19.12.1942
Efri deild: 20. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (3367)

69. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Þegar allshn. gaf út nál. sitt um þetta mál, hafði ekki komið fram brtt. á þskj. 166, til þess að n. hefði haft tækifæri til að geta tekið ákvörðun um þá brtt. Var nú málinu frestað, til þess að n. gæti rætt brtt., en það er skemmst frá því að segja, að allshnm. gátu ekki komizt að samkomulagi. um till., og hafa þeir því óbundnar hendur um að greiða atkv. með eða móti þeirri brtt.

Rætt var um það í n. að kalla framkvæmdastjóra flugfélagsins og flugmálaráðunaut ríkisins á fund n., en um það náðist ekki heldur samkomulag, enda var ekki, eins og á stóð, hægt að fá framkvæmdastjórann, þar sem hann dvaldist á Akureyri.

En ég hef haft aðstöðu til þess að ræða þetta við stjórn flugfélagsins, og eftir því sem ég kemst næst, hygg ég, að brtt. á þskj. 166 sé óþörf og eigi tæplega heima við þál. þá, sem hér er um að ræða. Í þáltill. er ekki farið fram á annað en að rannsaka aðstæður flugmálanna hér á landi, að láta fara fram rækilega athugun á fyrirkomulagi flugvallabygginga og flugskýla og hvernig flugferðum verði bezt hagað í framtíðinni hér á landi. Því ætti ekki slík rannsókn að vera bundin því skilyrði, að ríkið eignist meiri hluta í Flugfélagi Íslands, því að hér er um tvö mál að ræða, sem ekki eiga heima hvort með öðru, og brtt. á þskj. 166 er því í raun og veru fyrir utan þann ramma, sem þáltill. á þskj. 64 er í.

Ég hygg, að það verði ekki um það deilt, að ríkið eigi að kosta alla flugvelli í landinu að öllu leyti, því að þeir eru eins konar þjóðvegir, sem allar flugvélar eiga svo að hafa rétt til að nota, hvort sem þær eru í eigu ríkisins, félaga eða einstakra manna. Ég geri ráð fyrir því, að það yrði aldrei samþ. af ríkisstj., að flugfélagið færi allt í einu að byggja flugvelli, er það ætti síðan sjálft og hefði umráðarétt yfir.

Þá vil ég og leyfa mér að benda á, að flugfélagið mundi mótmæla því, að með l. ætti að skylda það til þess að halda áfram starfsemi sinni með því fyrirkomulagi, að ríkisstj. ætti að hafa meiri hluta í öllum þeim málum, er félagið þyrfti að ráða fram úr. Það mundi kosta það, að flugfélagið leysti upp félagsstarfsemi sína heldur en að þurfa að beygja sig undir ákvæði í l. um, að ríkisstjórnin hefði meiri hluta um öll félagsmál þess.

Hlutafé flugfélagsins er nú 450 þús. kr. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa 30 þús., síldarútvegsnefnd 15 þús., höfnin 25 þús. og bærinn 20 þús. Þetta fé, sem síldarútvegurinn leggur fram, er lagt fram vegna þess, að viðurkennd er þörfin fyrir flugvélar í síldarleit. En af þessu sést, að hið opinbera hefur ekki nema 65 þús. kr. hlutafé af 450 þús. kr., því að Rvíkurhöfn getur tæplega talizt opinber aðili.

Stjórn flugfélagsins hefur bent á, að það sé skoðun hennar, að flugstarfsemin í landinu geti ekki verið rekin af ríkinu, eins og þessari starfsemi sé nú háttað, þar sem mörg fyrirhöfnin sé látin í té af áhugamönnum fyrir flugmálunum, án þess að þeir séu að gera sér vonir um nokkurn ágóða í aðra hönd. En ef ríkið tæki að svo komnu máli þessa starfsemi í sínar hendur, mundi löngun áhugamannanna þverra til þess að vinna á sama hátt hið óeigingjarna starf í þágu þessara mála, sem í raun og veru væri nauðsynlegt, að héldist áfram, á meðan flugmálin væru á þessu þroskaskeiði, sem þau nú eru í landinu.

Að þessu athuguðu tel ég það vera mjög vanhugsað af flm. brtt. á þskj. 166 að vera að bera fram þessa breyt. og óviturlegt og með öllu óþarft að vera að reyna að fá breyt. þessa inn í þál., því að það yrði einungis til þess að spilla fyrir málinu. Afleiðingin mundi verða sú, að Flugfélagið mundi leysa upp félagsskap sinn og velta öllu málinu yfir á ríkið. Ríkið mundi svo ekki hafa tök á því að halda eins vel á þessum málum og hinir óeigingjörnu áhugamenn, og mikið af starfi þeirra mundi fara forgörðum. Það verður því að vænta þess, að hv. Alþ. felli brtt. á þskj. 166, en samþykki brtt. á þskj. 153, svo framarlega sem hv. þm. hyggja, að flugmál séu nokkurs virði fyrir land og þjóð.