13.01.1943
Efri deild: 30. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (3407)

84. mál, menntamálaráð Íslands

Flm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Hv. deild hefur nú heyrt þessa merkilegu ræðu hv. þm. S.–Þ. Vil ég nú spyrja hv. dm., hvort þeim virðist hv. þm. hafa haft þau orð um listamenn, að þeir álíti hann hæfan til þess að fara með málefni listamanna og fjárveitingar í sambandi við þau, og hvort ekki muni tími til kominn að taka upp aðra stefnu í þeim málum.

Ég mun ekki elta ólar við einstök atriði í ræðu hv. þm. S.-Þ., heldur snúa mér að því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni. Hann talaði á þeim grundvelli, að sjálfsagt er, að ég svari honum. Hann vildi kryfja mig svars um það., á hvaða grundvelli frv. væri flutt, og taldi það hafa komið fram í ræðu minni, að ég áliti listamenn eiga hafa vit á listaverkum og Alþingi ætti ekki að skipta sér af málum þeirra. En þetta er hinn mesti misskilningur. Ég ætla ekki að ræða þetta frekar. En ég tel, að listamennirnir séu starfsmenn þjóðfélagsins eins og aðrir þegnar og Alþingi beri að styðja þá á þeim grundvelli. Grundvöllur frv. er sá, að ég álít, að samvinna eigi að vera á milli listamannanna og þess aðila, sem fer með úthlutun á styrk þeim, sem Alþingi veitir til lista í landinu, það er að segja menntamálaráðs. Ég leitaðist við að færa rök að nauðsyn þess, að listalnenn hefðu fulltrúa í hópi þeirra manna, sem úthluta styrknum. Þar koma fram mörg sjónarmið. Ég kannast ekki við að hafa sagt annað í framsöguræðunni en það, sem stendur í grg. Ekkert er eðlilegra en listamenn hafi meiri íhlutun um þessi mál en verið hefur. Mundi þá mörgu, sem aflaga fer, vera kippt í lag.

Ég hef leitazt við að sýna fram á, að ekki væri óeðlilegt, að listamenn hefðu áhrif á val þeirra listaverka, sem ríkið kaupir. Um það ættu fulltrúar, kosnir af listamönnum, að fjalla, því að menntamálaráð er að dómi margra ófært til þess.

Hv. þm. S.-Þ. heldur, ef fjórum mönnum væri bætt við í menntamálaráð, væri kommúnistum tryggður meiri hluti í því. Þykir mér hann hafa unnið vel, ef hann hefur snúið svo mörgum til kommúnisma.

Þá sagði þm., að Rússar leyfðu listamönnum ekki að hafa áhrif í þessum efnum, en það er ekki rétt.

Hv. þm. S.-Þ. viðurkennir réttilega, að eigi beri að veita styrki eftir pólitískum sjónarmiðum. Vil ég þá víkja að reikningum menntamálaráðs. Hv. þm. S.-Þ. sagði, að engin rökstudd aðfinnsla hefði komið fram um störf þess. En sá grunur hefur ríkt, að ekki væri allt með felldu með reikninga þess. Bendi ég í því sambandi á Vísi 24. marz 1942. Ég hef borið fram till. þess efnis, að rannsókn á fjárreiðum menntamálaráðs væri nauðsynleg sem fyrst. Og þá mun ekki nægilegt að sjá reikningana eins og þeir eru, heldur væri æskilegt að fá meiri sundurliðun á þeim og einnig fundargerðir menntamálaráðs. Og ég sagði í gær, að ástæðan til þess, að þessi þáltill. er borin fram, væri m.a. sú, að það þyrfti að rannsaka fjárreiður menntamálaráðs.

Hver getur verið ástæðan fyrir því, að menningarsjóður getur gefið út bækur nú fyrir 10 kr. ársúfgáfuna alveg eins og fyrir 10 árum? Hver borgar bækur menningarsjóðs, og hvar eru reikningarnir yfir þá bókaútgáfu? Að bókaútgáfa menningarsjóðs geti borið sig með þessu móti, kemur ekki til nokkurra mála.

Eins og ég tók fram í byrjun, dettur mér ekki í hug að fara að svara hv. þm. S.-Þ. orði til orðs, það væri að gera sig að fífli hér frammi fyrir hv. d. En einstökum atriðum vil ég þó víkja að.

