29.01.1943
Sameinað þing: 17. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Jónas Jónsson:

Ég álít, að það sé mjög spaugilegt, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni. Hann og flokkur hans hafa fram til síðustu stundar litið svo á, að það væri þeirra verkefni að eyðileggja þingvinnuna og þingskipulagið og það ekki með sem allra löglegustum meðulum. Ég álit þess vegna, ef menn hafa haldið það, að flokkur sá, sem kommúnistar hafa skapað hér á landi, væri horfinn frá fyrri villu sinni, þá hafi menn getað fengið vitneskju um það nú við ræðu hv. þm., að svo er ekki. Það hefur aldrei komið fyrir áður, að ég hygg, síðan Alþ. tók til starfa, að nokkur þm. hafi verið svo fávís, að honum kæmi til hugar að gera till. eins og þá, sem kom hér fram, að vísa fjárl. aftur til n., þegar komið er að umr. og afgreiðslu. Þessi aðferð hefði verið merkileg út af fyrir sig, þó að ekki hefði verið vitað, frá hvers hendi hún kom. En það skýrir hvað annað, þegar það er ljóst.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um till. eins og forseti ætlast til. Ástæðan til þess, að meir í hl. fjvn. álitur, að það sé betra fyrir málið, að það sé gengið lengra við þessa umr. heldur en gert er, er sú, að það ástand hefur skapazt í landinu, og þá alveg sérstaklega fyrir tilverknað þess flokks, sem kemur með þessa einkennilegu till., að ekki reyndist fært að afgreiða fjárl. á síðasta ári þrátt fyrir óvenju langa þingsetu. Fjvn. fékk gögn sín í hendur seint á síðasta ári, og kom þá fljótlega í ljós, að þær föstu skuldbindingar, sem settar höfðu verið í sambandi við launagreiðslur, voru svo miklar, að fullrar aðgæzlu þurfti, til þess að hægt yrði að tryggja verklegar framkvæmdir. — Það var afráðið að nota þessa umr. einmitt til þess að ræða almennt um fjárl., og þá er það sem kommúnistarnir koma fram með þessa einkennilegu till., sem er alveg einstök í sinni röð. Því að það, sem þessi hv. þm. fer fram á með þessari till., er í rauninni undirbúningur að uppreisn í þinginu. Hann hótar því, að ef till. hans verði ekki samþ., þá skuli þeir kommúnistar bera fram svo og svo mikið af brtt. til þess að rugla flokkana og þingið. Hér er á vissan hátt um eins konar grínþátt að ræða, þar sem kommúnistar hóta að halda áfram að koma með óundirbúnar till. þvert ofan í till. meiri hl. fjvn. Það væri kannske ekkert á móti því að fá ofurlítinn grínþátt, úr því að grínfígúrur eru komnar inn í þingið til okkar frá Stalín og því fólki. Það er nú að leika sitt hlutverk.