04.02.1943
Neðri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Ég get ekki látið þetta mál fara svo gegnum 1. umr. í hv. d., að ég fari ekki um það nokkrum orðum og gefi þær upplýsingar, sem ég hygg, að sé gott fyrir hv. allshn. að hafa til hliðsjónar við afgreiðslu þess.

Það, sem mér finnst einkennilegast við meðferð þessa máls, er hve frv. er hroðvirknislega samið og af handahófi og sá yfirgangur og ofbeldi, sem það ber vott um. Þegar frv. var upphaflega lagt fyrir Alþ., þá var þannig frá því gengið, að auk landránsins í Mosfellssveit, þá var verksmiðjukerfið á Álafossi að sínum helmingnum í Rvík og Mosfellshreppi, þannig að þegar verkamennirnir á Álafossi unnu og mötuðust tilheyrðu þeir Rvík, en þegar þeir sváfu og hvíldust, tilheyrðu þeir Mosfellshreppi. Og ég álit það hefði orðið erfitt á stundum að ákveða, hvoru lögsagnarumdæminu þeir ættu að tilheyra.

Þá var það og þannig, samkv. hinu upphaflega frv., að fundar- og skólahús Mosfellshrepps átti að vera í lögsagnarumdæmi Rvíkur, þannig að börnin Mosfellshreppi stunduðu nám í Rvík. Og þegar Mosfellingar héldu borgarafundi sina, áttu þeir að halda þá í Rvík. — Þá var svo frá gengið, að það átti, þó að þess væri ekki sérstaklega getið, að flytja skólastjórann, hreppstjórann og oddvitann í Mosfellshreppi til Rvíkur. Mér datt í hug, þegar ég sá þessa smíði, að höfundum hennar hefði þótt nauðsynlegt, að Rvík fengi ópólitískan oddvita og því notað þessa aðferð!

Nú, þetta hefur verið lagfært að ýmsu leyti í Ed., en þó svo frá því gengið, að það er allt í graut. Það er sagt, að Rvík þurfi olnbogarými, enda er það svo samkv. frv., að hún rekur olnbogana inn í sveitina, en svo illa, að aðskildir eru þrír hólmar, en á móti tekinn smáhólmi í Mosfellshreppi og settur undir lögsagnarumdæmi Rvíkur. Þar er smáskáli, sem nokkrir menn vinna í. Eins og stendur, eru þeir Mosfellingar á daginn, en Reykvíkingar á kvöldin, þegar þeir dútla á blettum sínum.

Ég hygg, að Alþ. geti ekki gengið þannig frá, að skilja við lögsagnarumdæmi Rvíkur í þessum glundroða, sem er líkastur því, að verið sé að stokka saman tvennum spilum. Þetta sýnir, af hve miklu handahófi frv. er samið. Svo er ofbeldið og yfirgangurinn sér á blaði, og verð ég þá að minnast á sögu málsins. Hún hefst á s.l. vori, þegar gerðir voru samningar um kaup á Thors-eignunum í Kjósarsýslu — Mosfellshreppi og Kjalarnesshreppi. Þá var boðaður almennur hreppsfundur um þetta mál. Og fundurinn var sem einn maður á þeirri skoðun, að hreppurinn sem sveitarfélag væri í mikilli hættu staddur, ef Rvík eignaðist allt þetta land. Hann sá fram á, að et Rvík eignaðist allt þetta land, þá hlyti að koma að því fyrr eða síðar, að það yrði lagt undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, og hlyti því að leiða til árekstra, ef hún ætti í Mosfellshreppi svo stórar lendur. Því varð það úr, að heimtaður var forkaupsréttur að sumum þessara landa, með það bókstaflega fyrir augum, að þessi lönd — þessar jarðir — féllu undir lögsagnarumdæmi Rvíkur í náinni framtíð, en hreppur inn gæti haldið sér við á því, sem eftir væri, m.ö.o. að hverfa til fyrir fram ákveðinna vígstöðva. Hreppurinn fór þá fram á að fá forkaupsrétt að Varmá, Lágafelli og Lambhaga, en var neitað um hann. Ef hver hreppur hefði farið fram á að nota forkaupsrétt sinn, hvernig hefðu skiptin orðið þá?

