03.12.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3209)

9. mál, flutningur á langleiðum

Atvmrh. (Magnús Jónsson):

Þar sem ákveðnar hafa verið tvær umr. og málið fer til n., þarf ég ekki margt að segja nú. Það væri mikil meinsemi að vilja ekki láta fram fara skoðun á þessu máli, einkum með þeim forsendum, sem hv. flm. lætur fylgja því, að ekki sé til ætlazt, að sérstakur kostnaður verði fyrir ríkissjóð af því. En heimild þyrfti að vera til einhverra gjalda, ef með þyrfti.

Það hafa komið fram till. um að styrkja flutninga á ákveðnum langleiðum, en þá komu þegar í stað viðaukatill., og svo mun ef til vill verða hér líka. Það má búast við, að þetta verði nýr liður í fjárl. í framtíðinni, sem erfitt verður við að eiga. Sum héruð eru styrkt með því, að þangað eru lagðir vegir og þeim haldið við. Þau héruð, sem ekki geta notfært sér slíkt og verða að hafa öðrum þræði samgöngur á sjó, hafa fengið styrk. Ég lít svo á, að þetta hafi nokkuð jafnað sig upp.

Sums staðar hafa átt sér stað þær breytingar, eins og t.d. í héraði hv. flm., að landleiðin hefur orðið greiðfærari á sama tíma sem sjóleiðin hefur verið miklu minna notuð. Annars staðar hagar því aftur á móti svo til, að bæði sjó- og landleiðin hefur verið notuð svo að segja jöfnum höndum. Tökum t.d. Dalasýslu. Þar má kannske segja, að flutningar á landi séu yfirleitt hentugri, en þó er reynt að samræma þungavöruflutninginn við skipaferðirnar.

Fyrir nokkrum árum var farið að skipuleggja landferðir og flutninga að nokkru, og mér virðist, að hv. flm. till. vilji láta því verki haldið áfram að því leyti, sem nútímaþörf krefur, með hliðsjón af því, að ekki falli niður þær ferðir, sem nauðsynlegar eru, en erfiðast að halda uppi.

Ég vil svo ekki frekar vera að fjölyrða um þetta mál, en vil aðeins skjóta þessum aths. mínum til n. og að hún athugi mál þetta rækilega í heild fyrir landið allt.