bara, að lánið verður um 1–11/2% dýrara, sem mundi nema 60–90 þús. kr. í hækkuðum gjöldum Fljótaárvirkjunarinnar árlega.

Meiri hl. n. telur það aðalröksemdafærsluna móti frv. þessu, að það fari í bága við þá heildaráætlun, sem nauðsynleg sé í rafmagnsframkvæmdum hér á landi. Ég er því alveg sammála, að haga þurfi framkvæmdum eftir einhverri heildaráætlun að ráði vitrustu sérfræðinga í rafmagnsmálum. Þjóð okkar er fámenn og. fátæk og þarf að hafa þessar framkvæmdir sem hagkvæmastar. En það er svo sem ekkert nýtt, að þessi skoðun komi fram. Þeir Steingrímur Jónsson og Jakob Gíslason hafa allt frá árinu 1930 haft slíka heildaráætlun í huga og miðað framkvæmdir í landinu við þær áætlanir. Og það er síður en svo, að þeir áliti, að virkjun Skeiðsfoss komi á nokkurn hátt í bága við heildaráætlanirnar, heldur er sú virkjun blátt áfram talin nauðsynlegur liður í þeim áætlunum.

N. telur það vera til stórskaða, ef Siglufjarðarkaupstaður virkjar Skeiðsfoss, Sauðárkrókur Gönguskarðsá og að Andakíllinn sé virkjaður fyrir Akraneskaupstað og Borgarnes. Réttu leiðina telur n. vera að virkja Laxá og Sogið fyrir allt landið ásamt Dynjanda og Lagarfossi. Því er haldið fram, að ódýrara sé að virkja slík stór vatnsföll, og er það rétt að nokkru leyti. Þar kemur þó margt til greina, m.a. aðstæður fyrir stífluna og annað, sem henni við kemur. En svo verður líka að muna eftir háspennulinunum, sem þá yrðu langar og dýrar, og fyrst er hægt að gera sér ljóst, hve rafmagnið verður dýrt, eftir að búið er að leggja á kostnaðinn við þá línu og allt, sem henni fylgir. Það er því ekki nóg að búa til einhverja loftkastala í sambandi við þetta mál og segja, að svona og svona væri gaman að geta komið þessu fyrir, sem svo ekki getur átt stoð í veruleikanum.

Í sambandi við heilabrot n. er vert að ljá því athygli, að skoðanir hennar eru í fyllsta ósamræmi við skoðanir allra verkfræðinga okkar. A.m.k. er mér ekki kunnugt um, að neinn verkfræðingur sé á þeirri skoðun, sem n. heldur svo mjög á lofti. Verkfræðilegur ráðunautur n., sem hún virðist leita stuðnings og vizku hjá, er Sigurður Jónsson, sem sæti á í mþn. Enginn verkfræðingur hefur viljað tengja nafn sitt við þær firrur, sem n. hefur haldið fram í þessu máli.

Með þennan grundvöll undir fótum vill svo n. hindra þær virkjanir, sem nauðsynlega þurfa að komast í framkvæmd, allt vegna þessa plans, sem er það miklir loftkastalar og svo mikið í lausu lofti, að ef eitthvað af því kæmist í framkvæmd, mundi það verða hinn mesti trafali fyrir framkvæmd þessa nauðsynjamáls þjóðarinnar að gera sem mestum hluta þjóðarinnar kleift að verða rafmagns aðnjótandi. — Eina af þessum virkjunum, virkjun Skeiðsfoss, ætlar þessi n. svo að reyna að hindra nú með því að fara fram á, að ábyrgðarheimildinni, sem Siglufjarðarkaupstaður fer fram á, að veitt verði, verði synjað, og í stað þess verði gefin ávísun á Laxárvirkjunina. Tölur þær, sem n. setur fram þessari afstöðu sinni til stuðnings, fá á engan hátt staðizt. Yfirleitt er hroðvirknin á þessari afstöðu n. auðsæ, enda var varla við öðru að búast, úr því að n. snerist svo í þessu máli.

