30.03.1943
Efri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2739)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. l. minni hl. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Menntmn. hefur ekki getað orðið sammála um þetta mál, heldur hefur hún klofnað í þrennt. Einn minni hl. leggur til, að það verði samþ., annar, að því verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og sá þriðji, að það verði fellt.

Ég held satt að segja, að þetta mál sé þess eðlis, að hv. þm. hafi alls ekki áttað sig á því, hvað hér er um að ræða. Svona mál hafa aldrei komið fyrir hér áður, og Íslendingar eru ókunnugir lögum um þessi efni annars staðar að. Við 1. umr. lýsti ég þessu þó nokkuð, auk þess sem segir í grg. frv., en þetta er talsvert flókið mál, og ég get skilið það, að hv. þm. átti sig ekki strax á því. Það hljómar t.d. mjög vel í eyrum að vilja vernda fornritin, og einmitt á þeim grundvelli fengu þessi l. fylgi, er þau voru sett, þótt sumir vildu koma þeim á af öðrum ástæðum. En þeim, sem kynna sér þetta mál og viðaukal. frá 1941 til hlítar, verður það ljóst, að þau eru hin mesta fjarstæða frá öllum sjónarmiðum, og má leiða að því mörg, rök.

Í fyrsta lagi er það á móti öllum grundvallarskilningi í þessum málum að setja svona lög. Sannleikurinn er sá, að ekkert ríki getur helgað sér útgáfurétt á nokkru verki, eftir að rithöfundarétturinn, sem er 50 ár, er útrunninn. Það byggist á fyllsta misskilaingi, að íslenska ríkið eða nokkurt annað ríki geti helgað sér útgáfurétt á nokkru riti, eftir að höfundarétturinn, sem samkvæmt alþjóðasamkomulagi er 50 ár, er útrunninn, og er þá alveg sama, eftir hvern verkið er og hvaðan hann er. Þá getur hver sem er gefið það út án þess að spyrja nokkurn leyfis. Af þessari ástæðu eru þessi l., sem hér um ræðir, ekkert annað en hreinasta fjarstæða. Íslenzka ríkið getur alls ekki tekið sér þennan rétt samkvæmt alþjóðalögum. Hver sem er og hvar sem er má gefa út íslenzku fornritin án serstaks leyfis, og það er vitað, að mikill hluti af íslenzkum fornritaútgáfum, hefur verið gerður erlendis, og því getur vitanlega haldið áfram. Þannig getur hvaða útlendingur sem er gefið þessi rit út erlendis og dreift þeim síðan út hérlendis, án þess að nokkuð sé hægt að segja við því, þrátt fyrir þessi l. Í þessu sambandi má benda á það, að þessi l. eiga sér ekkert fordæmi meðal annarra þjóða, og munu þau því alls staðar meðal þeirra verða fordæmd og talin markleysa ein, þar sem þau eru gagnstæð anda alþjóðalaga. Enn er eitt atriði og það er það, að það mun mjög hæpið, að þessi l. brjóti ekki í bága við stjórnarskrá Íslands, enda vafasamt, að hæstiréttur mundi dæma eftir þeim, en í 67. gr. stjórnarskrárinnar segir, að ritskoðun megi aldrei í lög leiða, en með þessum l. er ríkisstj. falið að hafa eftirlit með útgáfum af fornritunum, og það þarf að sækja um leyfi til hennar til þess að mega gefa þau út. Þannig stríða þessi lög gegn öllum alþjóðasamþykktum og eru hlægileg utan landsteinanna, eiga sér ekkert fordæmi annars staðar og má telja víst, að þau séu ekki í samræmi við stjórnarskrá Íslands. Nú væri langt mál að skýra, hvernig þessi skilningur er til kominn, og dettur mér ekki í hug að fara langt út í það mál, hvers vegna andleg verðmæti þjóðanna eru álitin sameiginleg verðmæti allra þjóða og hvers vegna það hefur verið tekið upp að heimila öllum að gefa þau út. Það er m.a. vegna þess, að þjóðirnar treysta á allt annað en réttvísina í þessum efnum. Þær treysta á almenna dómgreind, á álit menntastofnana og almennings og á gagnrýni vísindamanna, sem þeir telja, að allt sé sterkara en réttvísin í þessum efnum. Hvað viðvíkur þeirri verndun sérstakra rita, sem ætlað var að framkvæma með þessum l., þá kemur hún ekki að neinu gagni, eins og kemur réttilega fram í álitsskjali frá þeim þremur prófessorum háskólans, sem menntmn, leitaði álits hjá um þetta mál. Þar segir: „ „Verndun“ kemur hér ekki til greina, líkt og með fornminjar, því að elztu textarnir, sem til eru, verða til eftir sem áður, og líklegt er, að lesendur, sem fengið hefðu mætur á ritunum styttum, mundu fýsa síðan að kynnast þeim líka óstyttum“. Þ.e.a.s., þess gerizt ekki þörf að vernda fornritin sjálf, því að þótt gefnar væru út einhverjar útgáfur af fornritunum, sem taldar væru slæmar, eða þótt þær væru styttar eða breytt stafsetningunni í þeim, þá er engin hætta á, að þær mundu eyðileggja frumritin sjálf, því að ef þessar útgáfur eru slæmar, þá dæma þær sig sjálfar. Slæmar útgáfur af góðum verkum geta aldrei spillt verkunum sjálfum. Það er ætlazt til þess, að þessi verk séu sameiginlegur menningararfur og að rithöfundum sé heimilt að gera við þau hvað sem þeir vilja. Það eru fjölmörg dæmi þess, að forn „klassísk“ verk hafa verið gefin út stytt og þau hafa verið endursögð fyrir börn, en þeim útgáfunr hefur aldrei tekist að vinna frumritunum neitt tjón, hvort sem þær hafa ver ið vel eða illa gerðar. Þótt t.d. Jóhann Sigurjónsson semji leikrit út af Njálu, þá breytir það Njálu ekkert, hvort sem leikritið er vel eða illa gert. Sama má segja um hin fornritin, þótt gefnar hafi verið út af þeim margar slæmar útgáfur, hafa þær aldrei getað orðið frumritunum til neins tjóns. Í fáum orðum sagt, það er barna allt annað og áhrifameira, sem kemur til greina en réttvísin. Hún er hvergi talin dómstóll í þessum málum, því að þar kemur svo margt annað til greina svo sem gagnrýni fræðimanna og álit þeirra og almennings, bókakaupenda og menntastofnana. 1 nál. frá 3. minni hl. menntmn. er talað mikið um hina sérstöku útgáfu af Laxdælu, sem var tilefnið til þessara laga. Þar er m.a. talað um, að unnin hafi verið skemmdarstarfsemi með þessari útgáfu. Annars þarf ég ekki að taka það fram, að í þessu nál. ægir saman ýmsum firrum, sem ekki eru svara verðar.

