27.01.1943
Neðri deild: 43. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

30. mál, einkasala á bifreiðum

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Ég á hér eina brtt. varðandi n. þá, sem á að hafa úthlutun bifreiða frá einkasölunni með höndum. Það hafa einkum komið fram mótbárur gegn því að veita Hreyfli rétt til að hafa hönd í bagga um úthlutunina. Hv. 2. þm. Rang. taldi, að of mikið af innfluttum bílum færi til Rvíkur, og sagði, að mikil brögð væru að því, að bílar stæðu hér meðfram gangstéttum í löngum röðum. Ég vil aðeins benda á, að það eru ekki bílar atvinnubílstjóra, sem standa þannig, heldur eru það bílar prívatmanna, sem hafa fengið þá úthlutaða sér vegna kunningsskapar við viðkomandi ráðh., á sama tíma sem bílstjórar hafa verið í vandræðum með að fá bíla. Þeir bílar, sem bílstjórar hér hafa svo fengið, hafa margir verið seldir þeim dýrum dómum af ýmsum prívatmönnum, sem hafa haft góða aðstöðu til þess að ná sér í bíla. Bílstjórar hér hafa líka vakið máls á því, að brýna nauðsyn bæri til að bæta úr þessum vandræðum, og krafizt þess, að hér yrðu gerðar breytingar á. Hreyfill hefur einnig krafizt þess að fá að ráða nokkru um úthlutunina, og það er réttmætt. Bílstjórar úti um land hefðu fyrir löngu átt að vera búnir að beita sér fyrir stofnun landssambands bílstjóra. En það er svo, að félögin hér í Rvík hafa staðið því nær ein í baráttunni fyrir hagsmunum stéttarinnar, og er því rétt, að það séu þau, sem hafa hönd í bagga um úthlutunina, á meðan bílstjórar úti um land reynast ekki svo duglegir, að þeir skapi landssamtök bílstjóra. En það er ekki nema sjálfsagt, að slík samtök fengju úthlutunarréttinn, jafnskjótt og þau kæmust á, og mætti þá breyta lögunum samkv. því. Ég er líka viss um, að ef hv. 2. lm. Rang. vildi beita sér fyrir stofnun slíks sambands, þá mundi ekki standa á bílstjórum hér í Rvík að veita því máli fylgi sitt. Það er nauðsynlegt, að samtök bílstjóra hafi sin áhrif á úthlutunina, og eftir kynnum mínum af bílstjórum hér treysti ég þeim vel til þess að reynast ekki hlutdrægir í þessu máli og tel enga hættu á, að þeir muni berjast einhliða fyrir sínum hagsmunum.

Ég skal ekkert segja um það almennt, hvort of mikið af bílum fari til Rvíkur. En ég veit mörg dæmi þess, að ýmsir prívatmenn úti á landi hafa selt nýja bíla, sem þeir hafa fengið hjá einkasölunni, hingað til Rvíkur og hagnazt á því um 10–20 þús. kr. Einnig hafa ýmis fyrirtæki úti um land, sem hafa fengið nýja vörubíla, látið þá vera á stöðvum hér í Rvík eða í vinnu hjá setuliðinu hér í nokkra mánuði eftir að þeir fengu þá, vegna þess að hér var mest á þeim að græða, en látið þá svo koma heim síðar, er þeir voru búnir að borga sig hér. Þessu verða bílaeigendur vitanlega að ráða sjálfir. En ég skal ekkert segja um það, hvort Rvík hefur fengið úthlutað fleiri bílum en rétt var.

Brtt. hv. þm. N.-Þ. finnst mér alveg óhæf. Það er engin ástæða til þess að fjölga í nefndinni. Við höfum fengið nóg af þessu nefndafargani, og það hefur reynzt nógu erfitt að fá þær til þess að starfa, þótt ekki væri fjöldi manns í hverri þeirra. Ég tel það algerlega nóg að hafa þrjá menn í þessari nefnd. Ég hef ekkert á móti því, að landssamband bílstjóra komi í stað félaganna hér í Rvík, en ég kann betur við, að það komi ekki fyrr en búið er að stofna það, en það má stofna með ýmsu móti, bæði sem deild í Alþýðusambandi Íslands og sem sjálfstætt samband. Það er engin ákvörðun tekin um það með þessum lögum, hvernig einkasalan skuli rekin. Fram að þessu mun hún hafa verið rekin í sambandi við Viðtækjaverzlun ríkisins, en hvort svo verður áfram eða hvort henni verður slegið saman við fleiri einkasölur, veit ég ekki. Ég á erfitt með að skilja það, að það verði gífurlegur kostnaður við að endurreisa hana, ef það verður gert í sambandi við aðra einkasölu, og mér þykir það mjög ósennilegt, að farið verði að bæta við miklum mannafla, á meðan engir bílar eru til þess að verzla með.