Hv. þm. S.-Þ. var að hæla menntamálaráði fyrir það, að það hefði fyrst munað eftir ákveðnum listamönnum, sem Alþ., allan þann tíma, sem það veitti listamönnum fé, hefði ekki munað eftir. Hann nefndi þar til Gunnar Gunnarsson og sagði, að Alþ. hefði aldrei dottið í hug að veita honum styrk, enginn þm. hefði munað eftir honum. Hafði þá ekki hv. þm. S.-Þ. setið á þingi árum saman? Hvers vegna bar hann ekki fram till. um það þá, að þessum manni yrði veittur styrkur frá Alþ.? Og svo er annað í þessu sambandi. Ég hef ástæðu til að halda, að það séu til menn hér í hv. d., sem hafi fengið hótanir frá hv. þm. S.-Þ., ef þeir hafi ætlað að fara að bera fram till. um það, að Gunnari Gunnarssyni væri veittur styrkur frá Alþ., og það oftar en einu sinni, og þessi hv. þm. hafi haft í þessu sambandi hrakleg ummæli um Gunnar Gunnarsson. — Þá vildi hann enn fremur reyna að taka Kjarval upp á sína arma og vildi, að mér skildist, reyna að koma því að, að allir Íslendingar væru á móti Kjarval, nema hv. þm. S.-Þ., og veik hann að því, að menntamálaráð hefði munað eftir Kjarval og veitt honum styrk. Um þetta má hið sama segja: Hvers vegna hefur hv. þm. S.-Þ. aldrei fyrr á þingi borið fram till. um að veita honum styrk? Og hv. þm. S.-Þ. þarf ekki að koma með aðdróttun gegn mér og félögum mínum út af því, að við höfum verið með árásir á Kjarval. Ég veit ekki betur en Mál og menning hafi gefið út myndir Kjarvals með mjög lofsamlegum formála eftir einn af mönnunum í stjórn Máls og menningar og það áður en menntamálaráð fór að veita honum styrki. Og hv. þm. S.-Þ. fór aftur og aftur að vitna í dóm, sem ég hefði skrifað um Kjarval, og sagði, að þessi dómur væri í Helgafelli, sem er misskilningur hjá hv. þm. Ég held, að ég þurfi ekki öðru því að svara en vísa hv. þm. S.-Þ. á tímarit Máls og menningar, 2. hefti frá 1942, þar sem þessi ritdómur er, sem hv. þm. á sennilega við, og ef menn geta fundið þar ásakanir á Kjarval, held ég, að ákaflega einkennilega sé lesið. Ég skal. lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, nokkrar línur úr þessari umsögn um verk Kjarvals:

„Í hamförum sínum hefur Kjarval ekki alltaf gætt þess að vanda sig. Það er jafnviðurkennt og hitt, að hann sé meistari og snillingur, þegar honum tekst upp, og allar bera myndir hans á einhvern hátt vitni snilligáfu hans.“

Ég veit ekki, hvað hægt er meira um listamann að segja en segja, að hann sé meistari og snillingur.

Hv. þm. S.-Þ. var að kvarta undan því, að ég hefði ekki svarað því, hvers vegna þessi málsmeðferð hefði verið höfð eins og hún kemur fram í frv. Hv. þm. S.-Þ. finnst hún óeðlileg og mæla á móti l. og reglum Alþingis, að í viðbót við þá 5 menn, sem í menntamálaráði eru, komi 4 menn frá bandalaginu. Og hann kallar þetta nýmæli. Ég hélt, að hv. þm. S.-Þ. hefði setið svo lengi á Alþ. og þekkti svo vel vinnubrögð þar, að hann færi ekki að fleipra með svona fjarstæðu. Og hann taldi það meira að segja árás á Alþ., að auk þess sem þessir 5 menn í ráðið væru kosnir af Alþ., væru 4 menn í því frá listamönnum. Er ekki fjöldi n., þar sem Alþýðusamband Íslands, Búnaðarfélag Íslands, Landssamband iðnaðarmanna og annar félagsskapur eða stofnanir hafa sína fulltrúa? Eða hvað skal segja um verðlagsn., t.d.? — Ég hélt, að hv. þm. færi ekki að bera þetta á borð fyrir þingið.