Þegar ekki var fallizt á kröfur Mosfellshrepps um forkaupsrétt, þá vildi hann láta dómstólana skera úr um málið, en um sama leyti var farið að ræða málið í blöðum hér í Rvík. Borgarstjórinn gat þess þá í einni blaðagrein, að eðlilegt væri, að Mosfellshreppur gætti réttar síns, og vonaði borgarstjórinn, að samningar mættu takast á friðsamlegan brtt. Þetta varð til þess, að Mosfellshreppur hætti við málaferli og tók að ræða þetta deilumál við yfirvöld bæjarins. Fyrst í stað gekk allt friðsamlega, en við samningaumleitanirnar kom í ljós, að borgarstjórinn lagði á það ríka áherzlu, að Reykjavíkurbær fengi Grafarholt í sinn hlut. Okkur hreppsnefndarmönnum fannst það ekki óeðlilegt og vildum athuga málið. Enn fremur gengum við inn á, að Reykjavíkurbær léti meta Grafarholt. Þetta mat dróst í allt sumar, og þá loks kom úrskurðurinn, og var hann sá, að Grafarholt væri 150 þús. kr. virði, og fyrir það verð, eða lítið eitt hærra, vildi bærinn kaupa jörðina. En í millitíðinni gerðist það, að eiganda Grafarholts voru boðnar í jörðina 600 þús. kr. Sá, sem þetta bauð, var stóreignamaður úti á landi, sem var að ganga frá sölu á eignum sínum þar og hugðist flytja til Rvíkur og vildi fá Grafarholt keypt, er þangað kæmi. Oddviti hreppsins dró að svara þessu tilboði, þar eð hann vildi ekki spilla því, að Reykjavíkurbær fengi jörðina keypta. Þegar svo Grafarholt hafði verið metið, þá lýsti borgarstjór inn yfir því, að bærinn vilji kaupa jörðina með matsverði eða litlu hærra, og óskaði þess, að Mosfellshreppur legði fram tilboð eða till. um lausn málsins í heild. Hreppurinn lagði fram till. sínar, og eru þær prentaðar í grg. frv. og útdráttur úr þeim í nál. minni hl. allshn. Ed. Þær eru í aðalatriðum þessar: Mosfellshreppur fái jarðirnar Lágafell, Varmá og Lambhaga, en í staðinn fái Reykjavíkurbær jörðina Grafarholt. Í öðru lagi, að hreppamörkin breytist þannig, að inn í lögsagnarumdæmi bæjarins komi jarðirnar Grafarholt og Engi, Gufunes og Korpúlfsstaðir ásamt landeignunum Eiði og Geldinganesi og enn fremur jörðin Keldur, sem er ríkiseign. Þótt hér væri kreppt að Mosfellshreppi, þá vildi hann láta þessar jarðir af hendi vegna þess, að hann óskaði, að málið yrði leyst á friðsamlegan hátt. En þessum samningsgrundvelli var engu svarað fyrst í stað. Síðan var honum svarað með þessu frv., sem fer fram á að taka jarðir af Mosfellshreppi með lögum og svipta hreppinn forkaupsrétti að þeim jörðum, er hann á lögum samkv.

Það hefur verið notað sem rök fyrir þessu, að Reykvíkingar þarfnist olnbogarýmis. Þetta orð — olnbogarými — er þýðing á þýzka orðinu „Lebensraum“, sem hefur verið notað af vissri þjóð til þess að afsaka ýmiss konar ofbeldi gagnvart minni nágrannarikjum. Þetta orð er nú fært í íslenzkan búning, og nú hafa þeir, sem að þessu frv. standa, tekið upp aðferðir eins stórveldis gagnvart minni máttar nágrönnum. Fyrst fara fram samningaumleitanir í mesta bróðerni, og þeir samningar eru dregnir á langinn eins og unnt er. Að lokum er svo gerð skyndileg árás á hinn aðilann.

Ég vil nú fara nokkrum orðum um verðið á Grafarholti, því að það mun ver a aðalorsök þess, að upp úr samningum slitnaði. Það l fyrir sannanlegt tilboð í Grafarholt, 600 þús. kr. Auk þess veit ég, að smáskikar, sem seldir hafa verið undan Grafarholti, hafa verið seldir geipiverði, t.d. Selás, sem var hrjóstrugt land, ha. var þar seldur á 1000 kr. — Þegar þetta er athugað, þá er ekkert einkennilegt, þótt Grafarholt komist í hátt verð, og ég er þess fullviss, að Reykjavíkurbær fær Grafarholt aldrei undir 600 þús. nema með því að brjóta ákvæði stjskr.

Þetta verð á Grafarholti byggist ekki á búskaparmöguleikum þar, heldur á þeirri aðstöðu jarðarinnar að vera í nágrenni Rvíkur.

