26.01.1943
Efri deild: 41. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (3506)

121. mál, hæstaréttur

Magnús Jónsson:

Það er hægt að segja um þetta frv., að það sé radikalt. Það eru 3 meginatriði, sem farið er fram á, að breytt sé. Í fyrsta lagi er það fjölgun dómaranna. Í öðru lagi hækkun grunnlauna, sem gert er ráð fyrir, að verði miklu, miklu hærri heldur en yfirleitt gerist hjá öðrum embættismönnum, að ráðherrum undanteknum. Í þriðja lagi er lagt til að undanþiggja hæstaréttardómara skatti og þar með hækka laun þeirra óbeinlínis.

Ég vil segja það um fyrsta atriðið, að ég skal ekki gera mig neitt breiðan sem kunnáttumann í því efni, en ég held, að það hafi ekki komið að sök, að hæstiréttur er skipaður eins og hann er. Ég hef orðið var við, að dómar hæstaréttar hafa verið taldir viturlegir, þótt dómarar væru ekki nema 3; og þó að segja megi, að 5 viti meira en 3 og 7 meira en 5 og 15 meira en 7, er vitað, að hæstiréttur hefur sýnt mestu hæfni í störfum sínum, þannig að ekki skaðar, þó að þeir séu ekki fleiri. Það er gert ráð fyrir, að dómarar geti orðið 5, og hægt að taka ákvörðun um það þegar vill að fjölga þeim. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Str. sagði, að það er ekki vert að gera þetta á tímum, þegar verið er að draga saman seglin og fólk er farið að sjá, að ekki er lengur hægt að sletta skyrinu í allar áttir.

Út af launaupphæðinni sjálfri og skattfrelsinu vil ég taka algerlega undir það, sem hv. 8. landsk. sagði um það, og þarf þar eiginlega engu við að bæta. Það er enginn vafi á því, að launakjör eru yfirleitt í miklu ósamræmi, og það ósamræmi verður enn meira, þegar á að losa dómarana við að greiða skatta, en aðrir embættismenn hafa orðið að afla sér tekna á annan hátt, og það er ástand, sem ekki á að eiga sér stað. Ég mun þó ekki fara út í þetta. Hv. 8. landsk. gerði það. Ég vil aðeins út af því, sem kom fram hjá hv. þm. Barð., segja það, að það, að menn sækja um embættin, er ekki nægileg röksemd fyrir því, að launakjörin séu góð. Það er fleira en launakjörin, sem kemur til greina, a.m.k. veit ég um menn, sem hafa sótt það fast að komast í þessar stöður. Sumir treysta ef til vill á aukastörfin, aðrir sækja um á krepputímum, þegar minni tekjur er að hafa við önnur störf, en þetta er enginn mælikvarði á launakjörin. Það er eitt atriði, sem ég vildi bæta hér við og gerir þetta frumvarp varhugavert í mínum augum, og það er það ósamræmi, sem kemur í launakjörin, ef það verður samþykkt. Því verður ekki móti mælt, að það er ósamræmi í því, að hæstaréttardómarar hafi 15 þús. kr. og dómforsetinn 17 þús., en aðrir embættismenn 6 þús. kr. á ári. Þó að ríkisvaldið hafi þurft að grípa inn í með uppbætur og grunnkaupshækkanir, er það þó víst, að hjá flestum er ekki víst um nema 4500 til 6000 kr. árslaun, svo að það er ekkert samræmi í því, að þeir hafi svo 15000. Ég vil taka sem skemmtilegt dæmi prófessora í lagadeild háskólans, sem koma þar inn sem hæstaréttardómarar. Þeir sitja þar í 45 00.00 upp í kr. 6000 eftir launalögum, þó að þeir fái einhverjar uppbætur, sem nái því að þeir hafi 8000 kr., eru þeir þó ekki hálfdrættingar á við dómarana, hvað þá dómsforsetann, og náttúrlega ekkert líkt því, ef þeir eiga að vera skattfrjálsir. Ég vil bera hæstaréttardómarana saman við aðra embættismenn landsins eins og landlækni og biskup landsins, sem ekki eiga þess kost að bæta laun sín á nokkurn hátt. Ekki getur biskup landsins verið úti um hvippinn og hvappinn til þess að endurskoða reikninga. Hann er útilokaður frá því að bæta fyrir sér á sama hátt og t.d. hæstaréttardómarar, sem geta tekið að sér störf, sem eru eðlislík þeirra aðalstarfi. Ég held því, að það sé fullkomið ósamræmi í því að taka þessa menn út úr og hækka laun þeirra.

Hv. þm. Str. minntist á sýslumenn og bæjarfógeta sem hliðstæða. Þó að það sé ekki alveg, er líklegt, að hér rísi upp samanburður bæði frá þeim, sem hliðstæðir eru og ekki, svo að ég tek þetta frv., sem ég get vel gefið atkv. mitt til 2. umr., sem vitnisburð um það, hvað þetta launamál er knýjandi.

Má segja um ráðherralaunin, að þau séu óvirðing fyrir þjóðfélagið. En þetta stafar af því, að enginn vill í rauninni beita sér fyrir því, að þau verði hækkuð. Ég hef oft átt sæti í fjhn., og mér er kunnugt um, að n. hefur oftar en einu sinni loðið ráðh. að bera fram till. um hækkun launanna, því að mörgum hefur þótt beinlínis skömm að því, að ríkið skuli ekki borga þessum mönnum meira en helming eða þriðjung af því, sem það borgar forstjórum, sérstaklega þegan þess er gætt, að þeir eiga örðugra með að hafa aukastörf en flestir aðrir. En það hefur þótt svo ódemókratískt, að ráðherralaun væru hækkuð að mun, og útkoman hefur orðið sú, að varla hafa aðrir getað verið í þessum embættum en þeir, sem talizt gátu svo fjáðir, að þeir gætu kostað sig sjálfir. Þá finnst mér, að ekki væri síður ástæða til að undanþiggja ráðh. skyldu til að greiða tekjuskatt og útsvar en hæstaréttardómara.