Ég skal aðeins taka nokkur atriði enn þá, ég aðeins þau atriði, þar sem mér fannst hv. þm. S.-Þ. ganga svo langt, að ég get ekki leitt hjá mér að vekja athygli hv. d. á því. Hann hafði m.a. þau ummæli um Tómas Guðmundsson, eitt af okkar allra beztu skáldum, að hann segði í Helgafelli ýmislegt, sem vari á móti hans innra manni, og gaf í skyn, að hann væri keyptur til þess að skrifa í Helgafell. Ég vil aðeins benda á slík ummæli sem þessi. Þá er skrítið að heyra annað, sem þessi hv. þm. sagði í sambandi við Tómas. Hann fáraðist yfir því, að hann hefur sagt í útvarpinu, að hv. þm. sagði, að andagift væri ekki til í skáldskap. Þótti þar hv. þm. S.-Þ. langt gengið og benti á Matthías Jochumsson. Þetta kemur mjög illa heim við það, sem hv. þm. S.- Þ. hefur mjög nýlega sagt sjálfur. Hann segir t.d. í þeirri grein, sem var svo sérstaklega merkileg, að hún þótti hæf til þess að henni yrði brennt:

„Á hinum nýafstaðna fundi bandalagsins bættu svo nokkrir af fyrirferðarmestu sögusmiðum félagsins við skýringum á vinnubrögðum sínum, en bar þó ekki að öllu leyti saman. Þeir sögðust ekki vita sjálfir, hvað þeir skrifuðu. „Sigurvagnar“ úr heimi andans flyttu þeim efnið í bækur þeirra. Þessi skáld eru því aðeins miðlar, algerlega þýðingarlausir um efni og form. Tveir af fundarmönnum lýstu þessari miðilsstarfsemi. Annar þeirra sagðist lifa í óumræðilegu sæluástandi meðan hann tæki á móti boðum andans. Hinn sagði, að móttakan væri hryllilegt þjáningarlíf og varaði unga menn við að feta í fótspor sín. Með kenningunni um miðilsstarf skáldanna eru þau gerð ábyrgðarlaus, enda mun sá vera tilgangurinn. Á þennan hátt getur „skáldið“ sagt og gert hvað sem vera skal á ábyrgð „andans“.“ (Tíminn, 5. des. 1942, sem brennt var.)

Þarna er hv. þm. S.-Þ. í dálítilli mótsögn við sjálfan sig.

Þessi ummæli um Tómas Guðmundsson, að hann skrifaði á móti sinum betra manni, tel ég mjög ósæmandi.

Hv. þm. S.-Þ. var á mjög ósæmandi hátt, að ég tel, að tala um tvo málara, annars vegar Kjarval, til að slá sér upp á því, en hins vegar Nínu Tryggvadóttur, sem í fyrsta sinn hélt sýningu á málverkum í haust s.l. Talaði hv. þm. um þessa listamenn sem andstæður, annars vegar Kjarval, sem dæmi um það, hvernig listamenn ættu að vera, og hins vegar Nínu Tryggvadóttur, sem dæmi málara, sem skapaði verk, sem enginn vildi kaupa og væru í alla staði lítils virði. Og hv. þm. gerði mikið úr sölu þeirri, sem Kjarval hefði haft, og sagði, að Nína hefði getað aðeins selt tvær myndir á sýningunni. Að taka unga listakonu, sem í öllum dagblöðum bæjarins var talin hin efnilegasta, þannig fyrir hér á Alþ. og auk þess ljúga því hér upp, (forseti hringir) að hún hafi aðeins selt tvær myndir, þegar hún seldi fjórtán, sem má víst telja mjög góða sölu, það er barbarismi á lægsta stigi — og í alla staði siðlaust og níðingslegt og ósæmandi að haga sér þannig. Mér hefur áreiðanlega verið gefið tilefni til að hafa svona stór orð um þetta. Þetta er andstyggð og smán. að slík ummæli skuli heyrast af vörum manns, sem er í menntamálaráði, svo að hver hv. þm. blygðast sín fyrir að þurfa að hlusta á annað eins hér í þingsölum.