Það er aðallega tvennt, sem haft er á móti þessari útgáfu af Laxdælu. það er í fyrsta lagi stafsetningin, og hefur því verið sett í l., að ekki megi leyfa útgáfu á fornritunum nema með svonefndri samræmdri stafsetningu. En nú hafa sérfræðingar staðfest, að ekki sé um neina slíka samræmda stafsetningu að ræða, og er því fjarstæða að ætla sér að gefa út bækur með stafsetningu, sem er ekki til, en handrit fornritanna eru með mjög mismunandi stafsetningu. Áðurnefndir prófessorar segja líka í álitsskjali sínu, að hin svonefnda samræmda stafsetning standi að ýmsu leyti fjær hinum forna framburði en hin lögboðna stafsetning. Tökum t.d. orðið „gifta“, sem er ritað með p í samræmdu stafsetningunni, en f í þeirri lögboðnu, og er það nær hinu upprunalega, þar sem orðið er dregið af sögninni „að gefa“. Sama máli gegnir um orðið „hefur“, sem er ritað „hefir“ með samræmdri stafsetningu, en „hefur“ með þeirri lögboðnu, og er það nær hinu rétta. Þannig mætti nefna mörg dæmi.

Annað, sem fundið er að áður umgetinni út gáfu af Laxdælu, er það, að sagan sé þar stytt, þ.e., að felldir séu úr henni ýmsir kaflar og ættartölur og auk þess einstöku breytingar á orðalagi og setningum, sem koma fram í sambandi við það. Sérfræðingar, sem leitað hefur verið til þessu viðvíkjandi, halda því fram, að það sé ekkert athugavert við það, þótt einstakar útgáfur fornritanna séu styttar. Í álitsskjali prófessoranna segir svo: „Í Íslendingasögum ægir auk þess saman svo sundurleitu og misverðmætu efni, að sumar þeirra má stytta til bóta fyrir alla lesendur, er leita þar annars en þess fróðleiks, sem oft spillir bókmenntagildi þeirra, gerir þær torlesnar og er sjálfur mjög vafasamur að gildi, t.d. ungar vísur eignaðar fornmönnum, brenglaðar ættar tölur og því um líkt. Líklegt er, að hin miklu sögulegu og bókmenntalegu verðmæti Sturlungu, sem er illa gerð samsteypa margra sagna, mætti gera almenningi arðbærari með því að gera úr henni skipulegt úrval, enda er vikið mjög frá efnisskipun handritanna í tveimur útgáfum hennar“.