En hver er svo eðlilegur gangur raforkumálanna? Er eðlilegt að byrja ofanfrá, setja fyrir sig kortið og strika niður eftir því hér og hvar? Vera með bollaleggingar um að virkja fallvötnin í landinu upp á marga tugi millj. kr. án þess að hafa nema hverfandi möguleika til að sinna því? Þjóðin yrði að leggja fram stór fé í þessu skyni í mörg ár. En allir eða flestir kaupstaðir og mörg þorp geta komið sér upp rafveitum sjálf, ef þau geta fengið hagstæð lán og ríkisábyrgð. Það þarf aðeins að miða við, að hagkvæmt sé að tengja þær rafveitur öðrum kerfum. Ég gæti trúað, að eftir fá ár, — ef horfið yrði að virkjun Fljótaár fyrir Siglufjörð —, þá yrði þörf á að auka rafmagnið, og þá mætti tengja virkjunina — við skulum segja við háspennulínu frá Soginu.

Það er langhagkvæmasta leiðin að kaupstaðirnir byggi sér sjálfir stöðvar, sem miðaðar eru við þeirra þörf og þeir geta staðið undir en síðan verði þessi kerfi tengd. Þá má nota raforkusjóð til þess eingöngu að veita rafmagninu út um dreifbýlið eins og ætlazt var til, þegar hann var stofnaður. En það á ekki að verja honum til þess að leggja eitt eða tvö allsherjar háspennukerfi, enda mundi hann ekki hrökkva til þeirra hluta. Það verður að athuga, að þessar 10 millj. eru sáralítið fé, og jafnvel með hinu árlega framlagi í sjóðinn, sem ráðgert er, mundi þetta fé ná skammt, ef verja ætti því á þann hátt, sem meiri hl. fjhn. leggur til í nál. sínu. Það þarf að fara sparlega með þetta fé, en ekki flana út í stór mannvirki án þess einu sinni að athuga, hvort þau gætu komið að þeim notum, sem ætlazt er til. Nei, það á að verja raforkusjóði eingöngu til þess að koma raforkunni út í dreifbýlið frá hinum ýmsu stöðvum, er síðan gætu orðið eitt kerfi. Öðruvísi kemur sjóðurinn ekki að fullum notum. Þannig hugsa ég mér þróun raforkumálanna, og þannig hafa okkar íslenzku verkfræðingar, sem mest hafa hugsað um þessi mál. einnig hugsað sér þau. En meiri hl. fjhn. og þá líka mþn. í rafmagnsmálum, sem gert hefur þá áætlun, sem meiri hl. fjhn. styðst við, vill fara alveg öfugt að þessu.

Ég hef heyrt Steingrím Jónsson rafmagnsstjóra segja, að það væri óhyggilegt að mþn. skilaði áliti um raforkumálin fyr en Jakob Gíslason, forstöðumaður Rafmagnseftirlits ríkisins, væri kominn heim til landsins og hún hefði ráðfært sig betur við hann. Hún veróur að varast að hlaupa neitt gönuskeið. Málið er svo mikilvægt og þarf svo mikillar athugunar við, að ef því er skilað illa undirbúnu þá getur það spillt fyrir þróun raforkumálanna eða jafnvel ónýtt sumt af því, sem búið er að gera. Mþn. þarf ekki að miða við að skila áliti sínu fyrir neitt ákveðið þing. Það getur beðið, og ég vildi eindregið mælast til þess, að hún bíði með það, þar til hún hefur ráðfært sig við Jakob Gíslason.

Ég vil þá með nokkrum orðum athuga áætlanir n. Hún hyggst að færa sönnur á, að óheppilegra sé að virkja Skeiðsfoss en að leiða háspennulínu frá Laxá um Dalvík, Sauðárkrók og Hofsós til Siglufjarðar. En samanburðurinn hjá n. er ekki réttur. Það er blekking fólgin í þessu. Annars vegar er virkjun Skeiðsfoss áætluð of hátt. Hins vegar er gert ráð fyrir að veita rafmagni með háspennulínu frá Akureyri án þess að taka tillit til stækkunar Laxárvirkjunarinnar og þess, að háspennulínan milli Laxárfossa og Akureyrar ber ekki það aukaálag, sem hér er gert ráð fyrir. Það yrði að koma upp nýrri háspennulinu milli Laxárfossa og Akur eyrar til þess að bera hið aukna álag. En þrátt fyrir það að n. gleymir þessu, er útreikningur hennar samt óhagstæður um nokkrar millj. fyrir þessa rafveitu.

