02.03.1943
Neðri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2654)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Það er nú langt síðan sjávarútvegsn. fékk þetta mál til meðferðar, og er hún nú loksins að skila því. Ef þessi dráttur stafar af því, að sjútvn. hafi lagt sig í líma til að afla sér upplýsinga í málinu, þá væri þessi dráttur kannske fyrirgefanlegur. En af því plaggi, sem hér liggur fyrir, verður ekki séð, að svo hafi verið. Manni virðist það muni gert til að vísa málinu frá að vísa því til mþn., sem vonandi mundi þó gera því betri skil en sjútvn. Ég hef litið vit á fiskimálum, en það er almennt áhugamál allra minna kjósenda, sem land eiga að sjó og þurfa að stunda veiðar. Á hverju vori kemur það fyrir á Bakkafirði, að það kemur mokfiskur í fjörðinn, svo að margir bátar í senn tvíhlaða á einum sólarhring. En eftir skamman tíma eru dragnótabátarnir komnir, og þá er v eiðin búin. Svona er þeirra umsögn. Einn, tveir eða þrír dragnótabátar hafa sópað upp fiskinum undan ströndinni hjá þeim. Þetta er nú álit þeirra manna, sem þarna eru uppaldir.

Það er alltaf sama sagan. Ég nefni gamlan útgerðarmann á Norðfirði, sem í tvö ár hefur stundað veiði á bát frá Vopnafirði. Hann þekkti dragnótaveiðarnar og áleit þær réttmætar, en síðan hann kynntist smábátaveiðinni þarna norður frá, þá er hann kominn á þá skoðun, að sjálfsagt sé að binda þetta svona, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Annar maður, sem ég þekki og stundað hefur dragnótaveiði síðastliðin 2 ár, segir, að sér sé ljóst, að með sinni dragnót sé hann að eyðileggja veiðina fyrir hinum bátunum. Þetta segir hann af því, að hann sér meira en eigin hag. Vopnfirðingur einn hefur sagt mér, að í Lónsfirðinum, þar sem ætíð var fullt af smákola, svo að vörpurnar tóku tugi þúsunda af smákola í drætti, sé nú smákoli ekki lengur til. Allt þetta virðist benda til þess, að skoðun þessara manna, sem ekki vilja láta takmarka dragnótaveiðar frekar en búið er, sé ekkert annað en venjulegur yfirgangur þess sterkari, sem telur sig hafa rétt til þess að taka frá hinum minni máttar, ekkert annað en þeirra málstaður, sem þessir menn hér á Alþ. túlka.

Ég vil álíta, að þeir, sem vilja láta vísa þessu máli til mþn., geri það í því augnamiði að geta sem lengst troðið á rétti lítilmagnans. En ég vænti þess, að mþn. rannsaki málið og fái því ástandi breytt, sem nú ríkir.