22.01.1943
Efri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

118. mál, jöfnunarsjóður vinnulauna

Haraldur Guðmundsson:

Það er ekki af því, að ég vilji halda uppi kappræðum um frv. á þessu stigi málsins við hv. flm., að ég kvaddi mér hljóðs. En sumt, sem mér fannst fullljóst í frv., verður mér alveg óljóst eftir þessa síðari ræðu hans. Vil ég því gera nokkrar fyrirspurnir.

Mér skildist á því, sem hann sagði í ræðu sinni, að hann gerði ráð fyrir því, að samningar um vinnulaun og slíkt yrðu í höndum hlutaðeigandi félaga og samtaka eins og verið hefur og á því yrði ekki breyt., þó að þetta frv. yrði samþ. sem l. Mér gengur erfitt að gera mér grein fyrir því, hvernig þetta yrði framkvæmt. Ef t.d. deila rís milli togarasjómanna og togaraútgerðarmanna um kjör á togurum og þar ber verulega á milli, þá get ég hugsað mér, — tel það þó vafasamt —, en get þó hugsað mér, að skipin héldu áfram að ganga, ef útgerðarmenn væru þá á því að láta þau gera það, þann tíma, sem sjóðurinn eða sjóðirnir væru að nota þennan 1/4 part, sem heimilt er að greiða í mismun þann, sem er á milli þess, sem atvinnuveitandi hefur boðið og vinnuþiggjandi hefur krafizt, og ég geri ráð fyrir, að fyrirstaða yrði ekki hjá sjómönnum með að vinna þann tíma. Hins vegar tel ég óvíst, að atvinnurekendur teldu heppilegt, að þessi tími yrði langur, eftir að samningum hefði verið sagt upp, sem þannig yrði haldið áfram að greiða mismuninn á milli krafna sjómanna og þess, sem atvinnurekandinn vill borga. Þó að það væri hugsanlegt, tel ég það frekar ólíklegt. En nú yrðu þessir sjóðir mismunandi hjá fyrirtækjunum, þannig að á mismunandi tíma ætti þá þessi greiðsla að lækka niður í það að vera mismunurinn á þurftarlaunum og því, sem atvinnurekandinn hefur boðizt til að greiða, og ég hygg, að þessi „þurftarlaun“ yrðu verulega undir því, sem sjómennirnir þyrftu að fá. Og ég geri svo ráð fyrir því, að þurftarlaun yrðu í öllu falli eitthvað undir því, sem sjómenn hefðu heimtað, og ég verð að telja það ákaflega vafasamt, að sjómenn mundu una því vel að fara út á skipin og láta greiða sér, svo lengi sem fé sjóðsins entist, þessi svo kölluðu þurftarlaun. En svo mundu einnig skipin stöðvast mismunandi snemma, eftir því hversu lengi sjóðirnir entust, alveg eins og það mundi koma mismunandi fljótt, eftir því hvert fyrirtækið væri, hvenær launin kæmust niður í þurftarlaun, þannig að á sumum skipunum yrði á sama tíma greitt kaup eftir kröfum sjómanna, en á öðrum þurftarlaun svo kölluð. Ég býst við, að við séum báðir, hv. flm. og ég, svo kunnugir þessum málum, að við sjáum, að þetta er óframkvæmanlegt.

Ef fyrirtæki leggst niður, þá á það, sem eftir er í jöfnunarsjóði vinnulauna þess fyrirtækis, að leggjast í sameiginlegan jöfnunarsjóð vinnulauna, sem á að vera stofnun fyrir allt landið.

Hins vegar er vitanlegt, að hvert fyrirtæki á eftir þessu frv. að hafa sinn sérstaka jöfnunarsjóð, sem samkvæmt 8. gr. frv. aldrei má greiða fé úr til þess að forðast vinnustöðvun annarra aðila. Þessir jöfnunarsjóðir hvers fyrirtækis yrðu því í raun og veru eins konar varasjóðir, sem fyrirtækin eiga til þess að jafna á milli krafna sjómanna og þess, sem atvinnurekendur vildu greiða í kaup, og það er ákaflega trúlegt, að þegar miklar tekjur væru hjá fyrirtækjum, þannig að þær mestallar færu annars í skatta, þá mundu fyrirtækin nota sér að taka sem svarar 10% vinnulauna og leggja í jöfnunarsjóð sinn og koma svo fyrr með kröfur um launalækkun en ella. En eins og ég áðan sagði, þá leiðir af því, ef jöfnunarsjóðinn á að nota til að greiða umræddan mismun á kaupi hjá hverju fyrirtæki fyrir sig, það, að maður hlýtur að álykta, að frv. byggist á þeirri hugsun, að launin hjá hverju fyrirtæki eigi að miðast við greiðslugetu þess. En það getur aldrei orðið framkvæmanlegt. Launin verða að miðast við heildarreglur þess atvinnurekstrar. Og þau fyrirtæki, sem standa svo vel að vígi, að þau geta starfað með sæmilegri afkomu, miða við það almenna meðaltal launa, sem atvinnurekendur geta borgað, þar sem reksturinn gengur vel. En hin fyrirtækin, sem einhverra hluta vegna ná því ekki að starfa með sæmilegri afkomu, verða að bæta sig eða heltast úr lestinni. Jafnvel þó að vel gangi með verzlun, útgerð og iðnað, gefast einstök fyrirtæki í þessum greinum upp. Og ef ætti að miða launagreiðslur þeirra fyrirtækja, sem standa höllum fæti, við greiðslugetu þeirra, þó að önnur slík fyrirtæki geti borgað hærra kaup, þá sjá allir, að það er ekki eðlilegt. En hér er miðað við það, í hverju einstöku tilfelli, að hvert fyrirtæki geti tryggt sig gegn vinnustöðvun, sem miðast við greiðslugetu hvers fyrirtækis í þessu efni.