N. er með tvær hugsanlegar leiðir. Sú fyrri á að kosta 8 millj. og 200 þús. kr., en þar er gert ráð fyrir svo lágri spennu, að verkfræðingar telja, að þetta fyrirtæki yrði of dýrt í rekstri. Hin áætlunin er upp á 10 millj. og 400 þús. kr. Þarna er gert ráð fyrir háspennulínu um Dalvík og Sauðárkrók með hliðarlínum til Hofsóss og Siglufjarðar. Ég býst við, að Siglufjarðarkaupstaður yrði að standa undir 4/5 hlutum þessarar upphæðar. En nú er mér tjáð, að hápennulína með sams konar sniði og hér ræðir um mundi kosta 13.9 millj. kr., en það er 31/2 millj. kr. hærra en hærri áætlunin hjá n. Samkv. rafmagnseftirliti ríkisins yrði þá Siglufjörður að standa undir 11 millj. kr. Þessi samanburður sýnir, að virkjun Skeiðsfoss er miklum mun hagstæðari fyrir Siglufjarðarkaupstað en að fá rafmagn frá Laxárstöðinni. Og þó eru ekki öll kurl komin til grafar. Það er ekki hægt að komast hjá því að athuga nánar hvernig afkoman yrði. Nú telst framleiðsla Laxárstöðvarinnar með þeirri aukningu, sem fyrirhuguð er, 4100 kw. Af þeirri orku mundi Akureyri taka 2600, Húsavík 500 og Svalbarðsströnd 100. há eru 900 eftir. Siglufjörður á svo að leggja út í þessa stórkostlegu háspennulínu fyrir 900 kw., sem deilist svo milli Dalvíkur, Sauðárkróks, Hofsóss og Siglufjarðar. Nú getur verið, að í skaut Siglufjarðar féllu tæplega 400 kw. Þar að auki er vitað, að ríkisverksmiðjurnar þurfa um 1000 hestöfl, þegar allar vélar eru í gangi, og að þegar í stað er þetta rafmagn of lítið. Þetta verkar þá þannig, að báðir bæirnir yrðu komnir í stórvandræði vegna rafmagnsleysis. Og mér þykir líklegt, að Akureyringar mundu segja nei, takk, við að leggja stórfé í að auka Laxárvirkjunina og vera svo sviptir því rafmagni, sem þeir hafa lagt í að framleiða. Sem sagt, það yrði óhjákvæmilegt, ekki aðeins að leggja nýja háspennulínu milli Laxárfossa og Akureyrar, heldur og að virkja Laxá á nýjan leik. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því, hve mikið það mundi kosta, og það yrði að gera ráð fyrir minnst 2–3 árum, áður en það yrði komið í kring og Siglufjörður gæti fengið sitt rafmagn.

Og ef tekin er sú lægsta áætlun um kostnað slíkrar aukningar, — sem tekniskt séð er ekki nægileg, því að það yrði of lág spenna —, þá yrði hlutur Siglufjarðar lægst 15 millj. kr. í stað 6–7 millj. að virkja Fljótaá. Það hefur að vísu verið drepið á það fyrr, að bæjarstjórn Siglufjarðar hefur verið svo djörf að leggja út í að kaupa vélar til virkjunar Skeiðsfoss. Hún taldi sig hafa ástæðu til þess að ætla, að það væri óhætt, þar sem heimild í 1. gr. l. um virkjun Fljótaár er aðeins bundin einu skilyrði: að ríkisstj. hafi viðurkennt virkjunaráætlunina, áður en framkvæmd er hafin. Bæjarstjórnin hefur gert þetta. Hún hefur fengið viðurkenningu um, að virkjunarplanið sé framkvæmanlegt.

