05.02.1943
Neðri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

23. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Ræða hv. frsm. minni hl. gefur ekki mikið tilefni til andsvara, en ég verð að segja það, að enda þótt ég dragi ekki í efa, að alþm. séu vel að sér í hvers konar hæversku, hélt ég ekki, að þeir væru svo kurteisir, að þeir mæltu með framgangi frv. á Alþ. af einskærri kurteisi við málin:

Einstaklingsframtakinu í landinu hefur í þessum umr. komið liðsauki óvæntur, þar sem er hv. 2. landsk. þm., sem nú virðist hafa beyg af því, að sósíalisminn færist í aukana. Það má vera, að gengi þeirrar stefnu hafi orðið fullmikið í seinni tíð, en ég hefði ekki haldið, að þetta frv. væri svo sósíalistískt, að ástæða væri til að óttast það af þeim orsökum.

Ég hef út af fyrir sig ekki rætt um ástæðurnar fyrir því ákvæði síldarverksmiðjul., að leyfi stjórnarvaldanna til að reisa nýjar verksmiðjur þurfi að koma til. Mér er ekki sérstaklega kunnug sú ráðstöfun, sem hv. 2. landsk. þm. talaði um áðan, þegar synjað var um leyfi til Siglufjarðarbæjar til að reisa verksmiðju. Ég veit ekki, hvort þetta var réttmætt eða ekki, en þó var það svo, að með tilliti til fyrri afstöðu þáv. atvmrh. má ætla, að rök hafi legið fyrir, þegar hann tók á sig þá ábyrgð að neita um leyfið. Það er vitað mál, að þegar um er að ræða jafnmikinn atvinnurekstur og þetta, greinir menn á um, hvort á að láta hann vaxa án eftirlits og af sjálfu sér, eða að hið opinbera hafi umsjónina, með almenningsheill fyrir augum. En mér finnst ekki hægt að segja, að Alþ. hafi sýnt íhaldssemi í þessum málum eða skilningsleysi á þörfinni fyrir aukningu síldariðnaðarins, þegar litið er á l., sem samþ. voru á síðasta þingi.

Ég skal ekki ræða málið frekar, heldur aðeins endurtaka þá till. meiri hl., að frv. verði samþ. í deildinni.