01.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (3695)

149. mál, síldarbræðsluverksmiðjan Ægir í Krossanesi

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. — Till. sú til þál., sem ég er flm. að á þskj. 501 ásamt hv. þm. Eyf., er borin fram að beiðni hreppsnefndar Glæsibæjarhrepps og verkamannafélags hreppsins. Bréf hreppsnefndarinnar hefur verið fellt inn í grg. fyrir till. á þskj. 501. Það, sem fyrst og fremst vakir fyrir þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, eru hagsmunir verkamanna, sem þarna hafa atvinnulegra hagsmuna að gæta, og hins vegar hreppsins í heild. Eins og tekið er fram í þessu bréfi, þá hefur Glerárþorp, en í því eru um 400 íbúar nú, að verulegu leyti byggzt upp kringum þessa verksmiðju, og afkoma þessa fólks hefur að miklu leyti byggzt á þeim atvinnurekstri. Þess vegna leiðir það af sjálfu sér, þegar þessi verksmiðja er ekki starfrækt, þá er atvinnuvegur og afkoma þessa fólks í voða. Það, sem bjargað hefur þessu fólki þau tvö ár, sem verksmiðjan hefur ekki starfað, er hin óvenjulega vinna á vegum setuliðsins. Það má búast við, að það muni draga úr setuliðsvinnu á næsta sumri og þess vegna sé nú sérstök nauðsyn á að gera ráðstafanir til, að verksmiðjan verði starfrækt á komandi sumri, til þess að verkamenn í Glerárþorpi verði ekki atvinnulausir og afkomu heimila þeirra stofnað í voða.

Ég álít það fullkomna ástæðu fyrir Alþ. að taka tillit til hagsmuna verkamannanna og hreppsins með því að gera það, sem hér er farið fram á. Þar fyrir utan hefur starfræksla verksmiðjunnar almenna þýðingu. Eins og viðurkennt hefur verið af Alþ. með þeim samþykktum, sem þegar hafa verið gerðar um stórfelldar stækkanir á síldarverksmiðjum ríkisins, eru þær verksmiðjur, sem til eru, allt of litlar til þess að taka við aflanum og koma honum í markaðshæfa vöru. Þess vegna hlýtur það að vera til hagsbóta almennt, að þau tæki, sem til eru, séu notuð, meðan ekki eru fyrir hendi skilyrði til þess að stækka síldarbræðslustöðvar ríkisins. Þetta hefur þá líka almenna þýðingu, auk þess sem það hefur þýðingu fyrir sjálft verkafólkið og fyrir Glæsibæjarhrepp.

Það er gert að aðalatriði í till., að verksmiðjan sé starfrækt, og lagt til, að ríkið taki hana á leigu. Að hinu leyti álít ég, að heppilegasta og endanlega lausnin á þessu máli hljóti að vera sú, að ríkið eignist þessa verksmiðju. Ég hygg, að hún verði ekki starfrækt, nema hún komist í eigu ríkisins eða það leigi hana og sjái um rekstur hennar. Mér er líka kunnugt um, að það er vaknaður áhugi í stjórn S. R., að ríkið eignist hana. Mér barst það til eyrna, eftir að þessi till. var komin á framfæri hér í þinginu. Ég held ég fari rétt með, að það sé einróma álit stjórnarinnar, að það eigi að kaupa verksmiðjuna. Mér er kunnugt um, að hæstv. atvmrh. var að reyna að komast að samkomulagi um kaup á henni. Þetta mál hefur beðið vegna þess, að hæstv. atvmrh. óskaði, að ekkert væri gert í því, meðan á samningaumleitunum stæði. Nú hefur hann tjáð mér, að úrslitin séu svo óviss, að hann vildi ekki, að þetta stæði lengur í vegi fyrir því, að þetta mál næði fram að ganga. Ég held ég megi segja, að hann sé með þessu, með það fyrir augum, að verksmiðjan verði starfrækt á næsta sumri. Ég vænti því, að Alþ. taki vel undir þetta og samþykki till. og á grundvelli hennar verði svo gerðar ráðstafanir, sem tryggi rekstur verksmiðjunnar á þessu ári.

Ég vildi óska, að hægt væri að hraða afgreiðslu málsins sem mest. Ég held varla, að það geti valdið miklum ágreiningi eða það sé áhætta fyrir ríkið, þó að það leigi verksmiðjuna. Vegna þess dráttar, sem þegar er orðinn á þessu máli, þá væri æskilegast, að það þyrfti ekki að fara til n. milli umræðna. Ég vil þó ekki leggja kapp á það, ef það þykir nauðsynlegt, en vildi aðeims óska, að málinu yrði hraðað sem mest.