Það samþykki liggur fyrir. Í krafti þessa atriðis réðst bæjarstjórnin í að virkja Fljótaá, í trausti þess, að hún fengi þá ábyrgð, sem farið er fram á, og hún hafði fulla ástæðu til að ætla, að enginn risi upp á móti, að yrði veitt. Það er þegar búið að panta vélarnar og greiða ákveðinn hluta af verði þeirra. Leyfi er fengið hjá Bandaríkjastjórn handa verksmiðjunum að smíða vélarnar, og það er vitað, að þær eiga að koma hingað í apríl. Hin stóra áhætta í þessu máli er sú, að skipið, sem flytur þær, verði skotið í kaf, en þar verður kylfa að ráða kasti. Það verður ekki hægt að álasa Siglufjarðarkaupstaði, þó svo færi, sem við vonum að ekki verði.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég taka það fram, að Siglufjarðarkaupstaður og íbúar Siglufjarðar kæra sig á engan hátt um að verða öðrum bæjarfélögum eða landsbúum til trafala í viðleitni þeirra til að fá nægilegt rafmagn. Þeir telja að með virkjun Fljótaár verði þeir engum til trafala. Verkfræðingar telja, að fyrirtækið geti staðið undir sér fjárhagslega. Enn fremur, ef smávegis halli verður fyrsta árið, þá getur bærinn fengið lán til að greiða hann. En svo er ekki að vita, að neinn halli verði. T.d. var gert ráð fyrir halla við virkjun Laxár, en hann varð enginn. Og það er ekki aðeins, að Siglufjörður vilji ekki verða öðrum byggðarlögum til trafala, heldur eru Siglfirðingar fúsir til að vera öðrum byggðarlögum að liði um að fá rafmagn. Ég gæti trúað, að það væri meira vit í því að athuga, hvort Sauðárkrókur og Hofsós gætu ekki fengið rafmagn frá virkjun Fljótaár, en úr Laxá. Þó held ég, að virkjun Gönguskarðsár yrði heppilegust fyrir Sauðárkrók. En frá hendi Siglfirðinga er ekkert því til fyrirstöðu, að Fjótaá yrði hagnýtt fyrir fleiri byggðarlög. En hvað sem því líður, þá er það nauðsynlegt, að hafa álit beztu verkfræðinga landsins um rafvirkjun á hverjum stað, til þess að rafvirkjunin geti orðið til sem mestra framfara fyrir landið í heild og sem flestir íbúar þess orðið rafmagnsins aðnjótandi.

Ég álít, að ef samþ. yrði sú dagskrá, sem meiri hl. fjhn. leggur fram í þessu máli, þá væri stigið skref afturábak, en ekki áfram í þessum málum. Ég vil taka það fram, að áætlanir n. eru á skökkum rökum byggðar, og það er sorglegt til þess að vita, ef fimm menn, sem Alþ. hefur trúað fyrir því að fara með þessi mál, bera ekki gæfu til þess að koma því á réttan kjöl, heldur hindra þær framkvæmdir sem þeim var trúað til að greiða fyrir.

Hv. 1. þm. Árn. benti á, að Siglufjarðarkaupstað væri heimilt að virkja Fljótaá, þ.e.a.s. honum væri ekki bannað það, þótt ekki væri veitt ríkisábyrgð sú, sem hann fer fram á, og ef bæjarfélagið þryti fé, þá hlyti ríkissjóður að hlaupa undir bagga. En samkv. öllu skaplegu á ekki að koma til þess. En bæjarfélaginu er gerð virkjunin erfiðari um 60–90 þús. kr., ef það fær ekki ríkisábyrgð.

Það hefur líka komið fram hér á þingi beiðni um ríkisábyrgð til að virkja Andakílsá. Þeim, sem þar áttu hlut að máli, var gefin ávísun á Sogið. Nú hefur því verið breytt í að láta ríkið virkja Andakílsá, sem áður var sagt, að ekki væri neitt vit í að virkja. Þannig snýst n. í kring um sjálfa sig. Þetta sýnir, að málið er ekki nægilega undirbúið. Þetta minnir á það, þegar verið var að ræða um Sogsvirkjunina á árunum. N. verður að varast svona starfsaðferðir. Þær eru hættulegar fyrir málið í heild sinni. Raforkan, sem Akureyri fær frá Laxárvirkjuninni, er þegar ófullnægjandi. Nú á að bæta við vélasamstæðum til að auka orkuna, en þá á líka að veita henni til Húsavíkur og Svalbarðsstrandar, auk þess sem bæta á úr rafmagnsskorti Akureyringa. Dettur nokkrum í hug, að þetta rafmagn mundi nægja einnig fyrir Siglufjörð? Raforkunotkun er ekki hægt að keyra niður og ekki heldur æskilegt.

