08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (2924)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. þær viðtökur, sem hún hefur veitt þessu frv., og fyrir það, að hún mælir með því, að það verði samþ. þrátt fyrir andúð landlæknis.

Hins vegar hafa tveir hv. þm. komið fram með mótmæli gegn því, að frv. verði samþ. Þeir eru báðir áhrifamenn í flokkum sínum, og er því andstaða þeirra þýðingarmikil. Ég verð að segja, að rök þau, sem þeir hafa fært fram, eru ýmist ekki veigamikil eða ganga hvor gegn öðrum. Hv. 3. landsk. fannst lítið unnið með frv. að undanskildu því, er viðkemur byggingu og rekstrarkostnaði sjúkrahúsa. Jafnframt telur hann, að lögin geti haft það í för með sér, að sjúkrahús verði byggð, án þess að brýn nauðsyn beri til. Hann viðurkennir því, að þau auðveldi aðstöðu sveitar- og bæjarfélaga í þessu efni. En sú hætta, sem hv. 3. landsk. bendir á, að byggð verði fleiri sjúkrahús en þörf gerist, er alls ekki fyrir hendi.

Hv. þm. S.-Þ. færði það aðallega fram sem rök, að nú væru á döfinni till. um að styrkja ákveðin sjúkrahús, sem kölluð yrðu fjórðungssjúkrahús. Það er rétt að vísu, að fjvn. hefur lagt til, að á þessu ári yrði þremur spítölum, spítala Ísaf jarðar, Akureyrar og Seyðisfjarðar, veittur rekstrarstyrkur, sem næmi 100 kr. á rúm. Það má segja, að þetta er ofurlítill léttir fyrir sjúkrahúsin, en ekki mikill. Hann vegur ekki mikið upp á móti rekstrarhallanum.

Þá leggur nefndin til, að þessum sjúkrahúsum og fjórða sjúkrahúsinu, sjúkrahúsinu á Siglufirði, sé veittur styrkur vegna dvalar utansveitarmanna. Er hér gengið mjög í sömu átt og ákveðið er í þessu frv. Sé ég þá ekki ástæðu til þess að binda framlag ríkissjóðs við ákveðna upphæð, sérstaklega þegar þátttaka — ríkissjóðs verður ekki nema að litlum hluta. Og hinu held ég ákveðið fram, þrátt fyrir andmæli, sem hér hafa komið fram, að á allan hátt sé réttara, bæði um framlög ríkisins til byggingar sjúkrahúsa og eins um þátttöku ríkisins viðkomandi rekstri sjúkrahúsa, ef á annað borð er gert ráð fyrir honum eins og gert hefur verið hér, að þá séu um þetta hvort tveggja ákvæði í l., þannig að viðkomandi bæjar- og sveitarfélög viti fyrir fram um það, með hverju þau megi reikna í þessum tilfellum, og eins, að í hverju tilfelli þurfi ekki að vera að ræða um það og deila um það, hve mikið eigi að veita þessu eða þessu sjúkrahúsi. Og ég held líka, að ekki sé ástæða til þess, að yfirstjórn heilbrigðismálanna hafi það eingöngu á valdi sínu að meta það, heldur séu fastákveðnar reglur í l., sem fara skuli eftir í hverju einstöku tilfelli.

Hv. þm. S.-Þ. (JJ) kom einnig inn á sama atriði eins og hv. 3. landsk. (HG), að ef þetta frv. yrði að l., mundi það ýta undir það, að á sumum stöðum á landinu mundu rísa upp óþarflega stór sjúkrahús eða sjúkraskýli. Ég held, að engin ástæða sé til að óttast þetta, bæði af því, sem ég sagði áðan, að ég held, að nú sé það alveg augljóst mál, að það er allveruleg vöntun á sjúkrahúsum í landinu, og að hinu leytinu, að ef einhverjir ákveðnir staðir á landinu væru svo stórhuga, að þeir vildu reisa hjá sér sjúkrahús eða sjúkraskýli stærri en teljast mætti, að víðkomandi hérað hefði þörf fyrir, þá er það alveg á valdi heilbrigðisstj. að setja sig þar upp á móti. Því að samkvæmt þeim l., sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér nokkrar breyt. við, getur ekkert bæjar- eða sveitarfélag ráðizt í byggingu sjúkrahúss, nema fyrir liggi samþykkt heilbrigðisstj. um undirbúning málsins og fyrirkomulag á viðkomandi sjúkrahúsi. Þannig hefur heilbrigðisstj. samkv. l. vald yfir því, hve stórt sjúkrahús er byggt á hverjum stað og getur því útilokað þá hættu, sem þessir hv. þm. hafa talið vera fyrir hendi, en ég býst ekki við, að sé ástæða til að gera mikið úr.

