05.04.1943
Neðri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (3282)

122. mál, tímarit til rökræðna um landsmál

Sveinbjörn Högnason:

Mig undrar það, hve hv. aðalflm. frv. (JPálm) virðist hafa gert sér litla grein fyrir því, hvað í þessu frv. í raun og veru felst. Og enn meira furðar mig á því, að þegar honum er bent ljóslega á það, þá skilur hann alls ekki mælt mál. Hann segir, að ég hafi helzt haft það við þetta frv. að athuga, að það næði ekki nógu langt og væri of áhrifalítið til þess að koma því í framkvæmd, sem ég taldi, að hlyti að vera höfuðmarkmiðið á bak við slíkt, ef ríkið á að annast útgáfustarfsemi í staðinn fyrir einstaklinga. Ég benti skýrt á það í ræðu minni, ef peningavaldið fær að ráða um útgáfu blaða eftir sem áður, þó að þetta tímarit væri gefið út, og jafnhliða tekur ríkið upp fyrir alla flokka eitt lítið tímarit, þá er ekki verið að jafna mismuninn, sem er á milli peningamannanna og hinna að því er tekur til aðstöðunnar til að koma áróðri út til fólksins gegnum hið prentaða mál, heldur væri verið að auka þann mismun með útgáfu slíks rits. Þetta tók ég skýrt fram. Og þetta yrði vegna þess, að þeir, sem hafa peningamagnið til þess að gefa út blöð, mundu hafa aðstöðu til þess eftir á, þegar búið væri að birta ritgerðir frá ýmsum flokkum í þessu riti um eitthvert efni, að hamra á því dag eftir dag, sem þeir sömu menn vildu láta vera ráðandi skoðun í því máli, og það enda þótt svo kynni að vera, að þeirra málstaður væri ekki réttur. Og þessum skoðunum eða kenningum gætu þeir menn haldið fram í þessu riti á kostnað hinna, sem ekki hafa neitt svipað því eins gott færi á því að halda fram málstað sínum eftir á eins og þeir.

Ég skal taka það fram enn, ef farið væri inn á þessa leið, að ríkið gefi út svona tímarit, þá þá er það til þess að hjálpa þeim, sem geta hamrað dag eftir dag á kenningum sínum og skoðunum, eftir að ritgerðir um þær hefðu verið birtar í tímaritinu. En það er ekki þörf á því að auka slíkt misrétti í landinu, heldur ætti það að vera þannig, ef Alþ. ætlaði sér að skipta sér af þessum málum, — það getur ekki verið önnur ástæða frambærileg — að það tæki sér fyrir hendur að eyða peningavaldinu í blaðaútgáfunni. Og ef á að gera það, verður að taka blaðaútgáfuna í hendur ríkisins og láta öllum landsmönnum í té jafna aðstöðu til blaðanna, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir.

Það þarf ekki fjárhagslega sterkan félagsskap til þess að halda uppi tímariti, sem kemur út fjórum sinnum á ári. En það þarf fjárhagslega sterka aðila til þess að halda uppi dagblöðum, sem koma út stöðugt dag eftir dag. Slík blöð geta, ef ráðamönnum þeirra þóknast svo, hamrað á því sama dag eftir dag, hvort sem satt er eða logið.

Ég mun flytja brtt. við þetta frv. við 3. umr., ef það verður ekki drepið við þessa umr., sem ég þó vona, til þess að hún, ef samþ. verður, geti komið í veg fyrir það, að með þessu máli væri aukið misræmið milli manna í þessum efnum. Því að ef á að gera þetta, sem í frv. er farið fram á, þá á að gera það með því móti að bæta úr misjöfnuði milli manna þannig, að sá fátæki geti komið eins fram sinni skoðun eins og hinn ríki, en ekki gera ráðstafanir til þess, að hinn ríki geti með ósannindum dag eftir dag haldið fram sínum sjónarmiðum. En þessi atriði virðist hv. þm. A.-Húnv. ekki skilja.