12.02.1943
Neðri deild: 58. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2801)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Jakob Möller:

Herra forseti. — Ég er sammála þeim, sem látið hafa í ljós, að ástæðulaust sé að setja lagaákvæði um þetta efni, þótt vitanlega sé frv. borið fram í sambandi við mál, sem nýlega var afgr., en það var um orlof verkafólks, og minnist ég aðeins á þetta mál um kynnisferðir sveitafólks til þess að undirstrika enn frekar, hve ástæðulaust það er. Það er ekki sambærilegt við orlof verkafólks, sem vinnur hjá öðrum og er ekki sjálfrátt með tíma sinn. Hér er um að ræða sjálfstæða atvinnurekendur, sem geta veitt sér orlof þegar þeir vilja. Margir eiga ekki auðvelt með að fara frá störfum á þeim tíma, sem helzt er um að ræða til þessara ferða. Sumir geta ekki veitt frí frá störfum vegna atvinnurekstrar síns á heppilegum tíma. Hins vegar er það augljóst mál, að fjölmargir aðrir atvinnurekendur í landinu verða að veita svipuð hlunnindi líka, ef þetta nær samþykki.

Mér skildist á einum hv. þm., að von væri á brtt. við þessa umr.

Ég skal nú reyna að stytta mál mitt. Ég hef hugsað mér að bera fram brtt., en ekki hef ég samið hana sjálfur, heldur er hún frá hv. 2. þm. Árn., sem bar hana fram í Ed., og vil ég leyfa mér að taka hana hér upp.

Ég tel mjög skynsamlegt að veita máli þessu í annan farveg. Mundi það verða vel þegið, að varið yrði nokkurri fjárhæð til menningarauka ungs fólks í sveit, og mundi féð koma að góðum notum fremur á þann hátt en eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.