Sú skoðun hefur víða komið fram, að gróði af verðhækkun af þessum sökum eigi ekki að falla í hendur einstakra manna, heldur þjóðfélagsins í heild, en hingað til hafa engar ráðstafanir verið gerðar í þá átt. Enn fremur er mér kunnugt um, að einstakir menn hér í Rvík hafa stungið á sig gróða af löndum hér í lögsagnarumdæmi Rvíkur, og hví skyldi þá eigandi Grafarholts sviptur þessari verðhækkun, sem orðið hefur á jörðinni: Annars er það algerlega órannsakað mál, hvort Reykvíkingar þarfnist alls þess lands, sem í frv. er farið fram á. Ég efast um, að hv. flm. frv. hafi athugað, hversu mikið land Reykjavíkurbær á nú þegar. Það mun láta nærri, að öll lönd, sem bærinn á í nágrenni sínu, séu í kringum 40 þús. ha., og þótt svo sé, að aðeins helmingur þessa lands sé ræktanlegur og hinn helmingurinn tekinn í skemmtigarða eða eitthvað líkt, þá telst mér svo til, að um 2500 ha. séu eftir á hverja 5 manna fjölskyldu, og þótt Reykvíkingar séu duglegir jarðræktarmenn, þá efast ég um, að það sverfi að þeim hungur með þessu landi, sem þeir eiga. nú. Undanfarin ár hefur Reykjavíkurbær átt þessar jarðir og ekki hreyft hönd til þess að nýta þær, heldur byggt þær leiguliðabúskap.

Ég er ekki talinn óyggjandi aðili til þess að segja um, hvort Reykjavík þarfnist meira landrýmis en hún á þegar og gat fengið með góðu móti án þess að beita ofbeldi, en ég vil, að aðili, sem hefur bæði vit og dómgreind til að skera úr þessu og er óhlutdrægur, fái málið til athugunar, áður en Alþ. fellir dóm í því. Tvö ár eru nú, síðan Alþ. samþ. l. um landnám vegna kauptúna og sjávarþorpa, og í þessum l. er Búnaðarfélagi Íslands falið að skera úr um þau mál. Búnaðarfélagið hefur haft með höndum athugun á löndum til ræktunar, og þótt búnaðarfélagið sé stofnun bænda, þá hefur það ávallt sýnt kaupstöðum fullan skilning á þörfum þeirra, og ég veit, að það legði fram óhlutdrægan úrskurð í þessu máli.

Það kom fram í nál. hv. meiri hl. allshn. í Ed., að búnaðarfélaginu væri ekki trúandi til þess að fá þetta mál til meðferðar, vegna þess að einn hreppsnefndarmaður Mosfellshrepps væri í stjórn þess, en þessi maður er ég. Nú er svo málum háttað, að sá, sem legði vinnu í þetta, yrði jarðyrkjuráðunauturinn Pálmi Einarsson. Í öðru lagi eru tveir aðrir í stjórn búnaðarfélagsins en ég, sem mundu meira en vega upp á móti minni skoðun, og þriðja lagi get ég lofað því að koma persónulega hvergi nærri málinu til þess að forðast, að hlutdrægni af minni hálfu yrði við komið. Ég vil, að rannsókn fari fram í þessu, áður en málið fer lengra hér á Alþ. Íbúar Mosfellshrepps hafa alltaf sýnt Reykvíkingum skilning og reyndu að leysa þetta mál friðsamlega með því að bjóða þeim allar þær jarðir, sem að framan greinir, og það er þess vegna hart, þegar svarað er með þessu frv. Ég get getið þess, að auk þess, sem Reykjavíkurbæ var boðið Grafarholt fyrir 600 þús. kr., þá fór hreppurinn fram á, að sér yrði greitt í eitt skipti fyrir öll 100 þús. kr. í skaðabætur fyrir missi allra þessara jarða. Fyrir einum 10 árum, þegar bærinn fékk Árbæ og Ártún, fékk hreppurinn 50 þús. kr. í skaðabætur, svo að þessar 100 þús. kr., sem farið er fram á núna, eru ekki nema brot af því, sem hann fékk fyrir 10 árum, þar eð peningar eru nú í miklu lægra gildi en þeir voru þá. Þessar 100 þús. kr. ná ekki til þess að verða „kapital“, sem gæti ávaxtazt í stað útsvara þeirra, er hreppurinn hefur af þessum eignum sínum, sem hann bauðst til að láta af hendi. En hann lagði þetta á sig til þess að fá friðsamlega lausn í málinu.

Ég er með því, að Rvík og aðrir kaupstaðir fái lönd, til þess að þeir geti lifað og þroskast, en við lifum í lýðræðislandi, og allir eiga að fá að njóta réttar síns, jafnt smáir hreppar sem stórir kaupstaðir. Ég fer aðeins fram á, að þessa réttar sé gætt og að málið sé athugað af óhlutdrægum aðila, og þess vegna má ekki flaustra málinu af á stuttum tíma.

Þótt full ástæða sé til að segja meira um þetta mál, þá mun ég þó láta þetta nægja af sinni, en svara, ef ástæða gerist.