05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Þetta frv. er, eins og það liggur fyrir og skýrt hefur verið rækilega, mjög víðtækt. Hvað snertir þær ráðstafanir, sem þar er lagt til að gera, færir það n. aukið vald, og í rauninni er þessari yfirstjórn fengið þar beint vald yfir gjaldeyrinum, að honum verði varið til kaupa á nauðsynlegum vörum, og er ekki nema gott um það að segja. Ég álít eðlilegt að sameina það verkefni, sem rætt er um í 2. gr., undir eina fimm manna stjórn, þegar tímarnir eru eins hættulegir og nú. En það er nauðsynlegt að gera sér ljóst um leið, að svo víðtæku valdi fylgir mikil ábyrgð. Ég sé ekki betur en að þetta ráð hafi vald á afkomu, næstum því lífi, fjölda manna. Það á að ráða, hvaða vörur eru fluttar inn og hvernig innflutningnum er ráðstafað. Það á að ráða, hverjir selja þetta, því að það veitir leyfin. Það getur ráðið því, ef það stjórnar þannig, að ákveðnar atvinnugreinar stöðvist og ákveðin fyrirtæki verði ekki rekin. Það er því mjög nauðsynlegt, að við gerum okkur ljóst, hversu mikið vald þessu viðskiptaráði er falið. Á það hefur verið minnzt af hv. 4. þm. Reykv. og hv. 2. þm. S.-M., að engri n. muni hafa verið falið jafnmikið vald hér á landi og á nú að fá þessu ráði. Ég tel því skipta ákaflega miklu máli, hvernig ráðið er skipað og hvernig því er komið fyrir. Ég álít áhættu fyrir þ. að afsala sér slíku valdi í hendur þessa ráðs, a.m.k. á meðan að völdum situr stj., sem ekki nýtur beinlínis trausts þ. Mér finnst ekki rétt, meðan þannig standa sakir, að afhenda stj. meira vald en stj. hefur sem ríkisstj. í landinu. Það hefur verið svo með þau valdsvið, sem stj. hefur verið að leggja undir sig, að það hefur verið falið sérstökum ráðum og n., sem hafa verið kosin beint eða óbeint af þ. og stj. Það hefur þá alltaf þótt nauðsynlegt, að fulltrúar þjóðarinnar, sem á þ. hafa setið, hafi haft talsvert mikið um það að segja, hvernig þessar n. og þessi ráð hafa verið skipuð. Eins virðist mér þurfa að vera á sviði eins og þessu og því fremur sem það er víðtækara. Hins vegar skil ég vel, að sú stj., sem nú situr á þessum vandasömu tímum, vilji fá talsverðu að ráða um, hvernig slíkri stofnun sem þessari fara störfin úr hendi. Ég álít, að Alþ. eigi með talsverðri þátttöku í skipun ráðsins að tryggja, að réttur þegnanna sé ekki fyrir borð borinn, en stj. með því t.d. að skipa framkvæmdastjóra ráðsins fylgist með þeim daglegu viðhorfum og hvernig störfin fara ráðinu úr hendi. Ég álít rétt, að sú n., sem fær þetta mál, eigi að ræða um það við hæstv. stj., hvort ekki sé hægt að ná samkomulagi milli þ. og stj. um skipun ráðsins og nánara fyrirkomulag þess, og mun ég því ekki fjölyrða frekar um það, en væntanlega gefst tækifæri til þess við síðari umr., ef þörf krefur. Hæstv. stj. mun óska eftir, að málið fái sem skjótasta afgreiðslu, og mun ég því ekki fara út í nema höfuðatriðin. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á höfuðatriði 3. gr., sem sé, að það á að fela Landsbankanum einum að kaupa gjaldeyri. Ég er alveg mótfallinn, að slíkt sé gert, og sé ég enga ástæðu til þess eða að það skapi neitt öryggi í þeim málum. Ég álít heppilegt, að n., sem fær þetta mál, ræði við hæstv. stj. um þetta atriði og mun því ekki að óþörfu fara að ræða málið ýtarlega við þessa umr. Ég vildi ekki vekja deilur um það, en aðeins lýsa afstöðu minni almennt.