11.01.1943
Neðri deild: 29. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

40. mál, útsvar

Pétur Ottesen:

Það hefur gengið svo til, að því er virðist, að hv. allshn. hefur staðið öll að því að leggja til, að Alþ. stigi nú fyrsta sporið í þá átt að færa útsvarslöggjöf vora af þeim grundvelli, sem hún hvílir nú á. Það, sem hv. þm. Snæf. sagði, er í samræmi við þetta og mest byggt á misskilningi. Samkv. 8. gr. útsvarslaganna er að vísu leyfilegt að leggja á menn víðar en á einum stað, en skilyrðin fyrir því eru skýrlega þau, að viðkomandi reki búskap, hafi leiguafnot eða reki aðra atvinnu utan heimilissveitar sinnar allt árið um kring, og má þá leggja sérstaklega á þann hluta teknanna í atvinnusveitinni. Sé atvinna aftur á móti ekki rekin eða stunduð nema einhvern hluta af árinu utan heimilissveitar, eins og t.d. er um síldveiðar, þá á að leggja aðeins á gjaldandann í heimilissveitinni og skipta síðan útsvarinu. Þannig eru skýrar línur dregnar á milli þeirrar atvinnu, sem aðeins er rekin um stundarsakir, og þeirrar, sem rekin er allt árið.

Það er þess vegna ekki hægt að víkja út af grundvelli laganna nema með þeim afleiðingum, að hlutdrægni komi fram, t.d. í garð þeirra, sem ekki leyna tekjum sínum. Ef maður t.d. kaupir fisk og verkar, selur hann svo aftur eftir stuttan tíma, hvaða mun gerði þá, þó um síld væri að ræða, en ekki fisk? Vitanlegt er, að þegar búið væri að taka þetta ákvæði inn í l., yrði ekki hægt að standa á móti því, að fleiri kæmu með slíkar kröfur, sem hér er um að ræða.

Þótt þetta atriði út af fyrir sig sé ekki stórt, þó leiðir af því hliðstæð fyrirbrigði, sem hafa slæmar afleiðingar. Þetta mundi ekki aðeins verða haft svona á Siglufirði, heldur mundi það lag komast á almennt, að horfið væri frá grundvelli l. og venjulegum aðferðum við framkvæmd laga, og mundi það taka til allra staða, þar sem fiskur er veiddur og verkaður.

Hv. þm. Snæf. sagði, að Siglufjörður hefði orðið hart úti í þessu efni. En hvers vegna hefur það orðið? Hv. þm. sýndi greinilega, að úrskurður ríkisskattanefndar um skiptingu útsvara milli heimasveitar og atvinnusveitar hefði fallið á þá lund, að þá er skattstigi heimasveitar ekki lagður til grundvallar, heldur fundin vísitala, til þess að hluti útsvars í atvinnusveit verði hliðstæður við útsvör, sem þar eru greidd, miðað við tekjur.

Orsökina til misréttis í þessu efni er ekki að finna í grundvelli þeim, er þessi lög byggjast á, heldur í því, hvernig farið er eftir lögunum við álagningu útsvara, Misrétti það, sem kann að hafa átt sér stað gagnvart Siglufirði, er að mínu áliti ekki viðkomandi löggjöf að kenna og ekki framkvæmdarvaldinu í landinu, heldur bæjarstjórn Siglufjarðar. Núgildandi ákvæði í útsvarslöggjöfinni gera það að verkum, að hver staður getur borið það úr býtum, sem honum eðlilega ber, en út af grundvelli útsvarslöggjafarinnar má ekki fara. Mér virðist þess vegna óeðlilegt, að Alþ. fari nú að hverfa frá fyrri stefnu sinni í þessu efni. Því undrar mig mjög afstaða hv. þm. Snæf. og skilningur hans í þessu máli.

Hitt, sem verið var að tala um, að heimasveit beri meira úr býtum vegna betri aðstöðu til að fylgjast með tekjum viðkomandi manna, er ekki rétt. Nú eru allar framtalsskýrslur opinber plögg. Sá dómstóll, sem hér sker úr, er ríkisskattanefnd, og hún hefur öll þau plögg í vörzlum sínum, og þess vegna er svo örugglega um þetta búið í núgildandi útsvarslöggjöf, að atvinnusveit ætti að fara eins vel út úr því og heimasveitin.

Ég vil þess vegna leggja til, að frumv. verði fellt, því að ef það nær fram að ganga, verða afleiðingarnar eltingaleikur og togstreita í álagningu útsvara. Slíkt mundi að líkindum endurtaka sig í stærri stíl en nokkurru sinni hefur áður verið.

Nú er miklu meiri hreyfing í fólki við atvinnurekstur en nokkru sinni áður, og mundi það verða svo í framkvæmdinni, ef heimiluð yrði útsvarsálagning í atvinnusveit, að réttur heimilissveitar yrði mjög fyrir borð borinn.

Svo er það líka alveg í ósamræmi við þau ákvæði núgildandi laga, sem hér er um að ræða, að hér er gert ráð fyrir því, að þessi staður sé felldur undan þeim skiptingarákvæðum. Þó að skiptingarákvæði haldist þar, þá heyrir það ekki undir neina grein útsvar sl. Það sýnir greinilega, að hér er horfið frá grundvelli laganna.

Ég vil undirstrika það mjög greinilega, að ég álít, að hér í þessu frv. sé horfið frá hinum upphaflega grundvelli laganna.