25.01.1943
Efri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Máli þessu var vísað til allshn. N. hefur athugað það, en eins og fram kemur í nál., hefur n. klofnað. Meiri hl. n. leggur til allýtarlegt nál. á þskj. 172 og mælir með því, að frv. verði samþ. með nokkrum óverulegum breyt. Þessar breyt. fara í þá átt að taka tillit til athugasemda, sem komið hafa fram frá aðilum, sem frv. var sent til umsagnar. En þessir aðilar voru hreppsnefndir Mosfellshrepps og Seltjarnarneshrepps og sýslunefnd Kjósarsýslu. Einnig þótti viðeigandi að snúa sér til Björns Birnis í Grafarholti, og hefur hann sent n. allýtarlega álitsgerð. Allir þessir aðilar lögðu eindregið á móti því, að frv. væri samþ., en meiri hl. n. sá sér ekki fært að taka frekara tillit til þess en í ram kemur í þeim brtt., sem birtar eru í nál.

Varðandi breyt. í 1. gr., þá miðar hún að því að gera ótvíræðara en áður, hvaða eignir eigi að leggjast undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur samkv. frv. En í frv., eins og það var í fyrstu, var þetta ekki nægilega ljóst, og leiddi þar af, að meira var tekið en ætlazt var til. Var því þessi breyting sjálfsögð. Einnig var því bætt inn í, að sá hluti Vatnsendalands, sem fyrirhugað er að leggist undir friðland Rvíkur, „Heiðmörk“, á einnig að leggjast undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, þegar búið er að taka hann eignarnámi samkv. l. Þá er það beint tekið fram í 1. gr., eins og henni hefur verið breytt, að undanskilið er það land úr landi Varmár, sem selt hefur verið undir þingstað á Brúarlandi og verksmiðjuhverfi á Álafossi. Sannast að segja var það af vangá, að þetta var ekki tekið upp í frv. í upphafi, og fer vel að breyta því.

Þá er breyt. við 3. gr. Hún stafar af því, að eigandi Grafarholts taldi á rétt sinn gengið og ekki er hægt að meta Grafarholt samkv. einu matstigi. Því var það tekið upp í frv., að um hans land skuli gilda almennar matsreglur eða venjulegar eignarnámsreglur.

Þá er breyt. við upphaf 6. gr. frv., og er hún bein afleiðing af breyt. á 3. gr., og þarf ekki að fara um hana fleiri orðum.

Ég hef þá farið nokkrum orðum um þær breyt., sem meiri hl. allshn. hefur gert við frv., og legg til, að frv. verði samþ. með þessum breyt.

Um málið í heild þarf ég ekki að vera margorður. Það var allýtarlega rætt við 1. umr., og kom þá fram nokkur andúð gegn því, og mér virðist af nál. minni hl., að ekki hafi mörg rök bæzt við, og vona ég því að 2. umr. geti orðið stutt. Enda lítum við fylgjendur frv. svo á, að hér sé um augljósa réttarbót og nauðsynjamál fyrir Rvík að ræða, svo augljósa, að ekki þurfi að standa í miklum kappræðum til að sanna gildi málsins. Það mætti meira að segja halda því fram, að í þessu frv. sé of skammt gengið til hagsmuna fyrir Rvík, og sumir hv. þdm. hafa látið í ljós þá skoðun, að frv. nái of skammt og að taka ætti allt Seltjarnarnes og meira af Mosfellshreppi en hér er gert ráð fyrir og að aðeins með þessu móti fáist víðunandi úrlausn þessa máls fyrir Rvík. Ég get búizt við, að svo fari að lokum, að Seltjarnarnes og Rvík sameinist, eins og var um langa hríð, og ég vil lýsa því yfir, að ég mun taka það mál til vinsamlegrar athugunar, þegar slíkt kemur fram. Ég veit, að það eru uppi mjög sterkar raddir í hreppnum sjálfum um það, og það er ekki síður hagsmunamál hreppsins en Rvíkur. Hins vegar held ég ekki, að það sé því til framgangs, sem í frv. er gert ráð fyrir, að fara að blanda þessu máli saman við það. Þess vegna hafa brtt. í þá átt verið látnar niður falla, en ég áskil mér rétt til að taka upp málið síðar.

