17.12.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (3896)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Til að gera ljósan aðdraganda þessa máls, er nauðsynlegt að renna augunum aftur í tímann.

Síðastliðinn vetur sáu menn fram á, ef allir þeir ynnu áfram hjá setuliðinu, sem þar höfðu unnið, að þá mundi óhjákvæmilega vanta fólk til framleiðslunnar í landinu á næsta sumri. Þetta leiddi til þess, að stj. tók að athuga að semja við setuliðið um takmörkun í vinnunni. Í samninganefnd voru til kvaddir Sigurjón Jónsson og Jón Árnason. Samkomulag um þetta var undir skrifað af stj. 1. maí. Ætlunin var, að verkamenn í setuliðsvinnunni væru komnir niður í 2000 í júní. Aftur á móti ætlaði ríkisstj. að skera niður allar óþarfar framkvæmdir, og með þessum tveimur ráðstöfunum var áætlað að losa um 1200 menn, sem áttu að geta farið yfir í framleiðslustörfin frá minna þörfum störfum.

Af einhverjum ástæðum, sem hér skal ekki greina, þá kom fækkunin í setuliðsvinnunni ekki til framkvæmda, og eins var haldið áfram með óþarfar innlendar framkvæmdir, svo sem að byggja kvikmyndahús og því um líkt. Og afleiðingin varð auðvitað sú, að þetta verkafólk kom aldrei inn í framleiðslustörfin og fólk vantaði bæði til sjós og lands. Síldarverksmiðjurnar gátu ekki starfað með fullum afköstum vegna fólkseklu, nokkrar þeirra stóðu allt sumarið. Þó biðu skip afgreiðslu, og er tapið við það talið í milljónum króna. Í sveitunum byrjaði sláttur seint og sums staðar mjög seint og var rekinn með miklu minni afköstum en áður vegna fólksfæðar. Þetta leiddi svo til þess, er túnasláttur var að verða búinn, að nú þurftu bændur að fara að panta fóðurmjöl. Þá fyrst tók samvizka stj. eitthvað að vakna.

Búnaðarfélagið tók málið upp seint í júlí og ritaði ríkisstj. 5. ágúst og áætlaði, að bændur mundu þurfa um 6500 tonn síldarmjöls, eða nokkru meira en áður hafði verið keypt, til þess að vera birgir með fóður í meðalvetri.

Um þetta var stj. svo skrifað, að ég held 5. ágúst. Daginn eftir bar stj. svo fram till. um, að bændum skyldi selt síldarmjölið við sama verði og í fyrra, eða á 32 kr. tunnuna. Í umræðum um þetta mál benti ég á, að bændur mundu þurfa um 10 þús. tonn af síldarmjöli og auk þess um 8 þús. tonn af erlendum fóðurbæti, sem þegar væru fest kaup á í Ameríku. Alþ. samþykkti síðan till. um áskorun til stj. að greiða fyrir innflutningi fóðurbætis í samræmi við þetta og að verð síldarmjölsins yrði 32 kr. frá verksmiðjunum til bænda.

Þetta lága verð á mjölinu til bænda var ákveðið með tilliti til þess, að reynt yrði með þessu að halda niðri framleiðslukostnaðinum, og var litið á þetta sem sams konar ráðstöfun í eðli sínu eins og verið hafði með sölu áburðar veturinn áður. En tiltölulega fljótt eftir að samþykkt till. þessarar var gerð, var horfið frá þeirri stefnu og verðlag hækkað mjög og síður en svo, að á móti því væri staðið af ríkisstj. Þess vegna var það, að verð síldarmjöls komst í allt annað hlutfallsverð við aðra hluti en verið hafði. M.ö.o., það borgaði sig fyrir bóndann að fara úr heyskapnum í daglaunavinnu og kaupa síldarmjöl fyrir laun sín, og þá auðvitað reiknað með því, að nóg yrði til af því. Það var því í sjálfu sér ekkert undarlegt, þótt sumir hyrfu að þessu ráði, ekki sízt þar sem stærsti bóndi landsins sló einnig yfir í annað og ýmsir aðrir, þar á meðal einn ráðh., hafa oft prédikað það m. a. hér á Alþingi, að menn ættu að vinna að því, sem bezt borgaði sig þá stundina, án þess að hugsa um framtíðina. Þess vegna unnu margir utan búa sinna, og aðrir fækkuðu fólki og hugðust kaupa síldarmjöl fyrir peningana. Og nú tók síldarmjölspöntunum að rigna yfir. Í byrjun september var búið að panta allt mjöl, sem til var í landinu, og 14. sept. var búið að panta meira en eftir var skilið, þegar síldarmjölið var selt úr landi. Þó var enn lítið gert til úrbóta, alveg eins og stj. vissi ekki, hverju fram fór.

