05.04.1943
Neðri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (3280)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Jón Pálmason:

Ég geri nú ráð fyrir, að það hafi ekki næsta mikla þýðingu að þrátta mikið um þetta mál. Það er svo um þetta eins og önnur deilumál, að þar verða atkvæði að skera úr.

En það eru nokkur atriði, sem fram hafa komið hjá hv. tveimur síðustu ræðumönnum, sem ég vildi víkja að. Og það, sem gerði það sérstaklega, að ég kvaddi mér hljóðs, var, að hv. 1. þm. Árn. var með einhverjar dylgjur um það, að mér bæri að fara sérstaklega varlega í sambandi við Framsfl., af því að ég væri þm. A.-Húnv. Ég vildi gjarnan, að þessi hv. þm. gæfi skýringu á því, við hvað hann átti með þessum orðum. En ég vil segja honum, að bæði A.–Húnvetningar og aðrir landsmenn þekkja það til baráttuaðferðar Framsfl., bæði þar og viða annars staðar, að þeir hafa fulla ástæðu til að athuga, hvort ekki eru einhverjar leiðir hugsanlegar til hess, að betur heldur en verið hefur verði komið í veg fyrir það, að stjórnmálaflokkarnir geti komið við bardagaaðferðum eins og einmitt þeim flokki hefur tekizt, að útiloka landsmenn frá því að lesa annað en það, sem sá fl. ber á borð fyrir þá, þó að það hafi ekki verið í A.-Húnavatnssýslu.

Varðandi þær aths., sem hafa komið fram, bæði frá hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn., er það að segja, að sumt af því eru atriði, sem geta auðveldlega orkað tvímælis og fullkomlega getur komið til mála að breyta á einhvern hátt. Eins og hv. þm. Hafnf. tók fram, getur það fullkomlega orkað tvímælis, hvort það skilyrði ætti að setja fyrir rétti stjórnmálaflokks til birtingar ritgerða í þessu tímariti, að hann ætti a.m.k. þrjá fulltrúa á Alþ., eða hvort hann þyrfti að eiga þar aðeins einn fulltrúa. Og það er aukaatriði í. þessu sambandi, en ekki aðalatriði. En að þetta tímarit gæti orðið til þess að greiði götu öfgaflokka í landinu, ég fæ ekki séð þá stórkostlegu hættu á því, sem hv. 1. þm. Árn. þykist sjá. Ég er ekki eins óttasleginn við það eins og þessir hv. andmælendur frv. virðast vera. Því að ef einhverjir slíkir öfgaflokkar eru á meðal þjóðarinnar, má búast við, að þeir fái nóg önnur tækifæri til að koma skoðunum sínum út á meðal fólksins. Og ef þeir útbreiða skoðanir sínar, er það heppilegra, að menn geti svarað því á sama vettvangi, með þeirri aðstöðu, sem hér væri sköpuð.

Hv. þm. V.-Sk. kom eiginlega þvert á hv. 1. þm. Árn. Því að hann taldi, að ef ætti að ná þessum tilgangi, sem fyrir okkur vakir með þessu frv., þá væri frv. allt of áhrifalítið, vegna þess að það ætti ekki að koma út nema fjórum sinnum á ári. Hins vegar, ef ætti að tryggja það að ná þessum tilgangi, sem fyrir okkur vekti, þ.e. ef ætti að gera flokkunum jafnt undir höfði, þá yrði að vera ríkisútgáfa á öllum dagblöðum í landinu. Þetta hefur okkur flm. aldrei dottið í hug, heldur er till. okkar eingöngu bundin við tiltölulega lítið tímarit, sem komi út fjórum sinnum á ári, sem á að skýra höfuðstefnur og þau deilumál, sem helzt er barizt um milli flokkanna og t.d. valda stjórnarskiptum, þingrofi, kosningum og öðru slíku. Það kom fyllilega í ljós hjá hv. þm. V.-Sk., að hann virtist hvorki vera hræddur við þetta fyrirkomulag eins og hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Borgf. né að það stafaði nein sérstök hætta af því, heldur virtist mér öll hans ræða snúast um það, að þetta væri allt of áhrifalítil leið, til þess að ná því, sem fyrir okkur flm. vakir, og tekið er fram í grg. frv. um.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál. Ég gerði nokkuð rækilega grein fyrir tilgangi mínum með málinu í ræðu minni hér, þegar þessi umr. byrjaði. Og það hafa ekki komið fram nein ný rök frá andmælendum málsins, sem ég tel þess virði, að það þurfi að hafa um þau langar umr. Ég óska því, að hæstv. forseti hagi svo til, að það verði sem flestir hv. þdm. viðstaddir atkvgr. um málið nú, svo að úr því fáist skorið, hvort meiri hl. er fyrir því hér í hv. d. að gera þessa tilraun eða ekki.