07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2877)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Hermann Jónasson:

Ég vildi aðeins taka fram, að þótt ég hafi talið, að sú lausn á málinu, sem lá fyrir samkv. búningi þess, þegar málið fór hér úr þessari hv. d., og ég álíti enn, að hún sé betri og eðlilegri heldur en sú, sem nú er upp tekin, þá mun ég fylgja frv. Og ég benti á það í sambandi við þá lausn, sem ég stakk upp á, að við verkamannalaunin er bætt 4%, sem samsvarar kaupi í 12 daga á hverju ári. Og kemur það m.a. til álita við athugun á málinu, að stærsti atvinnurekandinn á landinu er ríkissjóður, og hann greiðir þess vegna ofan á það kaup, sem greitt er og verður greitt, um 4% vegna orlofslaganna. Þetta kostar ríkissjóð til þessara stétta í þjóðfélaginu — og ég tel það ekki eftir — nokkur hundruð þús. kr. á ári, ef framkvæmdir ríkissjóðs eru eins miklar og nú er. Þess vegna taldi ég, að ef greitt væri fé til bænda til orlofs, eftir því sem rætt hefur verið um í sambandi við jarðræktarstyrkinn, sem er greiddur í raun og veru fyrir endurbætur á landinu, þá væri það greitt sem lítilfjörlegar uppbætur, sem það eitt mætti finna að, að þetta væri svo lítið, að það væri næstum til minnkunar. Þetta vildi hv. Nd. þó ekki fallast á, heldur hefur hún tekið upp aðra reglu fyrir greiðslunni. Svo hefur þessu verið breytt hér, þannig að l. eru með samþykkt þessa frv. og brtt. við það ekki orðin annað en heimild framleiðendum til handa til þess að mega taka úr sínum eigin vasa fé til þess að leggja fram til að standa undir kostnaði við þessar orlofsferðir. Því að eins og hv. þm. Dal. (ÞÞ) benti á, að ef teknar verði upp þessar reglur, sem lítur nú út fyrir, að verði gert, þá er ekki hægt að taka þetta með öðrum hætti. Og það er auðsætt, að ef verðlag á einstökum landbúnaðarvörum skapast eftir verðlagi þeirra á erlendum markaði, þá er ekki hægt að leggja þetta gjald ofan á verðið, því að kaupendur varanna. erlendis taka ekki tillit til þessa. Og innanlandsverðið hefur markazt mikið af því, sem fengizt hefur fyrir framleiðsluvörur bænda á erlendum markaði. Mér dettur því ekki í hug, að þeir, sem telja sig fulltrúa neytenda, sjái ástæðu til að leggja neinn stein í götu þessa máls, eins og það nú liggur fyrir. Það væri viðlíka eins og ef bændur færu að skipta sér af því, hvort verkamenn legðu vissan hundraðshluta af kaupi sínu til hlíðar í vissum tilgangi, sem þeir hafa gert og geta með samtökum sínum.

Ég mun því vera með þessu máli, enda þótt ég álíti, að það hafi verið í betra formi eins og það fór frá þessari hv. deild.