07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. — Ég vil aðeins segja örfá orð. — Ég get tekið undir það, sem fram hefur komið, að ánægjulegra er, að málið skuli hafa verið útkljáð á þennan hátt, heldur en ef farin hefði verið sú leið, sem frv. fer fram á, því að ég tel þessar brtt. til hins betra.

Það má vera, að af hálfu hreppsins sé þetta nauðungasætt, en ég tel þó, að eftir ástæðum telji Mosfellshreppur, að við þetta sé hlítandi, svo að menn sitji nú sáttir að kalla.

Ef þessar brtt. verða samþ., verður blærinn á málinu allt annar en áður.

Ég sagði í nál. mínu, að ég vildi ekki vera meinsmaður Reykjavíkurbæjar, þegar hann vill færa út kvíarnar, en vinnubrögðin, sem voru viðhöfð, fundust mér fordæmandi, og gat ég því ekki látið það óátalið.

Ég hygg, að fulltrúar Rvíkur hafi gert réttara í að reyna að fá samkomulag um málið, eins og þeir hafa nú gert, heldur en beita valdi, sem þeir gátu beitt, því, að frv. hefði orðið samþ., eins og það var.

Mér finnst, að það hefði mátt bæta því við 3. gr., að ef ekki semdi um kaup á Grafarholti, þá skyldi bænum heimilt að taka jörðina eignarnámi. E.t.v. er hér ekki um stórvægilegt atriði að ræða, en þetta er formsatriði, sem venjulegt er að fara eftir, þegar svona stendur á. Ég mun þó ekki bera fram brtt. um þetta, en bendi aðeins flm. brtt., þeim hv. þm. G.-K. og þm. Mýr. á þetta, ef þeir vilja flytja um það brtt.

Annað atriði er, sem leiðrétt hefur verið í frv. með brtt. og ég legg mikið upp úr, að gert hefur verið, og það er að leggja til, að 4. gr. falli burt, en hún var um að Mosfellshreppur skyldi sviptur forkaupsrétti sínum að löndum þeim úr Korpúlfsstaðatorfunni, sem bærinn hefur fest kaup á, því að ef þessu hefði verið beitt, þá hefði verið gripið til þess, sem áreiðanlega aldrei hefur þekkzt, að svipta félög og einstaklinga þessum rétti.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég mun verða við tilmælum hv. flm. brtt., að greiða þeim atkv., því að ég tel það skylt vegna Mosfellshrepps.