07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2860)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta. En það er vitanlega svo um næstum alla úrskurði, að þeir eru matsatriði. Um mikið af úrskurðum í deilum yfirleitt er það svo, að það verður að meta, hvernig eigi að skilja það eða þau ákvæði, sem fyrir liggja og úrskurða á eftir.

Ég er satt að segja undrandi yfir þessari starfsaðferð hæstv. forseta, vegna þess að það er sjálfsagt að segja það eins og það er, að hann hefur yfirleitt stjórnað fundum hér þannig, að við höfum enga ástæðu til að bera honum annað en að hann hafi sýnt fullkomna réttsýni og sanngirni. Og ég hygg, að þessi aðferð hans nú sé eingöngu fyrir það, að það hafi ekki verið af hæstv. forseta hugsað út í það, hvert svona fordæmi í úrskurði getur leitt. Þó að því sé haldið fram, að þm. hafi ekki mikla tryggingu fyrir því, að forseti geri rétt í úrskurðum, þá er ekki miklu meiri trygging fyrir réttsýni í úrskurðum, þó að þeir séu á valdi d. Það er svo bæði með forseta og aðra, sem taka að sér ábyrgðarstörf, — þó að vitanlega geti út af því brugðið, að þeir geri rétt, eins og um aðra menn —, þá er það venjulega svo, að menn setjast ekki í forsæti á Alþ., nema þeir geri yfirleitt það, sem þeir álita rétt vera. Starfið sjálft krefst þess, að það sé gert. Og það er miklu hættulegra að láta meiri hl. þd. ráða, vegna þess að þar getur verið framið flokkslegt ofbeldi af mörgum. Og það er miklu meiri hætta á slíku flokkslegu ofbeldi heldur en ranglæti í ákvörðunum, sem forseti einn tekur ábyrgð á. Og það fordæmi, sem hér hefur skapazt, leiðir af sér það, að það má með þessum hætti misþyrma hvaða máli sem er samkv. þessum reglum. Meiri hl. d. getur skotið sér undan því að taka afstöðu til máls eða mála með þessu móti, og það langt fram yfir það, sem forseti mundi nokkurn tíma gera, sem hefur ekki tilhneigingu til annars en að sýna réttsýni.

Menn ræða nú ekki orðið um þetta mál af neinni alvöru. Málið er komið í botnleysu. Og þess vegna óska ég fyrst og fremst, að tekin sé afstaða til málsins. Og málsmeðferðin er þannig, að þeir eru aumkunarverðastir, sem hafa notað þessa málsmeðferð. Því að það sér hver einasti maður, að hún er þannig, að það er ómögulegt að ver ja hana.

Forseti mun telja sig hafa úrskurðað um þetta mál. Ég man ekki hvernig orð hans féllu, nema ef hann hefur úrskurðað þannig, að hann færi eftir því, sem meiri hl. d. vildi hafa í málinu, ef á að fallast á, að það sé nokkurs konar úrskurður. En ef framkvæmdur hefur verið einhver úrskurður um, að þetta mál skuli skoðast nýtt mál, — en vitanlega er sá úrskurður ekki réttur -, þá er ómögulegt að komast hjá því að úrskurða brtt. frá til þess að samræma vitIeysuna.