04.01.1943
Sameinað þing: 12. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3905)

20. mál, kjarnafóður og síldarmjöl

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki tekið þátt í umræðunum um málið innan þings né utan, þótt Búnaðarfélagið eigi hlut að. En mér er skylt að leiðrétta misskilning. Hv. þm. Borgf. (PO) fór ekki alls kostar rétt með það, sem hann sagði frá þætti félagsins í málinu. Það hefur verið venja ríkisstj. að leita til félagsins með öll slík vandamál, áður en úr þeim var skorið, en nú er mér ekki kunnugt, að ríkisstj. gerði það, fyrr en komið var fram í okt. og orðið ljóst, að síldarmjölspantanirnar voru miklu meiri en forðinn í landinu.

En búnaðarfélagið ritaði bréf 5. ágúst og benti ríkisstj. á fóðurmjölsþörfina í landinu, fyrst og fremst þörfina á maís, og mæltist til þess við ríkisstj., að maís fengist fluttur til landsins fyrir haustið, og minntist þar á síldarmjölið. Var bent á, að þörfina yrði á þessu hausti að áætla 6500 smál. En vitanlega var það ekki í því skyni sagt, að nú skyldi vikið frá venju og látið hjá líða að safna pöntunum í tæka tíð til að kanna, hver fóðurþörfin virkilega væri. Þessari áætlun hefur nú skotið allmjög fram. Stjórninni var skylt, jafnskjótt og hún varð þess áskynja, að birgðir mundu reynast í naumara lagi, að leita aðstoðar búnaðarfélagsins til þess að sjá um, að mjölið færi til þeirra manna, sem raunverulega þurftu, eftir raunverulegum þörfum þeirra. En ekkert eftirlit var haft með því, hverjir fengu þetta síldarmjöl. Mjög mikið af því er látið til hvers, sem um það biður, mótorbátar eða skipshafnir þeirra eru skrifaðar fyrir allmiklu mjöll, og mér er þar nær að halda, að ekki hafi legið fyrir raunveruleg þörf alls staðar, — hef ástæðu til að halda, að sumir hafi tryggt sér birgðir til fleiri ára eða mjöl til áburðar. Ef allar pantanir hefðu verið innkallaðar fyrir 1. sept. og birgðum síðan samvizkusamlega skipt, efast ég um, að til vandræða hefði komið, alls ekki víst, að þurft hefði að skammta nema þar, sem sýnt var, að pantanir voru óeðlilegar. En Búnaðarfélagið var ekki spurt, og málin komust í óefni.

Undanfarin ár hefur verið haldið eftir í landinu aukabirgðum af síldarmjöli, umfram það, sem beint var miðað við framkomnar og væntanlegar pantanir. Samkvæmt þeirri venju hefði mátt gera ráð fyrir, að ríkisstj. héldi a.m.k. eftir einum 2 þús. smál. umfram þær 6500, sem bráðabirgðaáætlun búnaðarfélagsins nam. Svo var gert 1941. En nú fór sem fór. Ein ástæðan er, að verð er kaupendum hagstætt. Í stað þess að láta áður 2 lömb fyrir pokann gátu nú bændur fengið 2–3 poka fyrir lambið. En misskipting mjölsins veldur ekki minna misrétti fyrir það.

Þegar komið var fram í okt. og allt í óefni, sneri ríkisstj. sér loks til búnaðarfélagsins. En þá sá félagið sér engin tök á að gera áætlun um skömmtun á þeim tíma, þegar mikill hluti mjölsins var þegar afgreiddur. Ekki virtist um annað að ræða en draga jafnmörg % af öllum pöntunum, sem fyrir lágu. En eftir þeim upplýsingum, sem félagið fékk, áttu að vera til 75% af síldarmjöli upp í pantanirnar, og fiskimjöl átti að vera til upp í þann fjórðunginn, sem á skorti. En því miður reyndist þetta svo, er til kom, að þær upplýsingar voru mjög óábyggilegar. T.d. lá ekki fyrir, að neinar pantanir hefðu verið í mjöl á Hjalteyri, fyrr en búnaðarfélagið var búið að gera þessa nýju áætlun og byrjað var samkv. því á óforsjálum ráðstöfunum. Auk þess sýndi það sig, að fiskimjölið, sem ríkisstj. áætlaði 2–2500 smálestir, var aðeins um 1000 smál. — Búnaðarfélag Íslands á sök á því að hafa gefið rangar tillögur, sem gátu ekki staðizt, vegna þess að Ólafur Thors, þáv. hæstv. atvmrh., hafði ekki veitt því nægar og réttar upplýsingar. (ÓTh: Skýrslurnar voru réttar frá ríkisstj. Búnaðarfélagið bara misskildi þær. — PZ: Þær voru rangarl. Nei. Þær voru eins og ég sagði og ekki hægt annað en draga af þeim rangar niðurstöður. Ég kæri mig ekkert um að neita því, að sök búnaðarfélagsins var nokkur, en til hennar lágu fullar orsakir.