06.04.1943
Sameinað þing: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3791)

161. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Dálítið kemur mér það kynlega fyrir sjónir, að hv. þm. Ísaf. skuli flytja brtt. þess efnis, að lögum skuli ekki vera hlýtt í landinu. Það mun vera alveg einstakt, að lögð sé fyrir Alþ. till. um að hlýða ekki lögunum, en það er það, sem hann leggur til. Það, sem hér liggur fyrir, er að ákveða verð á síldarmjöli eftir gildandi landslögum. Það er það, sem á að gera, en það má ekki. Og það er minnt á þetta, af því að síðast liðið sumar var það ekki gert:

Nú skal ég viðurkenna, að 12. gr. l., sem hér ræðir um, er ákaflega óljós og erfitt að finna, hvaða verð það er, sem stj. skal ákveða, en hún skal ákveða það, og það er ekkert sagt um það, hvort hún skuli miða við kostnaðarverðið eða framleiðsluverðið eða hvort tveggja. Hún á að fá till. og ákveða verðið svo, en það má ekki eftir till. hv. þm. Ísaf. Ég geri ráð fyrir, að for seti finni, að það er ekki viðurkvæmilegt að bera upp á þingi till. um það, að l. skuli ekki vera hlýtt og hann hljóti að vísa till. frá, og ég bið um úrskurð um það, hvort till. á að koma fram og hvort það er siðferðislega rétt að leiða þm. í þá freistni að skora á þá að hlýða ekki lögunum.

Nú hefur ekki verið deilt um það þangað til í fyrrasumar, hvert verðið ætti að vera, að deila reis um það milli ríkisstj. og verksmiðjustj., og verðið verið ákveðið eitthvað lægra en útflutningsverðið hefur verið, og þetta hefur verið gert í tvennu augnamiði, að því er mér skilst, burtséð frá því, að það væri aðstoð við landbúnaðinn. Í fyrsta lagi af því, að síldarverksmiðjurnar voru settar upp af alþjóð, — útgerðarmenn höfðu ekki mannskap í sér til að koma þeim upp, — öll þjóðin varð að setja þær upp, og í öðru lagi til þess að ýta undir það, að bændur birgðu sig upp með fóður handa skepnum sinum til vetrarins á þessum tíma árs. Í till., sem hér liggur fyrir, er ekki með einu orði víkið að því, hvert verðið á að vera, heldur eins og l. gera ráð fyrir, að stj. ákveði verðið í samráði við stjórn ríkisverksmiðjanna, og hvort sekkurinn verður þá 5 kr. hærri í verði eða 5 kr. lægri, skal ég ekki um segja, en ég treysti þeirri stj., sem fer með völdin, til þess að ákveða það, og trúi því ekki fyrr en ég tek á, að þingið hafi ekki meiri siðferðisþroska en það, að það skori á menn að hlýða ekki l. Það mundi vera alveg einstakt.