Nú er það svo, að í afritum af fornsögunum koma fyrir bæði breytingar og styttingar svo að menn vita sjaldnast, hvað er frá fyrsta höfundi eða hverju er breytt til batnaðar og hverju til hins verra. Jafnvel fræðimenn vilja oft láta fella niður kafla úr sögunum, sem þeir telja, að eigi ekki að vera þar, og geta þeir þá fært rök máli sínu til stuðnings. Það er ýmislegt í fornritum okkar, sem okkur finnst til erfiðleika við lestur þeirra, og því er sjálfsagt að reyna að finna það bezta. Það er rétt að gera þær útgáfur, sem ætlaðar eru til náms og vísindaiðkanna, þannig úr garði, að vísindamenn telji þær vandaðar og sem næst því upphaflega. En það gæti hins vegar verið rétt að hafa einnig sumar útgáfurnar við alþýðuhæfi. Ég tek til dæmis Don Duixote eftir Cervantes, sem er langt og frægt verk. Af því hafa verið gefnar út margar styttar útgáfur. Sjálft verkið hefur haldizt óspillt fyrir því, en þessar útgáfur hafa getað orðið til þess að vekja áhuga almennings á verkinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að rétt sé að gera ýmsar Íslendingasögurnar á sama hátt aðgengilegri fyrir almenning. Þessi afskaplegi ótti, sem greip menn, þegar þessi útgáfa af Laxdælu kom út, finnst mér alveg óskiljanlegur, og hlýtur hann að stafa af því, að menn hafi alls ekki gert sér ljóst, hvað hér er um að ræða. Eins og Laxdælu stafi nokkur hætta af því, að gefin sé út af henni slík útgáfa ! Ég álít, að þær styttingar, sem H. K. L. hefur gert á sögunni, séu til bóta og að útgáfan sé einmitt við alþýðuhæfi. Það segir sig líka sjálft, ef á að helda við lestri fornsagnanna, þá nær engri átt að ætla sér að halda gömlu stafsetningunni á þeim, því að það verður aðeins til þess að fjarlægja þær frá almenningi, Eins og Englendingum detti nokkurn tíma í hug að gefa út rit Shakespkare's með stafsetningu þeirra tíma sem þau eru samin á. Auðvitað eru þau gefin út með stafsetningu þess tíma, sem útgáfan kemur út á. Sama máli er að gegna um rit Goethes t.d. — Hér er aðeins um hlægilega fordóma að ræða.

Ég vil svo aðeins minnast lítillega á nál. 2. minni hl. menntmn., hv. 2. þm. Árn., þar sem hann leggur til, að frv. verði vísað frá með svohljóðandi rökstuddri dagskrá: „Í trausti þess, að ríkisstj. láti bráðlega framkvæma undirbúning þann til heildarlöggjafar um höfundarétt og listvernd, er henni var falin með ályktun Sþ. 16. marz s.l. og að jafnframt því fari og fram undirbúningur til breytinga á ákvæðum l. nr. 127 frá 9. des. 1941, þykir deildinni eigi ástæða til að afgreiða frv. það, er hér liggur fyrir, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá“. Í raun og veru getur það virzt mjög hófleg aðferð við málið. En ég álít þó, að af mörgum ástæðum væri langréttast fyrir þessa hv. d. að sjá að sér þega r og afnema þessi l. Það hefur fallið dómur eftir þessum l. í undirrétti, og Halldór Kiljan Laxness og annar maður, uppvaxandi maður, hafa verið dæmdir í sekt eftir l. þessum. Ef hv. þdm. gerðu sér grein fyrir því, hversu hlægilegt allt þetta er í augum þeirra, sem vit hafa á þessum málum, þá gæti ég hugsað mér, að þeir hugsuðu sig um, áður en þeir greiddu atkv. móti þessu frv. Ég held, að það hafi í raun og veru verið herkvíin, sem landið er í, sem hafi bjargað þessum mönnum, sem stóðu að þessum lagafyrirmælum. En fréttist það út um heim, að maður, sem er þekktur rithöfundur úti í löndum, hafi verið dæmdur af þessum ástæðum, þá get ég hugsað mér, að það þyki ómenningarbragur á íslenzku þjóðinni, að hann hafi verið dæmdur eftir l., sem þannig hafa verið sett. Og ég veit, að þar sem þetta hefur borizt til eyrna erlendum rithöfundunum, hefur þetta vakið stórkostlegt hneyksli. Þessi l. stríða þannig móti öllum reglum um útgáfur og eiga sér ekkert fordæmi annars staðar í heiminum, eru enn fremur á móti ákvæðinni hinnar íslenzku stjórnarskrár, og geta þar að auki alls ekkert gagn gert, þar sem réttvísin er ekki hinn áhrifamesti aðili í þessum málum, og þess vegna held ég, að það væri langmestur sómi að því að afnema þessi l. strax og bíða ekki eftir úrskurði hæstaréttar í þessu máli og heldur ekki eftir þeirri endurskoðun, sem fram á að fara á rithöfundal.

