07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég setti af stað lítið nál. um kennaraskólann einkum til þess að koma að gagnrýni á skipulagi hans og benda á það, sem ég álít vera rétt að leiðrétta.

Sú breyt., sem hér er ráðgerð, skaðar að vísu ekki, en skólinn hefur verið vanræktur frá byrjun um húsakynni og alla aðstöðu. Auk þess stendur skólahúsið á landi landsspítalans, og komið hefur til orða að leggja það undir hann. Það er því kominn tími til að ráða fram úr málum skólans í heild, en þetta frv. er hvorki heilt né hálft í þeim efnum. Það þarf að gerbreyta kennslunni, auka hana og gera hana meira verklega. Ef menn hugsa sér kennara aðeins til að kenna börnum að lesa og skrifa, þá er sú breyt. góð, sem felst í þessu frv. Ef menn líta aftur á móti svo á, að nú sé undirstöðuatriði að gera auknar kröfur til skólanna, þar sem hönd heimilanna sleppir æ meir og meir af börnunum, þá er að mínum dómi höfuðnauðsyn að búa sem bezt að menntun kennaranna, svo að þeir geti fullnægt þörfum þjóðarinnar.

Þar eð frv. þetta nær svo skammt, tel ég því réttara að vísa máli þessu í heild til stj. og fela henni að undirbúa löggjöf um gagngerða breyt. og stórbætur á uppeldi og aðstöðu kennara.