Þá kom það fyrir, að kaupfélagsstjóri nokkur hringdi til stj. og sagði, að hann gæti ekki fengið 40 poka af mjöli hjá verksmiðjunum af þeirri einföldu ástæðu, að það væri ekki til. Þá var farið að athuga þetta mál fyrir alvöru af ríkisstj. Þá var farið að fá lista hjá verksmiðjunum um loforð, afgreiðslu og pantanir: Þessir listar báru með sér, að sum félög, verzlanir og einstaklingar höfðu fengið allar sínar pantanir afgreiddar þá þegar, en aðrir fengið litið, og enn aðrir höfðu ekkert fengið. Listarnir báru einnig með sér, að pantanir námu 3000 tonnum meira en hægt var að afgreiða, því að síldarmjölið var ekki til í landinu.

Þá sendi ríkisstj. stj. Búnaðarfélagsins bréf, þar sem spurt var um eftirfarandi:

Hvort hægt mundi að framkvæma skömmtun, hvort sumir mundu hafa fengið of mikið, þ.e. meira en þeir þyrftu, ef svo væri, þá hvort hægt mundi að láta þá skila því aftur. Enn fremur var frá því skýrt í bréfinu, að til væru í landinu 2500–3000 tonn af beinamjöli, sem nota mætti til fóðurbætis hjá þeim, er ekki gætu fengið síldarmjöl.

Búnaðarfélagið áleit þessa skömmtun útilokaða, þar sem sumir hefðu fengið allar sínar pantanir, en aðrir ekkert. Þá taldi það mjög miklum erfiðleikum bundið að rannsaka, hvort einhverjir hefðu fengið meira en þeir þyrftu. Einkum var það af þeirri ástæðu, að mikið af mjölinu hafði verið afhent úr verksmiðjunum í viss skip og báta, án þess nokkur vissi, hvert farið var með það eða hvar það átti að nota til fóðurs. Hins vegar taldi Búnaðarfélagið, að beinamjölið gæti verið talsverð úrbót og menn gætu nokkurn veginn fengið upp í pantanir sínar af því.

Um þetta skrifaði Búnaðarfélagið stj. 16. okt., en þá kom annað bréf frá stj. Þar kveður hún bæði beinamjölið minna og pantanir meiri en frá var greint í fyrra bréfinu. Jafnframt var Búnaðarfélaginu falið að úthluta beinamjölinu til þess að fullnægja þörfum manna. Þegar Búnaðarfélagið síðan fór að rannsaka þetta mál, þá voru aðeins til 500 tonn af þessu beinamjöli. Síðan hafa 200 tonn bætzt við. Þá eru bein til í 800–1000 tonn. Beinin í það, sem á vantar, eru enn í sjónum, og enginn veit, hvenær þau koma og verða að beinamjöli, nothæfu til fóðurs.

Þannig er þá málum háttað, að sumir bændur hafa fengið allt, sem þeir pöntuðu, allt að 50–60 poka, sem er venju fremur mikið af einstökum bónda. Aðrir hafa ekkert fengið, þó að þeir stæðu í þeirri trú, að þeir mundu fá allt, sem þeir pöntuðu, og höfðu gert ráð fyrir því, er þeir settu á fóður sitt.

Það er þó ekki beint hægt að álasa þeim, er pöntuðu mjölið fyrir bændurna, þó að það hati skipzt misjafnt milli manna, nema ef vera skyldi fyrir það að trúa stj., trúa því, að nóg mjöl væri til.

Samhliða þessu ástandi er á hitt að líta, að í ágúst í sumar voru gerð kaup á fóðurbæti í Ameríku og stj. falið að sjá um flutning á honum til landsins. Þetta hefur ekki verið betur framkvæmt en svo, að aðeins 2505 tonn af þeirri pöntun eru komin til landsins, en eftir eru 6275 tonn, sem enn eru í Ameríku. 300 tonn eru nú á leiðinni eða e.t.v. komin til landsins.