Þá vil ég taka virkjunaráætlunina, sem fyrir liggur, til athugunar. Ýmsir hafa miklar áhyggjur út af því, að stöðin muni ekki standa undir sér, en ekki virðist ástæða til að óttast það. —Hv. þm. Árn. sagði, að aðalatriðið væri að fá rafmagnið. En ekki er sama hvað dýrt það er. Ef rafmagnið frá Fljótaárvirkjuninni yrði mjög lítið, væri betra að hafa olíumótor. En það þarf að vera svo mikið, að það komi að fullu gagni, bæði atvinnurekstri bæjarins og landsins.

Þá gerði hv. þm. tilraun til að gera bæjarstjórn Siglufjarðar tortryggilega, vegna þess að verktaki hafi sjálfur gert kostnaðaráætlunina. Þetta er rangt. Fyrir liggja áætlanir frá Steingrími Jónssyni rafmagnsstjóra frá 1937 og rafmagnseftirliti ríkisins, endurskoðuð af Höjgaard & Schultz, sem hv. þm. kallar verktaka. En eins og áður er sagt, er það ekki rétt. Þessi athugun Höjgaard & Schultz er yfirfarin af rafmagnseftirlitinu og vegamálastjóra. Þá vil ég taka það fram, að vitanlega mun ba yfirstjórnin tryggja sér verkfræðing vegna þessarar framkvæmdar. Það, sem Höjgaard & Schultz fær, er kr. 300000 fyrir stjórn verksins. Ef kostnaður fer fram úr 6 millj. kr., lækkar þóknunin — og öfugt. En þetta er ekki akkorðssamningur. Ég álít enga ástæðu til að bera nokkuð óheiðarlegt á verkfræðinga Höjgaard & Schultz í sambandi við þetta mál og ekki sennilegt, að þeir setji verkfræðingsheiður sinn þannig í hættu. Finnst mér það ekki vera sæmandi, að þm. skuli bera það fram hér í deildinni.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að bréfi rafmagnseftirlits ríkisins. Það kom og fram hjá hv. þm.a.-Húnv. svipuð skoðun og þar. Þeir bera saman kostnaðinn við Sogsvirkjunina, en þetta er alls ekki sambærilegt. Nú er rafmagnsþörf Siglufjarðar 500–600 hestöfl. En nú liggja fyrir upplýsingar frá ríkisverksmiðjunum, að þær þurfi allt að 1000 hestöflum eða um helmingi meira en íbúar bæjarins.

Í þessu sambandi mundi láta nærri lagi að taka þriðjung Sogsstöðvarinnar og deila því rafmagni niður á höfðatölu. En Fljótastöðin mundi gefa miklu meira rafmagn, því að eins og kunnugt er, erum við Reykvíkingar í vandræðum með rafmagn, og er það sökum þess, að ekki var áætlað nógu mikið afl í byrjun, þegar lagt var í Sogsvirkjunina. Af þessari reynslu ættum við að læra.

Það, sem hv. þm. vitnar í ummæli hr. Jakobs Gíslasonar, er og byggt á misskilningi, því að hann leggur eindregið til, að þetta tækifæri til að koma virkjuninni á sé ekki látið ónotað, þar sem óvst sé, hvenær þá yrði hægt að framkvæma hana. Leggur hann og áherzlu á, hve stórt framfaraspor það sé fyrir bæinn. (Sbr. bréf Jakobs Gíslasonar, 22. júní 1942).

Ummæli hv. þm. um það að rafmagnið verði mjög dýrt á Siglufirði eru alveg út í hött og ekki á rökum byggð.

Vegna tilmæla hv. forseta verð ég að stytta mál mitt. En ég vil leggja áherzlu á, að mál þetta verði rannsakað með gaumgæfni. Legg ég meira upp úr ummælum verkfræðinga en mþn., sem hefur verið með ýmsar slettur í sambandi við þetta mál. Ég vil vara við að leggja nokkrar pólitískar háspennulínur, þótt þær geti litið nógu vel út frá ýmsum hliðum. N. kom inn á það, að þetta mál væri sótt af okkur af of miklu kappi, en ég lít svo á, að það sé gert fremur af forsjá, að vinna að þessum framkvæmdum. N. hefur engan fagmann á þessu sviði og hefur engan verkfræðing með sér, hvorki innlendan né útlendan. Vil ég af velvilja vara nm. við því að sækja málið af svo miklu kappi, því að með því að vera andstæðir þessu máli eru þeir að skemma fyrir því, sem þeir vilja koma fram.