03.03.1943
Neðri deild: 70. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3462)

137. mál, verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur og afkoma iðnfyrirtækja

Sveinbjörn Högnason:

Í raun og veru er það athyglisverð saga, sem hér er á ferð. Hv. þm. Hafnf. (EmJ) lýsti með mjög átakanlegum orðum, að nokkur iðnfyrirtæki sjái fram á stöðvun rekstrar, ef sama verður dýrtíð og verðlag í landinu. Hann sagði, að þau gætu fengið full hús af vörum erlendis frá fyrir sama verð og vörurnar yrðu óunnar heima. Þar af leiðandi yrðu fyrirtækin ekki samkeppnisfær, og mundi þetta fyrirbrigði einstakt í atvinnusögu okkar. En ég er ekki sammála, ég held, að þetta sé ein af spegilmyndunum af atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar, eins og komið er. Dýrtíðin er orðin þannig; að hún á engan sinn líka í veröldinni, kaupgjald og verðlag er þannig, að óhugsandi er, að við verðum samkeppnisfærir á nokkru sviði við erlenda framleiðslu að stríðinu loknu. Þetta dæmi um ullina er bara eitt dæmi af okkar daglegu fjármálum og atvinnumálum nú. Það er ósköp eðlilegt, að nokkru dýrara sé orðið að framleiða hráefni hjá okkur heldur en erlendur markaður gefur fyrir þau, því að hvar í veröldinni ætli bændur þurfi að greiða annað eins kaupgjald við framleiðslu á ull, kjöti, gærum og mjólk eins og á Íslandi. Allar aðrar þjóðir hafa reynt að halda í skefjum dýrtíðarflóðinu — kaupgjaldi og verðlagi, og við vitum vel, að erlendar vörur ern tiltölulega ódýrar, móts við allt, sem innlent er. Hér heima hefur allt flætt yfir og ekki verið hægt að koma neinum ráðstöfunum fram. Þess vegna held ég, að ummæli hv. þm. Hafnf. um, að þessi fyrirtæki séu dauðadæmd, ef þessu heldur áfram, sé sá rétti dómur yfir atvinnulífinu í landinu. Það er dauðadæmt, ef normal tímar koma aftur. Hitt er annað mál, að það er ekl:i rétt hjá honum, að sérstaklega hátt verð sé á landbúnaðarafurðum, sem skapi þetta ástand. Ég hygg, að aðrir hafi verið aðgangsfrekari um það, en bændastétt Íslands hafi staðið um það að stöðva dýrtíðarflóðið, sem hefur verið veitt yfir landið á svo skefjalausan hátt sem allir þekkja. Ég hygg, að frá bændastéttinni hafi komið eina heilbrigða viðleitnin æ ofan í æ til dýrtíðarstöðvunar, þó að ekki hafi tekizt, þar eð aðrar stéttir hafa viljað láta flóðið halda áfram. Þess vegna er það fullkominn sleggjudómur að segja, að það séu landbúnaðarvörurnar, sem þessu hafi valdið. Það væri lítil jafnaðarhugsun, ef ætti að halda vísitölunni niðri á kostnað einhvers eins aðila, t.d. bændanna. Fólk hefði þá stöðugt streymt frá því að framleiða landbúnaðarafurðir og í aðrar starfsgreinar, þar sem það hefði haft langtum meira. Þetta vildi ég aðeins benda á, til þess að mönnum ætti að vera ljóst í sambandi við það dæmi, sem hv. þm. dró upp, hvar við erum á vegi staddir. Hinu hef ég vitanlega ekkert á móti, að dagskrármál þetta sé rannsakað ofan í kjölinn. En þá er sjálfsagt um leið að rannsaka fjárhagsástæður og verðlag hjá þessum iðnfyrirtækjum, áður en farið er að styrkja þau á sérstakan hátt.