19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Frv. það, sem hér er til umr., var athugað af allshn., og fund hennar sátu og nm. allshn. Ed. samkv. ósk hæstv. fjmrh.

Áður en n. gekk frá nál. sínu, átti hún tal við hæstv. fjmrh., og tjáði hann sig fúsan til að fallast á þær breyt., sem n. hefur orðið ásátt um að gera á frv. En ég vil taka það strax fram, að hér er aðeins um smávægilegar breyt. að ræða.

Ekki hefur enn unnizt tími til, af skiljanlegum ástæðum, að prenta nál., en ég vil leyfa mér að lesa upp breyt. þá, er n. hefur gert á frv., sem er aðeins við 1. mgr. þess, og hljóðar þá 1. mgr. frv. á þessa leið með breyt. n.:

5. gr. laga nr. 79/1942 orðist svo. Ríkisstj. getur ákveðið með auglýsingu, að ekki megi frá útgáfudegi auglýsingar og þar til nánar verður ákveðið, þó ekki lengur en til loka febr. 1943, selja nokkra vöru í heildsölu eða smásölu, innlenda eða erlenda, við hærra verð en lægst var á henni á hverjum stað hinn 18. des. 1942. Sams konar bann við hækkun verðlags má og láta taka til farmgjalda og flutninga á landi og sjó og í lofti, viðgerða, smíða, saumaskapar, prentunar og annars slíks. Ef ágreiningur eða vafi verður um það, við hvaða verðlag skuli miða, sker dómn. úr .

Eins og hv. þdm. hafa heyrt og veitt athygli, fer nál. fram á örlitla. breyt. í 1. mgr. 1. gr. Það má segja, að breyt. sé aðallega tvenns konar: efnisleg og til skýringar. Til skýringar, þar sem í stað þess, er segir í frv.: „selja almenningi á landi hér nokkra vöru“, komi: „selja nokkra vöru í heildsölu eða smásölu“, til þess að þar með sé tekinn af allur vafi um það atriði.

Hin breyt. er efnisleg og á þá leið, að hún bindur gildistöku verðlagsákvæðanna við daginn í gær, eða 18. des., en ekki við útgáfudag auglýsingarinnar. Þetta þótti n. nauðsynlegt að gera til að fyrirbyggja það, að menn hækkuðu vöru sína strax og nú fréttist um frv. þetta, og gæti það orðið til þess, að frv. yrði ekki að þeim notum og næði ekki þeim tilgangi, sem því er ætlað að ná. Af þessum sökum þótti n. ekki rétt að binda gildistöku verðlagsákvæðanna við útgáfudag auglýsingarinnar.

— Eins og ég sagði áðan, hefur hæstv. fjmrh. ekkert að athuga við þessar breyt. Og að lokum vil ég geta þess, að n. setti það í frv., að ákvæðin skyldu ekki gilda lengur en til loka febrm. 1943, og er það í samræmi við yfirlýsingu hæstv. fjmrh. á fundi d. í dag.

Vil ég svo geta þess, að n. spurði hæstv. fjmrh., hvort ríkisstj. meinti ekki með frv. þessu, að ákvæði þess skyldu ná til allra vara og viðgerða, og að ekki mætti undanskilja neitt af því tæi. Hæstv. fjmrh. gaf þá yfirlýsingu, að þessi ákvæði frv. mundu ná jafnt til allra vara og fyrirtækja. Mér þykir réttara að taka þetta fram, þar sem það bar á góma í n. — Þess vil ég og geta, að sumir nm., og þar á meðal ég, vildu fá þyngri refsiákvæði inn í frv., að hækkað yrði lágmarkið á refsiákvæðunum, og ef um stórvægilegt brot væri að ræða að yfirlögðu ráði, þá mætti svipta þann um sama leyfi til að reka verzlun eða iðnað. Niðurstaðan af þessari athugun varð þó sú, að ekki var horfið að því ráði að setja þetta inn í frv., og er það einnig í samræmi við skoðun hæstv. fjmrh., enda vildi n. ekki fara að stofna til deilna um það atriði, einkum þar sem hæstv. fjmrh. gat þess, að hæstv. ríkisstj. hefði í hyggju líkar ráðstafanir og við höfðum í huga, og mundi hún brátt leggja það fyrir þ., af þeim orsökum fannst okkur það ráðlegra og hyggilegra á þessu stigi málsins að koma ekki með brtt.

Ég þarf svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en vitna til þess, sem ég hef lesið upp úr nál. Nefndin leggur öll til, að frv. nái nú fram að ganga, og skal ég svo afhenda hæstv. forseta nál.