Nú er því svo komið, að hvorki er til erlendur fóðurbætir né síldarmjöl til að hlaupa upp á og ekkert er fyrir dyrum nema fjárfellir, ef veturinn verður mjög harður. Á hverju hausti hafa verið til 2–4000 tonn af síldarmjöli sem varaforði í landinu. Nú er ekki því til að dreifa. Ekkert hefur verið gert 'til þess að bæta úr þessu, ekki einu sinni verið fluttur inn sá fóðurbætir, sem búið er að kaupa í Ameríku. Við skyldum nú segja, að ís lokaði norður- og austurströndinni. Ætla ég þá, að fullerfitt yrði að koma fóðurbæti til þeirra landsfjórðunga, enda þótt hann væri til í landinu. Einnig mundi þá of seint að verið, ætti að fá hann frá Ameríku. Það fóðrar enginn búpening sinn á fóðurbæti, sem liggur vestur í Ameríku. Hann þarf að komast hingað heim og dreifast hér. Það, sem vakir fyrir mér í þessu máli, er að fá þegar ráðstafanir gerðar til þess, að fá fóðrið flutt til landsins. Það þarf nú þegar að flytja inn fóðurbæti, sem gæti verið varaforði, ef á þarf að halda síðari hluta vetrar.

Þá er líka ástæða til að athuga það, hvort ekki ætti að láta þá menn, sem ætluðu að kaupa síldarmjöl, en fengu það ekki og þurftu svo að kaupa maísmjöl á 80 kr. pokann, fá uppbót úr ríkissjóði, svo að þeir ekki verði fyrir óréttlátum útgjöldum móts við hina, er síldarmjölið fengu. Hve mikið fé kann hér að vera um að ræða, er ég ekki fær um að leggja dóm á. Ég ætla, að það þurfi að athuga og ákveða svo, hvort gerlegt er að greiða þeim bændum uppbót, sem þannig urðu fyrir óréttmætum kostnaði. Mér er ljóst, ef ekki er gert eitthvað í þessa átt, að þá muni þeir telja sig hafða út undan, þar sem ríkissjóður hleypur undir bagga, svo að bændur geti fengið síldarmjöl lágu verði, en þeir, sem ekki fengu síldarmjöl, verða að kaupa fóðurbæti, sem er meira en tvöfalt dýrari. Svo er þriðja atriðið, en það er nú orðið aukaatriði fyrir mér, það er að rannsaka, hvernig stendur á því, að sumir fengu ekkert síldarmjöl, en aðrir helmingi meira en þeir þurfa og miklu meira en þeir hafa nokkurn tíma fengið. Í sambandi við það ganga ýmsar sögur, sem ég skal ekki hreyfa hér, en þær eru allt annað en velviljaðar í garð fyrrv. ríkisstj.

Það er þá þetta, sem ég vil leggja aðaláherzluna á. Það er nauðsynlegt að fá þegar gerðar ráðstafanir til þess, að fluttur verði inn allverulegur hluti af þessum 6000 tonnum af maísmjöli, sem búið er að kaupa og búið er að bíða síðan í ágúst eftir flutningi. Það var minni þörf að flytja hingað epli handa mér og öðrum að borða á jólunum. Ég ætla ekki að álasa ríkisstj. fyrir það, sem hún hefur vel gert, en aðeins að minna á, að það er líka þörf á því, að búpeningurinn hafi nóg, og því aðeins getum við keypt okkar þarfir, að fyrir því sé séð. Þá vil ég líka gera till. um, að kosin sé sérstök n., er setji sig í samband við núv. ríkisstj., sem ég vona, að taki á málinu af meiri skilningi en sú fráfarandi, og sé það hlutverk þessarar n. að sjá um, að sá fóðurbætir, sem nú bíður í Ameríku, sé fluttur hingað strax og að athugað sé, hvernig mæta skuli kröfum þeirra bænda, sem ónóg síldarmjöl fengu, en orðið hafa að kaupa fóðurbæti dýrum dómum.

Um hitt, hverjum mistökin á úthlutun síldarmjöls í haust voru að kenna, skal ég ekki ræða. Það er orðið mér minna atriði en hitt, og ég vil ekki leggjast á náinn og skal ekki gera það frekar en orðið er.