07.12.1942
Efri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

18. mál, skógræktarstöðin í Hvammi í Dölum

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég er þakklátur hæstv. ráðh. og hv. þm. Dal. fyrir undirtektir þeirra. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að lítil till. eins og sú, sem ég flyt nú, er ekkert skipulag í heild. Mér skildist samt á honum, að hann viðurkenndi, að till. er spor í rétta átt.

Ég vil segja hv. þm. Dal. það, að mín skoðun er sú, að friða beri sveiginn allan í Hvammslandi, þ. e. fjalllendið allt. Hitt veit ég, að engum dytti í hug, sem ætlaði að fríða í Hvammi, að taka annað en fjallshlíðina.

Mér dettur í hug út af grein Ólafs á Hellulandi, að Skagafjörður er skóglaust land, og bændur eiga þar í miklum erfiðleikum að fá plöntur austan úr Þingeyjarsýslu. Af því er bæði mikill kostnaður, og svo koma plönturnar hálfdauðar á áfangastaðinn.