18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjördeildar (Skúli Guðmundsson):

Hv. 5. þm. Reykv. (BrB) sér ekki ástæðu til að dæma þá kosningu ógilda nú þegar, sem um er deilt, og enginn hefur heldur farið fram á, að það yrði gert, aðeins að samþykkt hennar yrði frestað fyrst um sinn, unz frekari vitneskja liggur fyrir.

Það er mikið vafamál, hvort Alþ. getur, eftir að kjörbréf er samþ., vísað þm. burt af þingi, ef ekkert saknæmt sannast á hann persónulega, það er svipt hann kjörgengi, þótt misfellur reynist hins vegar meiri en svo á kosningunni, að hún hefði orðið tekin gild, ef í öndverðu hefði verið fengin um þær full vitneskja. Hv. 3. landsk. (HG) sagði, að kosningaúrslitin á Snæfellsnesi hefðu ekki verið vefengd. Ég vil benda honum á, að atkvæðamunur var mjög lítill. Gunnar Thoroddsen mun hafa fengið 762 atkv. að meðtöldum landslistaatkvæðum, en Bjarni Bjarnason 726. Þarna munar aðeins 36 atkv., og hefðu 18–19 kjósendur greitt atkvæði öðruvísi en þeir gerðu, gat það orðið Bjarni, sem kjörbréfið hefði fengið, en ekki Gunnar. Og mikið vantaði á, að Gunnar fengi helming greiddra atkv. á Snæfellsnesi, svo að ekki er gott að spá um úrslit, ef aftur yrði kosið.

Þó að hv. 3. landsk. geri talsvert úr því, að kosningin hafi ekki verið kærð formlega, játar hann, að það, sem fram hefur komið um hana, gefi ærnar ástæður til rannsóknar. Auk 1. gr. þingskapa vil ég benda á 5. gr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þingið getur við rannsókn þá, er ræðir um í 1. gr., úrskurðað kosningu ógilda, þótt eigi hafi hún kærð verið og einnig frestað að taka kosningu gilda til þess að fá skýrslur.“ Það er aðeins slík frestun, sem um er að ræða. Hefði hv. 3. landsk. verið með frestuninni, ef formleg kæra hefði legið fyrir? Ég játa fyrir mitt leyti, að ég sé ekki þann eðlismun, sem það hefði gert á málavöxtum. Nú er komið annað hljóð í þann hv. þm. en áður var, þegar rætt var um slík mál. Á þingi 1928 var allmikið rætt um kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu, þó að atkvæðamunur skipti hundruðum og ekki léki vafi á, hver hlyti þingsætið. Málið hafði einnig hlotið meiri athugun en nú, því að kosningarnar höfðu farið fram í júlí sumarið áður, 1927. En þingið vildi ekki samþ. kosninguna, fyrr en gengið yrði úr skugga um, hvort þm. hefði unnið sér til óhelgi í kosningunum eða yrði að teljast sýkn um það, sem í Hnífsdal hafði gerzt. Þeir stóðu þá hlið við hlið gegn ósómanum, hv. þm. S.–Þ. og hv. 3. landsk., en nú virðist hinn síðarnefndi vilja skipa sér annars staðar í flokk. Þangað virðist Sósfl. einnig stefna eftir ræðu hv. 5. þm. Reykv. (BrB) að dæma. Mig furðar minna á ræðu hæstv. forsrh. (ÓTh), þó að hann vildi snúa þessu alvörumáli eingöngu í „grín“.

Ein saga hans er sú, að hann hafi heyrt, að á einum kjörstað hafi nokkrir framsóknarbændur keypt sér kaffi og borgað með hundrað krónu seðlum. Hér þyrfti rannsóknar við. Í þessu gægist fram raunveruleg afstaða hans til bændastéttarinnar. Það er að hans dómi eitthvað athugavert við það, ef svo reynist, að bændur eigi hundrað króna seðla. Og þetta er sá hæstv. ráðh., sem kallaður hefur verið landbrh. nú um skeið.

Hv. þm. S.-Þ. hefur getið um sögur, sem ganga á Snæfellsnesi af einkennilegum síldarmjölssendingum frá Kveldúlfi. Þó að hæstv. ráðh. hafi nú talað tvisvar síðan, hefur hann ekki mótmælt þessu, heldur staðfest það.

Hæstv. forsrh. vildi gefa í skyn, að Kristján Jensson, sem gaf áður nefnt vottorð, mundi ekki vera áreiðanlegur maður. Ég skal ekki dæma um það, hvor þeirra muni vera áreiðanlegri, en benda má þó á það, að Kristján Jensson hefur gefið skriflega yfirlýsingu um þetta mál og ritað nafn sitt undir, þar sem hæstv. forsrh. lætur sér nægja að bera fram aðdróttanir án þess að geta heimilda eða nefna nöfn. Eins og hv. þm. S.- Þ. skýrði frá, hefur vottorðsgefandi verið í fulltrúaráði Sjálfstfl. í þessu kjördæmi. Ég segi ekki, að hann sé betri fyrir það, en sjálfstæðismenn hafa að minnsta kosti því minni ástæðu til að rengja hann.

Út af ræðu hv. þm. Snæf. er það að segja, að það er ekkert nýtt, að reynt sé í svona tilfellum að snúa sökinni á hendur þeim, sem hreyfa við ósómanum. En ég tel, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, að hv. Alþ. geti ekki minna gert en fresta að taka kjörbréfið gilt, þar til málið er að fullu upplýst. Jafnvel þótt ekki væri um að ræða annað en það, að fyrirtæki hv. formanns Sjálfstfl. hefði dreift út síldarmjöli þarna í kjördæminu, á meðan verzlanir þar gátu ekki fengið þessa vöru til að fullnægja eftirspurn viðskiptavina sinna, væri það ærið rannsóknarefni.