11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

45. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Þetta frv. hefur verið hér til umr. þrisvar sinnum áður. Tel ég því ekki þörf að fylgja því með langri ræðu nú. Ég vil aðeins rifja upp sögu þess. Hún er í stórum dráttum sú, að þetta frv., um tryggingu aflahluta, var flutt fyrst af mér hér á þingi 1939. Þessi d. samþykkti frv. dálítið breytt, en það dagaði uppi í Ed. Síðan flutti ég frv. aftur á þingi 1940, en þá var því vísað til stj. með rökst. dagskrá. Í þeirri dagskrá var fram tekið, að málið væri mikið nauðsynjamál, en þyrfti meiri undirbúning, og þann undirbúning var stj. falið að gera og leggja málið síðan í frumvarpsformi fyrir þingið. En ekkert kom frá henni á næsta þingi, 1941. Því var það, að ég ásamt hv. þm. Ak. flutti þetta frv. í þriðja sinn á fyrsta þingi þessa árs, en það fór á sömu leið, að málinu þar vísað til stj.

Nú hafa borizt svo margar ákveðnar raddir, sem hafa krafizt þess, að slíkum tryggingum væri komið á, að við flm. þessa frv. höfum ekki séð okkur annað fært en verða við þeim kröfum, og því flytjum við málið nú í fjórða sinn. um nauðsyn þess er sérstaklega tekið fram í grg., sem fylgdi frv. 1939, og eins í þeim umr., sem fram hafa farið um málið í þau þrjú skipti, sem það hefur komið fyrir þessa hv. deild.

Af þessari stuttu sögu málsins má ráða það, að almenningur sá, sem á framtíð sina að einhverju leyti undir framgangi málsins, hefur fyrir því mikinn áhuga, og einnig að lítið skiptar skoðanir eru innan þessarar samkomu um, að málið sé nauðsynjamál og þurfi að ná fram að ganga.

Ég get aðeins bætt því við, að aldrei hefur meira verið um það talað en nú, hvar nauðsyn sé á tryggingum gegn atvinnuleysi í landinu eftir stríðið, og þetta frv. hnígur í þá átt að tryggja atvinnu þeirm3 manna, sem lifa beint eða óbeint á fiskiveiðum, hvort sem þeir eru fiskimenn sjálfir eða útgerðarmenn. Og ég geri ráð fyrir, að af því að sjávarútvegurinn hefur nú undanfarin 2–3 ár aflað landinu mörg hundruð millj. kr., þá muni þykja vel til fallið, að á þessum sama tíma sé einnig reynt að sjá fyrir því, að tryggt sé, að ekki ríki hér atvinnuleysi og neyð meðal fiskimanna fyrstu árin, eftir að stríðinu lýkur, en flestir munu gera ráð fyrir miklu verðfalli og örðugleikum á sviði útgerðarinnar eftir stríðið, sem að sjálfsögðu hlýtur að skapa atvinnuleysi og bágindi, ef ekki er sett undir þan n leka fyrirfram.

Fundið hefur verið að því við meðferð þessa máls að undanförnu, að nægar upplýsingar skorti, sérstaklega um það, hversu mikil fjárhæð mundi verða greidd úr ríkissjóði samkv. þessum l. Gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram jafnháa upphæð til þessara hlutatrygginga og útgerðarmenn og fiskimenn, en til þess er því að svara, að áður en frv. var borið fram í fyrsta sinn, fékk ég Fiskifélag Íslands til að reikna þetta út með mér. Sá útreikningur er að sjálfsögðu ekki óvéfengjanlegur, en þó nærri réttu lagi, að ég hygg. Var þar talið, að tekjur þessa væntanlega tryggingarsjóðs aflahluta mundu verða um 140 þús. kr. á ári. Þar var miðað við árferði, sem var ekki hagstætt sjávarútveginum. Það var árið 1938, en þá voru aflabrögð frekar treg, þó ekki í versta lagi, og verðlag frekar bágborið. Ég hef ekki séð ástæðu til að fara að reikna þetta út á ný, miðað við það verðlag, sem nú er, því að enginn mun gera ráð fyrir, að það verð viðhaldist. Auk þess er ákaflega erfitt að gera slíka útreikninga, sökum þess að afli, verkun og útflutningur er á svo margháttuðu stigi og magn afla mjög mismunandi.

Eins og ég tók fram í upphafi, sé ég enga ástæðu til að halda hér langa framsöguræðu. Það á ekki að þurfa að hvetja okkur hér til að gera þær ráðstafanir, sem þykja vera til öryggis. Það á að vera okkar skylda, og sé því ekki ástæðu til að vera með sérstakar brýningar í þá átt, en óska aðeins, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.