11.12.1942
Neðri deild: 14. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (3088)

39. mál, húsaleiga

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. — Ég flyt hér á þskj. 56 smávægilega brtt. við núgildandi húsaleigulög frá 1941. Hún er á þá leið, að breytt verði fyrirkomulagi um skipun húsaleigunefndar. Eins og nú er, er húsaleigun. í Rvík skipuð af hæstarétti og ríkisstj., en húsaleigun. úti um land eða þau störf, sem ætluð eru húsaleigun., eru falin fasteignamatsn. Fasteignamatsmenn eru kosnir til 6 ára í senn, og eru venjulega kosnir eldri menn, glöggir og greinagóðir, sem kunnugir eru þeim hlutum, sem sú n. þarf að vita um, en oft ómögulegir til að standa í því, sem húsaleigun. er lagt á herðar. Það er varhugavert að fela slík störf gömlum n., sem kosnar eru í allt öðrum tilgangi, og ætlast til, að þær framkvæmi jafnflókin lög og húsaleigul. eru, því að það er erfitt að framkvæma þau þannig, að þau komi fólki að fullu gagni. Venjulega eru störf húsaleigun. svo mikið lífsspursmál fyrir þann, er í hlut á, að ekki er viðhlítandi, að framkvæmd laganna sé falin mönnum, sem ekki eru verkinu vaxnir, og því verður breyting að fást á skipun n.

Ég er kunnugur því frá Siglufirði, að það hefur lent í mesta stríði að fá fasteignamatsn). til þess að taka að sér þau verkefni, sem húsaleigul. leggja henni á herðar, og ég fullyrði, að víða eru húsaleigul. aðeins pappírsgagn, vegna þess að l. eiga að framkvæmast af mönnum, sem ekki eru kunnugir þessum málum og þá skortir oft bæði vilja og þrek til þess að framkvæma þau.

Þegar fólk er í húsnæðisvandræðum, leitar það yfirleitt til bæjarstjórnanna, og það er eðlilegt, að þessi aðili hafi það í hendi sinni að fylgjast með því, að þau ákvæði, sem sett eru í húsaleigulögunum til aðstoðar hinum húsvilltu, séu hagnýtt til hins ýtrasta, og það eru einmitt bæjarstjórnirnar, sem geta fylgzt með því. Ég þekki ekki til þess, hvort það muni vera ástæða til þess hér í Rvík að breyta til þannig, að bæjarstjórnin kjósi húsaleigun., en ég veit, að kaupstöðunum fleiri en einum er þetta nauðsynlegt, og ég veit, að það er líka nauðsynlegt í ýmsum hreppsfélögum. Ég veit, að á Siglufirði koma húsaleigul. að litlu gagni, vegna þess að fasteignamatsn. hefur enga getu né vilja til að framkvæma þessi l.

Ég legg til, að málinu verði vísað til allshn.