Það er ekki nein fjarstæða, heldur blákaldur sannleikur, að þessi l. hafa sett ómenningarbrag á Alþ. Íslendinga. Og er mjög leiðinlegt til þess að vita, að Alþ. skyldi láta sig henda það að setja svona l. Og það mundi alls ekki hafa gert það, ef hv. alþm. hefðu áttað sig fyllilega á því, hvers eðlis þessi l. voru, hvernig þau stríddu gegn allri heilbrigðri dómgreind og grundvallarskilningi á þessum málum, og í öðru lagi, hve gagnslaus og áhrifalaus þau hlutu að vera. Þessum hv. þm. þarf ekki að detta í hug, að þau stöðvi þá tilraun, sem hér er gerð á útgáfu .í Íslendingasögunum. Ég veit, að Halldór Kiljan Laxness heldur áfram að gefa út Íslendingasögurnar þrátt fyrir þessi l. Ég veit ekki betur en að hann sé nú að gefa út Njálu og fleiri Íslendingasögur á sama hátt. Sem hefndarráðstöfun gegn þessum rithöfundi, eins og þessi l. voru áreiðanlega hugsuð af þeim mönnum sumum, sem börðust fyrir því, að þau væru sett, koma þau heldur ekki að neinu gagni. Ég held því, að frá öllum sjónarmiðum séð væri það rétt fyrir hæstv. Alþ. að afnema þessi l., en samþ. ekki dagskrártili., hvað þá þá fásinnu að halda l. óbreyttum við, heldur samþ. þetta frv., sem fyrir liggur, svo að þessi l. setji ekki lengur ómenningarbrag á Alþ.

Og það er eitt, sem ég vildi sérstaklega leggja áherzlu á í þessu sambandi. Það vantraust, sem í þessum l. felst á frjálsri útgáfustarfsemi í landinu og sjálfri dómgreind þjóðarinnar, að þvinga upp á þjóðina svona l., er í raun og veru smán við borgara landsins, eins og þeir væru krakkalegri eða hefðu minni menningu en aðrar þjóðir og hefðu ekki dómgreind til þess að aðskilja slæmar útgáfur af fornritunum frá góðum eða mundu týna virðingu fyrir fornbókmenntunum, þó að gefnar væru út af þeim einhverjar slæmar útgáfur. Og þetta gloppaðist nú upp úr hv. þm. S.–Þ. í nál. hans, þar sem hann segir undir lok þess álits: „Líf og giftuvon frjálsrar þjóðar hvílir á dómgreind algengra borgara“. Þetta er einmitt kjarninn í þessu máli, að það er á dómgreind borgaranna, sem það byggist, að það á ekki að setja l. um ritskoðun í þessum efnum.

Mér finnst, að það, sem speglast í þessum l , sé bæði vantrú á sjálf fornritin, að þau geti ekki haldið velli, þó að gefnar séu út af þeim gallaðar útgáfur, og hins vegar vantraust á dómgreind þjóðarinnar til þess að meta gott frá illu í þessum efnum, Ég vil því mælast til þess við hv. þdm., að þeir hugsuðu sig nú vel um, áður en þeir ganga til atkvgr. um þetta frv. og gerðu sér grein fyrir, hvað hér er í raun og veru um að ræða. Og ef þeir vilja alvarlega athuga þessi mál, geta þeir ekki komizt nema að einni niðurstöðu, þeirri, að þessi l. eru hin mesta fjarstæða og mjög er leiðinlegt fyrir Alþ. að hafa nokkurn tíma sett þau. — að þau stríða móti öllum alþjóðalögum og eiga sér ekkert fordæmi neins staðar utan Íslands, — að þau geta ekki haft nokkur áhrif utan íslenzkra landsteina, því að það eru Íslendingar einir, sem með þessum h er bannað að gefa út fornritin, — að þau enn fremur stríða á móti stjórnarskrá Íslands, — að þau eru gersamlega gagnslaus, þýðingarlaus og í raun og veru sár móðgun við þjóðina og dómgreind hennar á bókmenntum.