12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (3871)

178. mál, útgáfa á Njálssögu

Flm. (HelgJ):

Ég er nú svo oft í dag búinn að gefa skilgreiningu á því, sem þessi hv. þm., sem síðast talaði, skilur ekki, að mér er stafsetningin ekkert aðalatriði í þessu sambandi. Ég sagði, að það væri smekkurinn, sem réði mestu um það, hvaða stafsetning væri notuð á hverjum síma. En ég lagði áherzlu á, að ekki væri brenglað efni fornsagnanna með því að fella úr orð og skipta um orð og nota önnur orð og orðasambönd. Það var það, sem ég vitti. (SigfS: Það má þá gefa Njálu út með nútímastafsetningu?) Það hefur aldrei verið nein deila um það, heldur um hitt, hvort eigi að breyta um orðaröð og sleppa úr sögunum.

Ég er líka búinn að gefa skýringar á því áður í dag, að fornritaútgáfan væri hávísindalegt starf og að nauðsynlegt væri í því starfi að ná sem flestu, sem hægt er að ná í þeim hlutum. Og til þess þarf að hafa öll þau handrit við höndina af Njálu, sem hægt er, því að það eru til mörg handrit af Njálu. En ég ræð því ekki, hvaða handrit er notað. Ég á ekki að sjá um útgáfuna. En ég vil spyr ja: Hvaða handrit ætlar Halldór Kiljan Laxness að nota? (SigfS: Það veit ég ekki.) Hann vogar sér að gefa út Njálu, þó að vanti þetta handrit, sem hv. 8. þm. Reykv. (SigfS) var að tala um, að væri bezt og væri í Khöfn. (Raddir af þingbekkjum: Hvaða handrit á að nota? — Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að lofa hv. ræðumanni að tala í næði. — SigfS: Vill þá hv. þm. vera með till. um að gefa út Njálu með nútímastafsetningu?) Ég mun vera með þeirri till., ef hún kemur fram sjálfstæð. Ég er ekki á móti því að hafa þrjár útgáfur af Njálu. Ef hún verður borin upp sjálfstæð, þá mun ég verða með henni.