Eins og mig minnir, að ég hafi drepið á við 1. umr. þessa máls, þá er ekki farið lengra í þessu frv. en svo, að sýna má með sérstaklega ótvíræðum rökum, að sjálfsagt sé, að þær jarðir, sem hér ræðir um, falli undir lögsagnarumdæmi Rvíkur. Það má segja, að mörkin séu ekki heilleg, og hér ekki fundin lausn, sem má standa um aldur og ævi. En við höfum álitið réttara að láta tímann skera úr um það. Við höfum ekki tekið fyrir meira en það, sem Rvík þarf nú þegar á að halda, enda hefur hún þegar öðlazt rétt til allra hinna nafngreindu jarða nema Grafarholts og Keldna, á einn eða annan hátt, sem gerir það eðlilegt og rétt, að þær falli undir lögsagnarumdæmi Rvíkur.

Ég vil geta þess, að í nál. minni hl. og ýmsum athugasemdum, sem n. bárust, sérstaklega frá Seltjarnarneshreppi, þá er því haldið fram sem gagnrökum, að tiltekin jörð, Elliðavatn, hafi verið í stakri niðurníðslu undanfarin ár. Það er satt, að Elliðavatn var um langt skeið í niðurníðslu. Það skal ekki rakið hér. Jörðin var leigð samkv. gömlum samningi þeim, sem seldi bænum hana. Það þótti varhugavert að svipta hann ábúð jarðarinnar, en það var þó gert fyrir 2–3 árum, og jörðin þá tekin til ákveðinna þarfa bæjarins. Allmikill hluti jarðarinnar er alls ekki nýttur sem bújörð, t.d. er sauðfjárrækt bönnuð þar með öllu. Það getur verið, að bændum þarna í kring þyki þetta niðurníðsla. En það tekur nokkurn tíma að koma jörðinni í fulla rækt. Varðandi það, að þetta hafi verið bezta jörð áður fyrr, má benda á það, að búnaðarskilyrði á jörðinni breyttust við það, að allstór flæðiengi, sem þarna voru, lentu undir vatni, þegar stíflað var vegna rafmagnsveitu Rvíkur. Jörðin er ekki það, sem hún var áður, og mun ekki verða, á meðan Rvík þarf rafmagn frá Elliðaárstöðinni. Það er hægt að gera mikið úr niðurníðslu jarðarinnar, þegar svona atriðum er sleppt. En hagnýting jarðarinnar fellur alls ekki saman við það að vera undir öðru lögsagnarumdæmi, eins og hreppsnefnd Mosfellshrepps sagði, þegar rætt var um þetta mál í sumar. Hún taldi hættulegt, að Rvík eignaðist stórfelldar jarðeignir í hreppnum. En eins og segir sig sjálft, koma slíkar jarðeignir ekki að fullum notum, meðan þær eru undir lögsögn annars hrepps. Enda er örðugt að úthluta erfðafestulandi í þessum jörðum, á meðan þær eru undir öðrum hreppum. Þessum rökum, sem þarna voru færð fram fyrir því, að jarðirnar eigi ekki að heyra undir Rvík, þeim er því snúið við, þar sem það, að þær hafa verið undir lögsögn annars hrepps, hefur gert Rvík erfiðara um að gera það, sem gera þarf. Sama er að segja um aðrar jarðir. Ef þær eiga að vera Rvík að fullu gagni, er alveg nauðsynlegt, að þær komist þegar undir umráð Rvíkur.

Um jörðina Keldur, sem er eign ríkisins, stendur sérstaklega á, og virðist eðlilegt að taka hana upp í frv. Um það hefur heldur ekki verið neinn ágreiningur. En það stendur öðruvísi á um jörðina Grafarholt, þar sem hún er einstaklingseign. En eigandi hennar, Björn Birnir, viðurkennir sjálfur, að það sé eðlilegt og muni verða svo að lokum, að hún komist undir lögsagnarumdæmi Rvíkur. Enda er það óumdeilanlegt, að þetta landflæmi, sem sækir allt verðmæti sitt til Rvíkur, er hvergi betur sett en í eign bæjarins, og þarf ekki annað en að sjá sumarbústaðina, sem þar hafa sprottið upp. Það er ekki til hagsmuna fyrir neinn nema eiganda Grafarholts, að svo haldist sem verið hefur.

