02.04.1943
Sameinað þing: 37. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (3762)

104. mál, aukauppbót á styrki til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna

Frsm. minni hl. (Þóroddur Guðmundsson):

Herra forseti. — Það eru aðeins örfá orð, sem ég hef í hyggju að segja með nál. minni hl. fjvn.

Þegar þetta mál var rætt í fjvn., kom í ljós hjá nm., að þeim var umhugað um að gera vel við listamenn, og leit út fyrir, að það yrði samþ. í n., að þeir yrðu þessarar uppbótar aðnjótandi. Mun það hafa orsakazt af leiðinlegum misskilningi, þeim, að ekki hafi verið greidd aukauppbótin á þá styrki, er veittir eru skv. 18. gr., þó að það væri fullyrt í grg. þáltill. Það var ekki spurzt fyrir um þetta á n.-fundum, en nú hefur fjmrn. upplýst, eins og stendur í nál. minni hl., hið sanna í þessu máli, að það hafi á s.l. ári verið greidd aukauppbótin á styrki samkvæmt 18. gr. fjárl.

Ef ekki hefði á sínum tíma verið horfið að því ráði að fela Menntamálaráði úthlutun þessara styrkja og taka þá af 18, gr., þá hefði enginn efi verið uppi um það, að aukauppbótin hefði átt að koma á styrkina. Þegar svo við þetta bætist, að sú upphæð, sem á fjárl. yfirstandandi árs er ákveðin í styrki til listamanna þjóðarinnar, er lægri en árið 1939 og tekjur ársins voru þá 19.9 millj. kr., en nú nærfellt 90 millj. kr., þá mælir engin sanngirni með því að ætla sér að meina listamönnunum þessa aukauppbót.

Ég er ekki að draga í efa, að einn og einn listamaður hafi selt mikið af listaverkum sínum, en það á ekki á nokkurn hátt að draga úr vilja Alþ. til þess að sýna þeim þá viðurkenningu, sem þeir eiga skilið, og hjálpa þeim áfram á listabrautinni, það ætti að vera þeim uppörvun og veita þeim brautargengi.

Það er fullyrt í nál. meiri hl., að mjög margir af skáldum, rithöfundum, listamönnum og fræðimönnum, er nú njóta styrks, hafi áður verið á 15. gr. og ekki notið þar dýrtíðaruppbótar, — þá er mjög hæpið að taka svo til orða í þessu sambandi og gæti verið algerlega misskilið, ef tekið væri bókstaflega, því að þessir menn, sem hafðir eru í huga, voru færðir af 15. gr. og á 13. gr., svo að þeir hefðu staðið þar nú að óbreyttu.

Að lokum vil ég skora á þm. að samþykkja þáltill. eins og hún liggur fyrir, því að öll sanngirni mælir með því, að það verði gert.