Hv. þm. S.-Þ. fórust orð á þá leið, að ákvæði þessa frv.. ef að l. yrði, — og ég skildi það svo, að það ætti sérstaklega við það ákvæði frv., að ríkissjóður ætti að leggja fram helming byggingarkostnaðar sjúkrahúsanna —, að það væri, a.m.k. í sumum tilfellum, ofrausn, og nefndi til dæmis sjúkrahúsið á Húsavík, sem héraðinu hefði reynzt tiltölulega auðvelt að koma upp og ætti að eiga auðvelt með að standa straum af rekstri þess, þó að það hefði ekki fengið nema einn þriðja hluta byggingarkostnaðar úr ríkissjóði. Og vildi hann nefna þetta sem dæmi þess, að í mörgum tilfellum væri ofrausn af ríkinu að leggja fram meira en einn þriðja hluta byggingarkostnaðar. Ég vil nú álíta, að hér geti ekki verið um að tala neina ofrausn. Má vel vera, að hægt sé að halda fram, að ýmsir staðir á landinu geti, án þess að reisa sér hurðarás um öxl, komið upp sjúkrahúsum eða sjúkraskýlum, sem nægi fyrir viðkomandi hérað, og þá sérstaklega kannske fólksfá héruð. En jafnvel þó að segja mætti það, þá mundu þau sjúkrahús, sem á slíkum stöðum eru reist, heldur ekki vera það stór og kostnaðarsöm, að það gæti þá talizt, að ríkissjóður þyrfti að taka nokkuð nærri sér með því, þó að hann legði fram helming byggingarkostnaðar til slíkra sjúkrahúsa, þannig, ef á að byggja sjúkrahús á þessum stöðum, sem auðvelt væri fyrir víðkomandi héruð, þá ætti ríkissjóði ekki að vera aðþrengt neitt verulega með því, þó að hann væri bundinn með l. til að leggja fram helming byggingarkostnaðar einnig á þessum stöðum eins og þar, sem þyrfti að reisa stærri og dýrari sjúkrahús. En mér skilst það vera viðurkennt, að ekki sé ósanngjarnt, að ríkið leggi fram helming byggingarkostnaðar til sjúkrahúsa í kaupstöðum. Ef það er á annað borð viðurkennt, þá getur heldur ekki talizt neitt óeðlilegt, að sama regla sé látin gilda um allt landið í þessum efnum.

Tilgangur minn með því að flytja þetta frv. var eingöngu sá, sem mjög berlega kemur fram í frv., að fá því slegið föstu í l., hver þátttaka ríkissjóðs ætti að vera í byggingu sjúkrahúsanna. Ég álit, að það sé mjög sanngjarnlega farið í kröfur, þó að ætlazt sé til, að ríkissjóður leggi fram helming byggingarkostnaðarins, og við það er miðað í frv. Og ég held líka, að mjög sanngjarnlega sé í sakir farið í ákvæðunum um þátttöku ríkisins í rekstri sjúkrahúsa sérstaklega vegna þess rekstrarhalla, sem yrði vegna utansveitarsjúklinga. Og vænti ég þess, ekki sízt þar sem hv. allshn. hefur orðið sammála um að mæla með frv., að hv. þd. muni einnig fallast á að samþ. það, þrátt fyrir þau andmæli, sem hér hafa komið fram.