Allar hinar jarðirnar, sem lagt er til, að keyptar verði, á bærinn ýmist sjálfur eða hefur samið um kaup á þeim. Alþ. hefur heimilað að selja þær, t.d. Hólm og svo Keldur, sem ég gat um sérstaklega áður. Það eru því sérstök óvéfengjanleg rök, sem liggja til þess, að þessar jarðir lendi undir lögsagnarumdæmi bæjarins. Þannig verða þær að mestu gagni fyrir heildina. Og það er mikilsvert, að þær verði að gagni, þar sem 1/3 landsmanna býr hér við þröng skilyrði. En til þess, að þær verði nýttar til hlítar og geti komið að sem mestu gagni, þarf Alþ. samþ. það, sem hér er farið fram á og er innan takmarka þess minnsta, sem hægt er að gera kröfu til.

Það hafa komið fram spurnir um það, hvort tilraun hafi verið gerð um að ná sáttum um verð Grafarholts. Það upplýsist hér með, að reynt var að semja friðsamlega, en það reyndist ómögulegt, því að svo mikið bar á milli.

Mig furðar mjög á því, sem kemur fram í nál. hins löglærða minni hl. allshn., er hann telur, að formlega rangt sé að þessu máli gengið og réttara hefði verið að bera það fyrst undir Búnaðarfélag Íslands. Þetta er hinn mesti misskilningur, og er það rakið allýtarlega í grg. meiri hl., en ég mun þó minnast á það nokkrum orðum.

Þegar um er að ræða mál, sem ekki koma til Alþ., heldur til ríkisstj. einnar, eins og er um eignarnámsheimildina á löndum til ræktunar fyrir kauptún og sjávarþorp, þá má segja, að ástæða sé til að Búnaðarfélagið fái þau til umsagnar, en hér er ekki neinu slíku til að dreifa, heldur á Alþ. eitt að ákveða nauðsyn þess að taka þessar jarðir eignarnámi. Þetta mál er miklu víðtækara en svo, að Búnaðarfélag Íslands sé sérstaklega til þess lagað að geta haft um það rökstudda skoðun. Alþ. aftur á móti lætur það ganga í gegnum 6. umr. í báðum d., og leitar sér auk þess álits allra þeirra aðila, sem málið varða, og þess vegna væri það mjög óeðlilegt, ef það léti Búnaðarfélag Íslands segja sér fyrir í þessum efnum. Slíkt væri fáheyrt og hefur aldrei komið fyrir varðandi slík mál sem þetta. Án nokkurra illra grunsemda varðandi hv. meðnm. mína, þá get ég þó ekki varizt því að álykta sem svo, að þeir beri þessa rökst. dagskrá fram til þess eins að eyða málinu. Ef þeir hefðu viljað leita álits Búnaðarfélags Íslands um það, þá hefði það verið hægðarleikur í desembermánuði s.l., um leið og frv. var sent hlutaðeigandi hreppsfélögum og sýslufélagi, en þá datt þeim það ekki í hug. Ég get því ekki annað en álitið, að hér sé um smávegis gildru að ræða, sem eigi að leggja fyrir hv. þdm. í þeim tilgangi að hindra framgang málsins. Því að ef frv. yrði beinlínis fellt, þá er það um leið yfirlýsing í þá átt, að þriðjungur allra landsmanna megi ekki fá keypta þessa litlu jarðarskika af öllu landinu, og ýmsir mundu vera feimnir við að gefa slíka yfirlýsingu, svo að skiljanlegra er, að farnar séu krókaleiðir sem þær, er felast í hinni rökst. dagskrá hv. minni hl. allshn.

Ég vil segja það, að ég er þess fullvís, að þeir menn, sem telja hættulegt fyrir hinn ísIenzka kynstofn að flytja úr sveitunum í bæina og telja hag íslenzkrar æsku bezt borgið með því að stuðla að ræktun okkar kalda og hrjóstrtuga lands, hljóti að fylkja sér um þetta frv. A-leð því gera þeir atvinnuvegi Reykvíkinga fjölbreyttari og stuðla um leið að því að brúa djúpið, sem nú ríkir í atvinnumálum milli sveita og kaupstaða. Kaupstaðarbúar verða að finna, að framfarir þeirra hvíla eigi síður en annarra á ræktun landsins. — Ég vænti þess svo, að frv. verði samþ.