06.02.1943
Efri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2556)

108. mál, sala á spildu úr Neslandi í Selvogi

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. Ég vildi mega benda hv. þm. Dal. (ÞÞ) á það, að í brtt. hans á þskj. 344 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Aftan við greinina bætist: að lokinni skoðun á landinu og umsögn tveggja óvilhallra manna, sem tilnefndir eru af hæstarétti til þessa starfa.“ Það er náttúrlega ekki getið um það, hvernig að skuli fara, ef þessa tvo menn greinir á. (ÞÞ: Stjórnin ræður þá úr). Ég býst við, að ríkisstj. mundi vilja gera sínar ráðstafanir út frá því, sem þessir menn teldu rétt vera.

Það getur vel dottið í mig við 3. umr., ef brtt. þessi verður samþ., að koma með brtt. um, að þarna væri ákveðinn einhver oddamaður, og finnst mér sandgræðslustjóri þar vera sjálfkjörinn. (LJóh: Sem búinn er að láta í ljós álit á á málinu). (ÞÞ: Sem alveg óvilhallur maður).

Mér þykir gott að heyra, að það er búið að gefa ríkisstj. bendingar, jafnvel af flm. sjálfum, um að nota heimild þessa frv. varlega, ef samþ. verður. Þó held ég, að oft hafi verið svo á litið, að slíkar heimildir til ríkisstj. giltu sama sem skipun til hennar um að framkvæma það, sem heimild hefur verið gefin til.

Ég sé í áliti um þetta mál frá nefndarhluta frá eldri tíma, þar sem sá nefndarhluti tekur fram, að ekki eigi aðeins að veita heimild til að selja þetta land, heldur eigi sú heimild að vera notuð. En þessu er ekki til að dreifa hér, úr því að svona hefur verið tekið á málinu hér.

Mér þykir samþykkt þessa frv. nokkuð harðhent í garð sandgræðslustjóra. Ég heyri öllum betra saman um, að sandgræðslustj. sé með dugmestu og samvizkusömustu embættism. í landinu. Hann hefur hvað eftir annað lýst yfir, hvað hann teldi sjálfur rétt í málinu eftir sinni þekkingu, og mér finnst því hart, ef hæstv. Alþ. samþ. þetta frv. Hæstv. Alþ. ætti frekar að standa við hlið þeim embættismönnum, sem taldir eru rækja starf sitt vel, heldur en að ganga á móti þeim. En hafi þessi umræddi bóndi í Nesi orðið fyrir tjóni í þessum umræddu viðskiptum, þá tel ég, að honum megi bæta það tjón, ef réttlátt þykir, með öðru heldur en því að láta hann hafa land, sem stafar hætta af, að tekið sé til nota á ný. Mér finnst, að hv. flm. frv. gætu vel stungið upp á því, að þessum manni væru greiddar bætur fyrir tjón, sem hann kynni að hafa beðið vegna þess, að hann lét þetta land af höndum.